Vinnubrögð í fjárhags- og viðskiptanefnd og
Þriðjudaginn 20. desember 1988

     Ingi Björn Albertsson:
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram og hefur leitt það í ljós að hún var vissulega þörf þar sem víða er greinilega pottur brotinn, ekki bara hjá okkur uppi í fjh.- og viðskn. Nd., heldur einnig í fjvn., ríkisstjórninni og hér inni á þinginu sjálfu. Þar af leiðandi hlýt ég að taka heils hugar undir hugmyndina um þann fund sem nú hefur verið boðaður kl. 17 um framhaldið á þingstörfunum.
    Ég harma það hins vegar að hv. formaður, sem ég vil líka hrósa fyrir lipurð og gott samstarf, skuli telja þessi vinnubrögð eðlileg. Það er eiginlega hræðilegt til þess að hugsa ef slík vinnubrögð eiga að gilda út um allt þing, í öllum störfum þingsins. Þá held ég að við förum nú ekki mikið lengra. Það er hins vegar afskaplega hæpið að vera stoltur af slíku og ég tel að hann hafi jafnvel misst þetta út úr sér í sinni vörn.
    Ég tel eðlilegt, eins og hv. 1. þm. Suðurl. kom inn á og ég kom reyndar inn á sjálfur í fyrri ræðu minni, að þetta frv. verði tekið aftur til meðferðar nefndarinnar þar sem hér er um gjörbreytt mál að ræða og meira en það. Það þarf að kalla aftur aðila til umsagnar því að þeir sem gáfu umsagnir um fyrra frv. gerðu það á allt öðrum forsendum en nú liggja fyrir. Ég vil minna hv. formann á það að ég mótmælti kröftuglega þessum framgangi í morgun á fundinum og bað jafnframt um það að fá hlé til að kynna þetta í mínum þingflokki sem öllum á að vera ljóst að var ekki veitt. Hins vegar fékk ákveðinn stjórnarliði leyfi til að fara á þingflokksfund þannig að ekki sátu allir við sama borð hvað það varðaði að kynna þetta mál í sínum þingflokki.
    Varðandi það samkomulag sem hv. formaður sagði að hefði verið gert hér í gærkvöldi, þá er það ekki alveg rétt. Ég minnist þess að við töluðum um að bráðabirgðalögin skyldu rúlla tiltölulega fljótlega í gegnum nefndina, en ég mótmælti strax á þeim fundi og gerði athugasemdir við það að vörugjaldið gæti farið í gegnum nefndina á svo skömmum tíma. Bráðabirgðalögin voru afgreidd úr nefndinni á kannski 5--10 mínútum. Á þeim tíma voru okkur afhentar fundargerðir frá Ed., sem við væntanlega áttum að kynna okkur, sem hafa sennilega verið upp á 40--50 síður og ekki nokkur einasta leið að komast yfir, enda fór ég enn á ný fram á fundarhlé þar til að gefa þá nefndarmönnum kost á þó ekki væri annað en að lesa þær. Það var ekki veitt.
    Hæstv. forseti. Ég vil taka undir það að fundi verði frestað á meðan fundur í fjh.- og viðskn. stendur yfir, að öðrum kosti verði þá fundi nefndarinnar frestað, en að þessir tveir fundir verði ekki haldnir á sama tíma. Ég harma það að hæstv. forsrh. skuli álíta það að vörugjaldið þurfi ekki eðlilega --- ég vil segja eðlilega --- mikla umræðu. Auðvitað þarf þetta mikla umræðu. Þetta er viðamikið og stórt mál og tekur á mörgum þáttum. Ég mun hins vegar geyma mér þá umræðu þangað til málið sjálft kemur á dagskrá.
    Ég tek einnig undir með hv. þm. Pálma Jónssyni. Þó að hann og hans flokksmenn megi muna hvernig hér var starfað á síðasta þingi eiga þingmenn ekki að

þurfa að vera hér yfir hátíðarnar á milli jóla og nýárs. Ég tek undir þá ósk hans að hér verði gefið eðlilegt jólaleyfi.
    Það er óhætt að koma kannski inn á það úr því að maður er hér uppi í ræðustól að þessi hringlandaháttur í stjórnarliðinu er náttúrlega fyrir neðan allar hellur. Hér hefur fólk hópast í verslanir til að, sumir vilja kalla það að hamstra, en alla vega hagnast örlítið á því að vera á undan vörugjaldshækkuninni. Með hringlandahættinum að bakka til baka hefur þetta fólk sem taldi sig vera að hagnast eitthvað örlítið orðið fyrir enn stærra tapi fyrir bragðið. Þetta er nú akkúrat stjórnarstefnan, upp og niður, út og suður.
    Hæstv. forseti. Ég skal ekki hafa þetta lengra, en ég ítreka þá ósk mína að þessir tveir fundir, annars vegar í deildinni og hins vegar í nefndinni, skarist ekki og verði ekki haldnir á sama tíma.