Aðgerðir í efnahagsmálum
Þriðjudaginn 20. desember 1988

     Frsm. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. (Kristín Halldórsdóttir):
    Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. á þskj. 310 sem hljóðar svo:
    ,,Með þessu frv. tekur ríkisstjórnin sér það vald að ákveða einhliða þak á almenn laun og segja fyrir um hvenær segja megi upp samningum. 1. minni hl. getur ekki fallist á það sem réttmætan lið í lausn á vanda atvinnulífsins sem er að stærstum hluta fólginn í óhóflegum fjármagnskostnaði, svo og þróun gengis og verðlags. 1. minni hl. leggur því til breytingar á frv. sem birtar eru á þskj. 284. Í þeim felst að frá gildistöku laganna verði aflétt banni við launahækkunum og uppsögn samninga.``
    Undir þetta rita Kristín Halldórsdóttir og Ingi Björn Albertsson.
    Þetta er sem sagt álit 1. minni hl. þar sem hv. 17. þm. Reykv. skilar séráliti þótt hann standi að þeim brtt. sem við flytjum sameiginlega, þessi þrjú, á þskj. 284.
    Ég vil svo aðeins leggja áherslu á að ef hv. þm. greiða atkvæði eftir sömu afstöðu þingflokka og kom fram í meðförum málsins í Ed. er þetta frv. fallið, en að ráði hv. 6. þm. Norðurl. e. ætla ég að spara mér stór orð og þung. Hann virtist búa yfir einhverju sem enn er á huldu.
    Ég vil líka leggja áherslu á að fulltrúar Alþýðusambands Íslands komu á fund fjh.- og viðskn. í morgun og leiðréttu þann misskilning, sem hefur komið fram í fréttum, að Alþýðusambandið sé andvígt því að launafrystingu sé aflétt fyrr en í febrúar. Þær fullyrðingar eru sem sagt rangar. Fulltrúar Alþýðusambands Íslands kváðust ekkert hafa á móti því að aðrir gætu samið þótt síðar kæmi að þeirra fólki.
    Það er líka ástæða til að geta þess að á þessum fundi var dreift ljósriti af bréfi frá Jóhönnu Sigurðardóttur, hæstv. félmrh., sem hún ritaði Alþjóðavinnumálastofnuninni fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands. Bréfið er ritað í tilefni af kæru Alþýðusambandsins vegna banns við verkföllum. Bréfið er dagsett 12. des. sl., daginn áður en hæstv. forsrh. lýsti því yfir á Alþingi að ríkisstjórnin væri reiðubúin að fella ákvæðið um bann við verkföllum úr brbl. Í bréfinu standa m.a. þessi orð, með leyfi forseta: ,,Ákvæði 2. mgr. 4. gr. laganna um bann við verkföllum er í reynd aðeins sérstök birting ákvæða um friðarskyldu gagnvart gildandi kjarasamningum og hafa enga þýðingu umfram það. Þegar þetta er virkt getur það ákvæði að mati ríkisstjórnar Íslands með engu móti talist fela í sér brot á starfsréttindum verkalýðsfélaga samkvæmt samþykktum ILO.``
    Ég endurtek það, herra forseti, að þetta bréf er dagsett 12. des., daginn áður en hæstv. forsrh. gefur yfirlýsingu sína á Alþingi. Ríkisstjórnin var sem sagt sjálf búin að staðfesta fyrir sitt leyti innihaldsleysi samþykkis síns áður en það var sett fram.