Húsnæðisstofnun ríkisins
Þriðjudaginn 20. desember 1988

     Geir H. Haarde:
    Herra forseti. Þetta mál sem nú er verið að afgreiða við 2. umr. gefur í sjálfu sér ekki tilefni til umræðna. Ég vakti athygli á því við 1. umr. að það kynni að fara betur á því að skipa þessari breytingu með öðrum hætti í lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins og lagði því fram breytingar í þá veru í morgun þegar tókst að halda lögmætan fund í nefndinni. Við þeim hugmyndum var orðið þannig að ég er fyllilega sáttur við frv. eins og það er.
    Ég vil vekja sérstaka athygli á því og undirstrika það, sem reyndar kom fram hjá formanni og kemur fram í nefndaráliti og er grundvallaratriði að því er varðar þessar svokölluðu búsetaréttaríbúðir, að með þessu er ekki hugmyndin að koma betur settu fólki þjóðfélagsins inn í húsnæðiskerfi sem ætlað er þeim lakar settu. Það kom rækilega fram í nefndarstarfinu, það kemur rækilega fram í nefndarálitinu og það kom fram í svari ráðherra við fyrirspurn við 1. umr. að þetta er ekki meiningin. Fyrst þannig er í pottinn búið er alveg ástæðulaust af minni hálfu og okkar sjálfstæðismanna að leggja stein í götu þessa máls. Við teljum rétt að fólk geti valið um það form sem það kýs að búa við þó að væntanlega sé hér um að ræða fyrirkomulag sem sjálfsagt er ekki ódýrara fyrir fólk. Fólk þarf eflaust að greiða jafnmikið eða allt að því jafnmikið í húsaleigu og önnur gjöld sem þessu fylgja eins og það hefur þurft að borga í afborganir af íbúð sem það væri sjálft að kaupa. En það um það. Málið snýst um að gefa fólki ákveðið valfrelsi.
    Ég ætla þess vegna ekki að orðlengja mjög um frv. Ég vil þakka framsögumanni og formanni nefndarinnar fyrir að hafa lýst því yfir að ákveðin fullyrðing í greinargerð með frv. eigi ekki við rök að styðjast og læt síðan útrætt um þetta mál.
    Hins vegar vildi ég við þetta tækifæri víkja dálítið að hinum stærri þáttum í húsnæðismálunum eins og ég gerði við 1. umr. um þetta mál. Þá óskaði ég eftir að félmrh. greindi nokkuð frá því hver væri staða endurskoðunar annars vegar á hinu almenna húsnæðislánakerfi og hins vegar á hinu félagslega kerfi. Ráðherra greindi þá frá því að starfshópur sem skipaður hefði verið hefði ekki lokið störfum en væri hins vegar að búa sig undir að ljúka þeim. Nú vill svo til að þessi hópur, með hæstv. forseta þessarar deildar í forsvari, hefur skilað af sér ákveðinni vinnu sem ég tel að sé mjög jákvætt og gagnlegt framlag til þessara mála.
    Þannig vill hins vegar til að Alþýðusamband Íslands hefur til að mynda lýst andstöðu við veigamikla þætti í þeim hugmyndum sem þar er verið að tala um, eins og t.d. húsbréfin svokölluðu og það fyrirkomulag sem þeim fylgir. Það er því ljóst að þessar nýju hugmyndir eru ekki ágreiningslausar og um þær kann að standa nokkur slagur þegar fram í sækir. Engum blandast hins vegar hugur um að við núverandi ástand þessara mála er ekki unnt að búa til frambúðar, enda sýndi ég fram á það við 1. umr. að eftir á að giska 20 til 25 ár muni ríkissjóður þurfa að greiða með lánum Húsnæðisstofnunar, og þá eingöngu

með hinum almennu lánum en ekki félagslegu íbúðunum, hvorki meira né minna en 7 milljarða kr. á ári á núgildandi verðlagi. Þá mega hæstv. fjmrh., bæði núv. og fyrrv., hafa sig alla við að auka skatta ef standa á undir slíkri niðurgreiðslu í framtíðinni. Þó að þeir hafi mikið ímyndunarafl báðir tveir reikna ég ekki með því að þeir geti ímyndað sér með hvaða hætti standa á undir slíkum sköttum fyrir þennan eina lið, þ.e. niðurgreiðslur á húsnæðislánum, þegar fram í sækir að óbreyttu kerfi. Því held ég að nauðsynlegt og eðlilegt sé að endurskoða þessi mál og ég fagna því að niðurstaða er fengin úr því starfi sem félmrh. beitti sér fyrir. Ég fyrir mitt leyti vil gjarnan stuðla að því að þær tillögur sem þar eru fram settar megi ná fram að ganga.
    Þetta mál er hins vegar þannig vaxið að um núverandi skipan var nánast samið í kjarasamningum milli aðila vinnumarkaðarins í febrúar á árinu 1986. Þeir áttu síðan mikinn þátt í að fullvinna frv. um þessi mál sem samþykkt var á þingi vorið 1986. Það er því ljóst að þeir hafa átt mikla aðild að núverandi kerfi, enda er það þannig að meginparturinn af þeim fjármunum sem til þess renna koma frá lífeyrissjóðakerfinu í landinu þar sem aðilar vinnumarkaðarins í landinu koma að sjálfsögðu mjög við sögu.
    Nú vildi ég spyrja hæstv. félmrh. að því hvernig hún hyggist standa að þessu máli á næstunni og ítreka spurningu mína úr 1. umr. um hvort hún hyggist beita sér fyrir framlagningu frv. á grundvelli þeirra tillagna sem nú liggja fyrir jafnvel þó að Alþýðusamband Íslands standi ekki að slíkum breytingum. Þegar verið er að ræða einn lítinn þátt í lögunum um Húsnæðisstofnun ríkisins, sem ég tel að vísu enga sérstaka nauðsyn hafa rekið til að taka hér í forgangsröð frumvarpa, tel ég fullkomlega eðlilegt að í umræðunni sé vikið að hinum stærri þáttum þessara mála í heild sinni og um þá fjallað. Við sjálfstæðismenn í félmn. höfum ekki tafið fyrir þessu frv. þó að ég lýsi enn og aftur furðu minni á því að það skuli vera sérstakt forgangsmál og látið ganga fyrir ýmsum hinum veigameiri málum sem maður hefði talið að ættu að hafa sérstakan forgang. Þvert á móti held ég að við höfum reynt að greiða fyrir þessu máli með því að sjá til þess að félmn. væri fullmönnuð, eða hefði a.m.k.
nægilega marga nefndarmenn til þess að geta haldið fundi. Það er einmitt eitt af því sem einkennir þinghaldið nú að stjórnarliðar nenna ekki að mæta á nefndarfundi til þess að halda uppi eðlilegum nefndarstörfum og þurfa að leita á náðir stjórnarandstæðinga. Auk þess höfum við í minni hl. lagt fram ákveðnar breytingar sem ég held að séu til bóta þó að þær snerti ekki efni málsins í sjálfu sér.
    Ég held að ég sé ekki að syndga upp á náðina, herra forseti, þó að ég beini spurningum um hinn stærri þátt þessara mála til hæstv. ráðherra. Ég hefði getað rætt mun meira um efni frv. ef ég hefði haft einhvern áhuga á að tefja það, sem ég geri ekki og sé enga ástæðu til. Þess í stað sé ég ríka ástæðu til að

hugleiða nokkuð heildarmyndina fyrst þessi mál eru hér á dagskrá. Hvað tekur við að því er varðar Byggingarsjóð ríkisins og útlánareglurnar þar?
    Sömuleiðis hvað tekur við að því er varðar félagslega húsnæðiskerfið og hugsanlegar breytingar á því? Það kerfi hefur verið í endurskoðun um nokkuð langa hríð og því hefði mátt segja sem svo að breytingin sem hér er til meðferðar hefði mátt bíða eftir því alveg eins og við í Sjálfstfl. töldum eðlilegra á sínum tíma að kaupleigukerfið í heild sinni biði þess tíma. En lögin eru eins og þau eru í dag m.a. fyrir okkar atbeina og vegna samkomulags sem gert var um það á sínum tíma. Það breytir ekki því að heildarendurskoðun þessara mála mun vera á leiðinni, reyndar búin að vera það ærið lengi án þess að nokkuð bóli á niðurstöðum. Ég held því að gagnlegt væri að fá dálitlar viðbótarupplýsingar um hvar það mál er á vegi statt.
    Ég skal síðan ekki orðlengja þetta frekar, herra forseti, en vil bæta því við í lokin af því að í gær varð nokkurt fjaðrafok af minni hálfu vegna þess hvernig að þessu máli var staðið af hálfu formanns félmn. Það mál leystist farsællega af hans hálfu og ég vil þakka honum fyrir það hvernig hann brást við. Honum höfðu orðið á ákveðin mistök sem hann tók auðvitað á sig og þar með var málið látið niður falla af hálfu annarra nefndarmanna. Málið er þannig allt komið í eðlilegan farveg eftir að upplýstist hvernig það var í pottinn búið. Ég held því að hv. formaður félmn. standi fullréttur eftir þær ábendingar sem ég hafði fram að færa um málsmeðferðina í gær og ég þakka honum fyrir samstarfið í þessu máli og mörgum öðrum á undanförnum missirum.