Aðgerðir í efnahagsmálum
Þriðjudaginn 20. desember 1988

     Frsm. 2. minni hl. fjh.- og viðskn. (Geir H. Haarde):
    Herra forseti. Það er ánægjulegt að í þessum þrengingum á aðventunni skuli þó alltént hv. formaður fjh.- og viðskn. sjá ástæðu til að mæta hér úr stjórnarliðinu. Það er ekki sýnilegt að það sé neinn annar hér ( Forseti: Forsetinn auðvitað.) en forsetinn. Tveir ráðherrar híma þarna í hliðarherbergjum og ræða skattamál eflaust.
    Ég mæli fyrir áliti 2. minni hl. fjh.- og viðskn. um 20. mál þingsins. Ég er einn í þessum minni hl. Nefndarálit mitt er svohljóðandi:
    ,,Frv. þetta á rætur að rekja til brbl. sem ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar beitti sér fyrir í maímánuði sl. Þeim brbl. var breytt með öðrum brbl. núv. ríkisstjórnar sem eru til meðferðar samhliða þessu frv. sem mál nr. 8. Að dómi undirritaðs eru forsendur brott fallnar fyrir mikilvægustu greinum þess máls sem hér liggur fyrir. Hann stendur því að brtt. á þskj. 284 ásamt fulltrúum Borgfl. og Kvennalista og styður frv. svo breytt.``
    Þetta þýðir það, herra forseti, að ég mun styðja frv. ef þessar brtt. ná fram að ganga, en hv. síðasti ræðumaður hefur gert grein fyrir efni þeirra. Þetta er sambærileg og raunar alveg sams konar brtt. og flutt var í Ed. þegar málið var til meðferðar þar.
    Nú er það þannig um þetta frv. að mörg ákvæði þess eru úrelt orðin vegna þess hversu langt er um liðið frá því að lögin voru sett í maímánuði sl. Hins vegar stendur eftir það meginatriði að allir launasamningar verði bundnir til 15. febr. nk. verði frv. eigi breytt í hv. Nd. Í raun þýðir þetta að spurningin snýst um hvort samningsfrelsi verður aftur ríkjandi hér á landi 15. febr. nk. eða þegar þessi lög taka gildi, væntanlega á næstu dögum eða fyrir áramót, sex vikum áður en samningsfrelsið hefði ella komið til framkvæmda.
    Þannig var að í upphaflegum lögum var 4. gr. öðruvísi en hún er nú orðin því að í Ed. var felld niður 2. mgr. 4. gr. um að verkbönn, verkföll, þar með taldar samúðarvinnustöðvanir eða aðrar aðgerðir, sem er ætlað að knýja fram aðra skipan kjaramála en lög þessi mæla fyrir um, séu óheimilar. Af einhverjum ástæðum tók hæstv. forsrh. það upp hjá sér í meðferð málsins í Ed. að leggja til að þessi málsgrein félli niður enda þótt fyrri málsgreinin stæði óbreytt.
    Nú er það þegar upplýst, en það má segja að það hafi tekið menn um það bil tvo tíma að uppgötva það, hvers lags markleysa sú tillaga hæstv. forsrh. var að fella niður bannið við verkbönnum og verkföllum en hafa áfram í gildi ákvæði sem kveður á um að allir kjarasamningar gildi til 15. febr. Svona tillaga, sem Ed. Alþingis breytti síðan í ákvörðun og breytti lagatextanum í bráðabirgðalögunum, er auðvitað sýndarmennskan ein. Tillaga sem þessi getur ekki hafa haft annan tilgang en að blekkja og villa um fyrir fólki og það tókst í þó nokkra stundarfjórðunga, sennilega eina átta eða tíu, þar til menn uppgötvuðu hvers konar sýndarmennska var á ferðinni. En það vantaði ekki að hæstv. forsrh. berði bumbur sínar í

hv. Ed. og sakaði sjálfstæðismenn um að vera steinrunna og eitthvað þaðan af verra ef þeir gætu ekki hugsað sér að gera þessa breytingu.
    Auðvitað ber Sjálfstfl. ábyrgð á því að þessi bráðabirgðalög voru upphaflega sett. Það var forsrh. Sjálfstfl. og formaður hans sem gaf þau út og Sjálfstfl. dettur ekki í hug að hlaupast á brott frá þeim ákvörðunum sem þá voru teknar í ljósi efnahagsaðstæðna á þeim tíma. En það er auðvitað ekki hægt að una því þegar fyrrv. samstarfsmenn, núv. hæstv. forsrh., koma svona fram. Hann slengir fram tillögu um að þessari grein verði breytt með þeim hætti sem hann lagði til og hefur síðan í flimtingum þær ákvarðanir sem teknar voru í samstarfinu á sl. vori. Það er alveg ljóst að hæstv. forsrh. er undir slæmum áhrifum í þessu máli, væntanlega frá hæstv. fjmrh., og kemur það út af fyrir sig ekkert á óvart, en hann skal ekki halda að hann geti með tilkynningum af þessum toga hreytt ónotum í sína fyrrverandi samstarfsmenn án þess að menn taki eftir því.
    Reyndar er það svo, herra forseti, að í bráðabirgðalögum núv. ríkisstjórnar frá því í haust var gengið lengra í að þrengja samningsrétt og nema úr gildi kjarasamninga en gert var á sl. vori. Á sl. hausti var það að sjálfsögðu á meðábyrgð Alþb. undir forustu efnahagsráðherra Alþb., hæstv. fjmrh., eflaust með góðum stuðningi hæstv. utanrrh. Við setningu bráðabirgðalaganna í september voru þurrkaðar út þær launabreytingar sem þó hafði verið gert ráð fyrir í fyrri bráðabirgðalögum þó svo að samningsbannið, launastöðvunarbannið, væri stytt um tæplega tvo mánuði.
    Við teljum eðlilegt við núverandi aðstæður að stíga þetta skref sem varðar 4. gr. til fulls, fyrst verið er að hrófla við greininni og stjórnin taldi sér kleift að stytta verkfallsbannið um tæplega tvo mánuði, og afnema það að fullu við gildistöku þessara laga. Þess vegna studdu sjálfstæðismenn brtt. Kvennalista og Borgfl. í Ed. og þess vegna hef ég gerst meðflm. að sambærilegri tillögu í hv. Nd.
    Hæstv. núv. ríkisstjórn stendur þessa dagana fyrir gríðarlegri kjaraskerðingu í formi skattahækkana. Fulltrúar Alþýðusambandsins, sem hafa komið á fundi í fjh.- og viðskn., hafa látið okkur í té upplýsingar um hvað
gera megi ráð fyrir að kaupmáttur minnki vegna þessara skattahækkana og þær upplýsingar koma mjög heim og saman við það sem ég hef nefnt um þetta atriði í umræðum um önnur mál. Það er alveg ljóst að kaupmáttur atvinnutekna hefur minnkað í landinu með minnkandi möguleikum fólks á að afla sér tekna með yfirvinnu. Í því sambandi má líka benda á að atvinnuleysisdögum hefur fjölgað. Hjá iðnverkafólki er nú um það bil sexfalt meira atvinnuleysi en verið hefur að undanförnu og má kannski teljast eðlilegt og sama er að segja í öðrum verkalýðsfélögum.
    Til viðbótar þeirri skerðingu kaupmáttar sem stafar af minna vinnumagni koma síðan skattahækkanir ríkisstjórnarinnar. Samtals nemur þetta 7--10% kjaraskerðingu. Þessar tölur hef ég farið með hér áður

og þessar tölur hafa fulltrúar ASÍ staðfest á fundum í fjh.- og viðskn. Síðan bætist við það sem ríkisstjórnin kann að hugsa sér að gera í málefnum atvinnuveganna, hugsanlega öðru hvorum megin við áramótin, hugsanlega síðar, en óhjákvæmilega ekki án þess að það komi við almenning í landinu og þá bætist það enn við þá kjaraskerðingu sem orðin er af þessum sökum.
    Það kom skýrt fram í hv. fjh.- og viðskn. að þær skattahækkanir sem nú eru á döfinni munu síst verða til að draga úr launakröfum í kjarasamningum á næstunni, enda væri það illskiljanlegt ef ekki kæmi við kjarasamninga sú kaupmáttarskerðing sem fólgin hefur verið í skattahækkunaráformum ríkisstjórnarinnar. Hitt er annað mál að það er fullkomlega óeðlilegt þegar búið er að beita sér fyrir því að launasamningar séu afnumdir og samningsfrelsi afnumið, þegar þannig er búið að setja nýjar leikreglur um þetta efni skuli ríkisvaldið ganga fram fyrir skjöldu eins og nú er gert með kjaraskerðingu í formi skattahækkana í þeim mæli sem hugmyndir eru uppi um hér í þinginu. Það þarf ekkert að koma á óvart þó að mönnum blöskri það og þó að mönnum þyki eðlilegt að verkalýðsfélögin geti brugðist við slíkum íþyngingum með nýjum samningum og þeim hætti sem eðlilegur er í samskiptum á vinnumarkaðnum.
    Ég vil taka undir það sem kom fram hjá hv. 10. þm. Reykn. og varðar það sem haft hefur verið eftir forseta Alþýðusambands Íslands um 4. gr. í því frv. sem hér er til umræðu. Mér er tjáð að það séu mörg vitni að því að hæstv. fjmrh. hafi sjálfur borið það á forseta Alþýðusambandsins eða sagt það vera hans skoðun að það mundi gera illt verra að fella 4. gr. alveg úr gildi eða láta hana falla úr gildi þegar lögin ná fram að ganga.
    Það er sem sagt haft eftir fjmrh. að hann beri það á forseta Alþýðusambandsins að forseti Alþýðusambandsins kæri sig ekki um að samningsfrelsi verði aftur komið á fyrr en 15. febr. Að gefnu þessu tilefni var gengið mjög á forseta Alþýðusambandsins í fjh.- og viðskn. um hvort hér væri rétt með farið, hvort það væri virkilega svo að hann hefði ekki áhuga á því að 4. gr. væri breytt þannig að samningar væru lausir í samræmi við gildandi ákvæði hvers kjarasamnings fyrir sig. Það kom fram hjá hv. 10. þm. Reykn. og ég undirstrika það, að forseti Alþýðusambands Íslands bar þetta algerlega af sér, taldi að hér væri mikil firra á ferðinni að því er hann sjálfan varðaði og taldi reyndar af og frá að nokkur maður hefði getað haft slíkt eftir sér.
    Reyndar bætti hann því við að hann hefði spurt hæstv. fjmrh. að því hvað hæft væri í þessum orðrómi og hæstv. fjmrh. hefði sagt sér að þetta væri tómur uppspuni frá upphafi til enda, fjmrh. hefði aldrei látið sér um munn fara neitt sem skilja mætti þannig að forseti Alþýðusambandsins vildi ekki fá samningsfrelsi þegar í stað. Þannig fer nú tveimur sögum af afstöðu hæstv. fjmrh. til þess hver afstaða forseta Alþýðusambandsins sé. M.ö.o.: getur það verið að

hæstv. fjmrh. gangi um sali þessa húss og segi tvær sögur af því hver afstaða forseta Alþýðusambandsins sé gagnvart 4. gr. og afnámi samningsréttar?
    Það er eðlilegt að skýra frá því þessu til viðbótar að forseti Alþýðusambandsins telur ekki að það eigi eingöngu að afnema 4. gr. Hann vill ganga lengra og vill helst, að því er okkur skildist, að löggjafinn beiti sér fyrir því að allir samningar verði lausir, ekki bara þeir sem samkvæmt sínum eigin ákvæðum yrðu lausir falli 4. gr. niður. En hann sagði hins vegar líka, og það er rétt að ítreka það, að hann teldi afnám 4. gr. frv. spor í rétta átt og mun skárra en hafa hana óbreytta inni í lögunum eins og hún er nú orðin eftir meðferðina í hv. Ed.
    Þetta eru staðreyndirnar um þetta atriði að því er afstöðu forseta Alþýðusambands Íslands varðar. Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt að hæstv. fjmrh. standi upp og geri grein fyrir hvort það sé svo að hann sé að bera rangar sakir á forseta Alþýðusambandsins, beri út að hann sé á móti því að samningsfrelsi verði komið á eða hvort hann hefur sagt mönnum eitthvað annað sem mætti skilja sem svo eða hvort hann er e.t.v. að segja forseta Alþýðusambandsins ósatt þegar hann kannast ekki við ummæli sem þessi.
    Ég held að það sé full ástæða til að fá þetta upplýst og ég efast ekkert um að ráðherrann vill hafa það sem sannara reynist í þessu og það viljum við eflaust öll. En hitt er ljóst að það er eindreginn vilji Alþýðusambandsins að
4. gr. falli brott ef ekki er hægt að ná fram frekari breytingum á frv. sem gengju þá í þá átt að opna alla kjarasamninga í landinu og ekki bara þá sem opnast sjálfkrafa falli 4. gr. niður.
    Hv. 10. þm. Reykv. vitnaði einnig til þess sem alþýðusambandsmenn lögðu fyrir fjh.- og viðskn. Það var annars vegar ályktun miðstjórnar ASÍ frá 14. des. um samningsréttarmál og hins vegar hluti af greinargerð sem ríkisstjórn Íslands sendi til Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og varðar ákvæði fyrrverandi 2. mgr. 4. gr. laganna sem felld var burt í hv. Ed.
    Ég sé ekki ástæðu til þess að fara yfir það aftur, en það er alveg ljóst að það var hrein blekking að fella niður þá málsgrein, eða réttara sagt hrein tilraun til blekkingar því að hún mistókst. Hún afhjúpaðist innan tveggja klukkutíma. Það var hrein tilraun til blekkingar að fella brott 2. mgr. 4. gr. og segja sem svo: Nú mega menn byrja að tala saman --- rétt eins og það hafi verið bannað --- en það mega engir samningar eftir sem áður taka gildi fyrr en 15. febr.
    Ég ítreka, herra forseti, að ég tel óeðlilegt að íþyngja almenningi með stórhækkuðum sköttum eins og nú er verið að gera á sama tíma og almenn launastöðvun er í landinu og verðstöðvun. Ég hef átt aðild sem stjórnarþingmaður að ákvörðunum þar sem slíkri launastöðvun var komið á í maímánuði sl. Ég hleyp ekkert frá þeim ákvörðunum. En slíkar ákvarðanir eru auðvitað teknar á ákveðnum forsendum, sem snerta alla aðila, og þá m.a. þeim að ríkið gangi

ekki á lagið í slíku launastoppi og í slíkri verðstöðvun til að bæta eigin hag á kostnað almennings í landinu.
    Það er auðvitað fullkomlega óeðlilegt að ganga á lagið með þeim hætti þegar mönnum eru allar bjargir bannaðar í samningum og nýta sér ástandið til þess að afla tekna í ríkissjóð með sköttum eins og nú er verið að gera. Það er auðvitað fullkomlega óeðlilegt. En hámark óeðlileikans er það þegar reynt er að læða því inn hjá almenningi, eins og gert hefur verið í tengslum við tekjuskattsfrv., að hækkanir á tekjuskattinum komi ekki við pyngju hins venjulega manns. Það er slík ósvífni að það tekur auðvitað engu tali.
    Ég mun ræða það mál allt miklu frekar þegar frv. um tekjuskatt og eignarskatt, sem hv. fjh.- og viðskn. hefur nú afgreitt frá sér, kemur til meðferðar hér í deildinni. Ég get hins vegar alveg endurtekið það sem ég sagði hér í dag að framlagning þess frv., þau fylgigögn sem því fylgdu og sá blaðamannafundur, sem haldinn var af því tilefni, er einhver ósvífnasta blekkingartilraun í tengslum við skattamál og stjórnmál á Íslandi í seinni tíð sem ég man eftir. Og fjmrh. skal fá að svara fyrir það þegar þar að kemur, en ég skal ekki gera neina kröfu til þess að hann geri það í þessari umræðu sem er um annað málefni.
    Í frv. því sem hér er til umræðu eru, eins og ég sagði áðan, mörg atriði sem úrelt eru orðin vegna þess hversu langt er um liðið frá því að frv. var samþykkt. Þessi bráðabirgðalög voru sett 20. maí sl. sem þáttur í hliðarráðstöfunum vegna gengisbreytingar og annarra atriða sem þá voru á döfinni í efnahagsmálum. Síðan eru liðnir einir sjö mánuðir og það er ljóst að margt í þessu er úrelt orðið. Ég hef rakið í meginatriðum hvað ég tel að þar sé helst á ferðinni. Ég mun ekki orðlengja þetta frekar, herra forseti, en ítreka það að ég styð frv. að sjálfsögðu eins og ég gerði í maímánuði að teknu tilliti til þeirra breytinga sem minni hl. fjh.- og viðskn. hefur lagt til. Nái þær breytingar ekki fram að ganga er það mín till. og 2. minni hl. fjh.- og viðskn. að frv. verði fellt.