Vinnubrögð í fjárhags- og viðskiptanefnd og
Þriðjudaginn 20. desember 1988

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Herra forseti. Ég verð fyrst að vísa því á bug, sem kom fram hjá hv. þm. Pálma Jónssyni hér áðan, að ég hafi ekki fylgst með því sem sagt hefur verið um efnahagsstefnu þessarar ríkisstjórnar. Það er misskilningur. Ég hef gert það. Ég var hins vegar ekki á þingi þegar 2. umr. fór fram. Þá var hér varamaður fyrir mig. Ég veit að það hefur verið unnið afar mikið og vel af öllum nefndum og þinginu, bæði af stjórnarsinnum og stjórnarandstæðingum. Ég hef nokkra þingreynslu þó að hún sé ekki eins löng og hjá hv. síðasta ræðumanni, og við höfum áreiðanlega báðir getað borið það að við höfum oft gengið í gegnum miklar þrengingar á síðustu dögum fyrir jólaleyfi. Ég minnist þess að fyrstu árin þegar ég var hér voru iðulega fundir fram undir morgun og meira að segja kvöld eftir kvöld og drifið áfram af þeim flokkum sem þá fóru með stjórn. Það hefur ekki verið svo nú, ekki nærri því eins hart keyrt eins og þá var oft.
    Ég er hins vegar ekki að áfellast einn eða neinn með þessum orðum. Ég er að sjálfsögðu reiðubúinn til þess að taka þátt í fundum um þingstörfin. Ég hef gert það. Á þeim fundi var lögð fram áætlun um þingstörfin. Hún hefur riðlast. Það er nauðsynlegt að endurskoða hana. Í gær urðu nokkrar breytingar á umræðu sýndist mér. Þá drógu m.a. ýmsir ræðumenn sig til baka úr umræðunni eða hurfu frá orðinu og það stytti umræðuna í gærkvöldi, að vísu er gerð athugasemd við það núna að ég hafi leyft mér að svara þeim fsp. sem til mín var beint --- svona sem innskot. Í efri deild var mér legið á hálsi fyrir að svara þeim ekki svo að það er erfitt að gera hv. stjórnarandstæðingum til þægðar að öllu leyti.
    Í gær var lögð á það mikil áhersla að bráðabirgðalögin kæmu sem allra fyrst til atkvæða og þannig hefur hv. formaður fjh.- og viðskn. unnið, að því er ég taldi í fullu samráði við stjórnarandstæðinga. Það er einnig öllum hér að sjálfsögðu ljóst að það er ekki skynsamlegt að hafa umræðu um vörugjald í marga daga og jafnvel vikur og allar ríkisstjórnir hafa drifið slíkt í gegn venjulega á næturfundum þannig að í morgun var einnig lögð áhersla á að fá það frv. afgreitt hér frá hinu háa Alþingi.
    Mér er fullkomlega ljóst að tíminn er skammur til jólaleyfis og að nauðsynlegt er að setjast niður og kortleggja hvernig við komum nauðsynlegum málum fram fyrir jól eða a.m.k. fyrir áramót. Ég er reiðubúinn um leið og forseti Sþ. kallar til fundar, og hvet til þess að það verði gert, að ræða þau mál og sjá hvort við getum ekki náð samstöðu um afgreiðslu mála en snúið okkur nú að því að greiða atkvæði um það frv. sem lögð hefur verið áhersla á að fá afgreitt á þinginu í dag bæði af stjórnarandstæðingum og stjórnarsinnum.