Efnahagsaðgerðir
Þriðjudaginn 20. desember 1988

     Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Geir H. Haarde):
    Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti minni hl. hv. fjh.- og viðskn. Minni hl. sendi frá sér stutt nál. sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Meiri hl. nefndarinnar ákvað að afgreiða frv. þetta með brtt. út úr nefndinni með slíkum hraða að minni hl. gafst hvorki tóm til að kynna sér tillögurnar að nokkru marki né ræða þær við hagsmunaaðila. Minni hl. getur við þessar aðstæður ekki annað en lýst andstöðu við þessi vinnubrögð og málatilbúnað og mun flytja brtt. á sérstökum þskj.``
    Undir þetta rita auk mín Ingi Björn Albertsson og Kristín Halldórsdóttir.
    Þetta er sem sagt, herra forseti, sameiginlegt nál. Borgfl., Kvennalista og Sjálfstfl. og við flytjum brtt. á einu þskj. sameiginlega, þskj. 297, auk þess sem við hv. þm. Kristín Halldórsdóttir flytjum aðrar brtt. á þskj. 298.
    Það kom fram í umræðum um þingsköp í dag að mikil skemmri skírn hefði verið á afgreiðslu þeirra brtt. sem meiri hl. nefndarinnar ákvað að gera að sínum. En þannig var að nefndarmenn fjölluðu um þetta frv. eins og það lá fyrir frá Ed., áttu viðræður við aðila vinnumarkaðarins um það á nefndarfundi í morgun, en síðan bárust frá hinum svokölluðu æðri máttarvöldum í stjórnarsamstarfinu boð um að nú yrði að gera breytingar á frv. og gera hlé á störfum nefndarinnar meðan beðið væri eftir þeim.
    Þegar því hléi lauk, þá bárust á blöðum einhverjar hugmyndir sem kom síðan á daginn að ekki var hægt að nota. Þegar búið var að endursenda þær og fá nýjar hugmyndir, þá ákvað meiri hl. að drífa þetta bara út úr nefndinni við svo búið án þess að gefa okkur í minni hl. neinn sérstakan kost á að kynna okkur þetta. Síðan munu meirihlutamenn reyndar hafa breytt áliti sínu enn seinni part dagsins og grunar marga að hér liggi nú einhvers staðar a.m.k. fiskur undir steini ef ekki einhver atkvæði hér í þinginu miðað við það hvernig þetta mál er allt í pottinn búið.
    Ég ætla ekki að gera neinar athugasemdir við málflutning frsm. meiri hl. en mig langar til þess að fara hér aðeins yfir þær brtt. sem við flytjum í minni hlutanum.
    Þar er þá frá að segja, herra forseti, að á þskj. 297 gerum við í fyrsta lagi tillögu um að 1. gr. breytist og 3. mgr. hennar orðist svo, með leyfi forseta:
    ,,Lán skv. 1. mgr. þessarar greinar skal undanþegin stimpilgjaldi. Skal það endurgreitt á þremur árum með greiðslum úr ríkissjóði.``
    Í öðru lagi gerum við tillögu um að í stað 3.--9. gr. komi fimm nýjar greinar og leysi þar með af hólmi ákvæðin um hinn svonefnda Atvinnutryggingarsjóð útflutningsgreina, öðru nafni Stefánssjóð. En tillaga okkar um hinar fimm nýju greinar er svohljóðandi, með leyfi forseta:
,,a. Stofna skal rekstrardeild við Byggðastofnun sem hafi það að markmiði að treysta fjárhagsstöðu fyrirtækja í útflutnings- og samkeppnisgreinum í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu, meiri

háttar skipulagsbreytingar og samruna fyrirtækja og annað það sem til hagræðingar horfir.
    Deildin skal hafa sjálfstæðan fjárhag.
    b. Stofnfé deildarinnar skal vera 1000 millj. kr. Skal ríkissjóður leggja sjóðnum til 400 millj. kr. á árunum 1989 og 1990, en 600 millj. kr. aflað með innlendu lánsfé er endurgreiðist úr ríkissjóði.
    Deildinni er heimilt að taka lán hjá Seðlabanka Íslands eða fyrir milligöngu hans að fjárhæð allt að 1000 millj. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt. Fjmrh. er heimilt fyrir hönd ríkissjóðs að takast á hendur sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu láns þessa.
    Rekstrardeild Byggðastofnunar tekur við eignum og skuldbindingum Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina.
    c. Rekstrardeild er heimilt að hafa milligöngu um skuldbreytingu á allt að 5000 millj. kr. af lausaskuldum útflutnings- og samkeppnisgreina. Í því skyni er deildinni heimilt að taka við skuldabréfum frá fyrirtækjum í útflutnings- og samkeppnisgreinum og gefa út skuldabréf til lánardrottna þeirra.
    d. Rekstrardeild skal undanþegin öllum opinberum gjöldum, hverju nafni sem þau nefnast. Öll skjöl viðvíkjandi lánum sem deildin veitir eða tekur skulu undanþegin stimpilgjaldi.
    e. Forsætisráðherra getur með reglugerð kveðið nánar á um framkvæmd 3.--6. gr. laga þessara.``
    Hér er sem sagt um það að tefla, herra forseti, að í stað þess að stofna hér sérstakan Atvinnutryggingarsjóð komi sérstök rekstrardeild við Byggðastofnun í þeim tilgangi að efla eiginfjárstöðu fyrirtækja í útflutnings- og samkeppnisgreinum sem yrði sérstök deild við Byggðastofnun en ekki sérstök stofnun við hliðina á Byggðastofnun.
    Síðan, herra forseti, gerum við hv. þm. Kristín Halldórsdóttir tvær viðbótartillögur á þskj. 298. Þær eru svohljóðandi:
,,1. Á eftir 9. gr. komi tvær nýjar greinar er orðist svo:
    a. Stofna skal hlutafjársjóð við Byggðastofnun. Skal hann afla tekna með sölu aðildarbréfa og skal ríkissjóður tryggja verðbætt nafnvirði þeirra án
vaxta fyrir allt að 600 millj. kr.
    Hlutafjársjóður skal hafa sjálfstæðan fjárhag.
    b. Hlutafjársjóður skal kaupa hlutabréf í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja. Hlutabréfin skulu boðin til sölu eigi síðar en fjórum árum eftir að þau eru keypt og skal starfsfólk fyrirtækis eða fyrirtækið njóta forkaupsréttar.
    Aðildarbréf skulu ætíð skráð á nafn og geta gengið kaupum og sölum.
    Hlutafjársjóði skal tilkynnt um eigendaskipti aðildarbréfa.
    Hlutafjársjóður gefur reglulega út gengi á aðildarbréfum.``
    Hin brtt. á þskj. 298 er svohljóðandi, með leyfi forseta:
,,2. Á undan 10. gr. komi ný grein svohljóðandi:
    Í hverju kjördæmi landsins skal starfa

atvinnumálanefnd. Hver atvinnumálanefnd skal skipuð fimm fulltrúum, tveimur tilnefndum af Alþýðusambandi Íslands, tveimur af Vinnuveitendasambandi Íslands og formanni tilnefndum af ríkisstjórninni. Atvinnumálanefndir skulu fylgjast með atvinnuástandi og þróun atvinnumála á starfssviði sínu og vera stjórn Byggðastofnunar til ráðuneytis um verkefni sjóðsins.``
    Þetta eru þær tillögur sem við í minni hl. höfum flutt við frv. og þær eru samhljóða tillögum sem minnihlutaflokkarnir stóðu að í hv. Ed.
    Nú er kannski ekki ástæða til þess, herra forseti, að hafa miklu lengra mál um þetta, en fyrst umræða um þetta er hafin og ég hef ekki áður tekið til máls um þetta mál langar mig til þess að vekja athygli á því að í 10. gr. frv. er gert ráð fyrir því að greiða skuli sérstakt gjald af loðnu og öðrum bræðslufiski sem fluttur er óunninn til vinnslu erlendis. Nú skal ég ekki gera mikinn efniságreining um þetta, en ég vil benda á að slíkt framsal á gjaldtöku, eins og hér er um að ræða, er mjög vafasamt. Því hér segir, með leyfi forseta, að gjaldið skuli ákveðið sem tiltekin fjárhæð á hvert tonn bræðslufisks og það sé sjútvrh. sem skuli að fenginni umsögn stjórnar Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins ákveða með reglugerð fjárhæð gjaldsins til þriggja mánaða í senn.
    Það sem ég vil vekja athygli á, herra forseti, í sambandi við þetta er það að tvívegis hafa fallið dómar í Hæstarétti sem kveða á um að slíkt framsal skattlagningarvaldsins í hendur ráðherra eða framkvæmdarvalds sé óheimilt. Það gengu tveir dómar um þetta í Hæstarétti á árinu 1985, ef ég man rétt, frekar en 1986, annar um þungaskatt og hinn um svonefnt búnaðarmálasjóðsgjald. Báðir þessir dómar staðfesta að það er óheimilt að framselja skattlagningu með þessum hætti þar sem ráðherrar skuli að fenginni umsögn hinna eða þessara aðila ákveða með reglugerð fjárhæð gjalds.
    Það er eins og þeir háu herrar sem stjórna þessu landi fylgist ekkert með því sem gerist hjá dómstólunum. Ég hélt að það væru nógu margir lögfræðingar starfandi í Stjórnarráðinu, að menn gætu nú hent reiður á því hvernig svona mál hafa gengið fyrir dómi og þurfi ekki að láta það henda sig á nýjan leik að fá slíka gjaldtöku dæmda ólöglega.
    Ég verð að lýsa furðu minni á því að það skuli ekki vera tekið tillit til dóma sem þessara, að þeir skuli látnir sem vindur um eyru þjóta hjá hæstv. ríkisstjórn. Það er engu líkara en að þetta verk, þetta frv., þessi bráðabirgðalög sem hér liggja fyrir í frumvarpsformi, séu svo hroðvirknislega unnin að þau hafi ekki verið borin undir ýmsa þá ágætu lögfræðinga sem í Stjórnarráðinu starfa og fylgjast með þessum málum, hafa jafnvel atvinnu af því að flytja þau fyrir dómstólum og hafa haft á árum áður. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að nefna þetta og gagnrýna þetta þó að þetta sé kannski ekki eitt af þeim stóru pólitísku atriðum sem menn hafa deilt á í sambandi við þetta frv.
    Ég ætla síðan ekki, herra forseti, að lengja þetta

frekar. Ég hef gert grein fyrir brtt. sem ég og aðrir minnihlutamenn í nefndinni standa að. Ef þær ná ekki fram að ganga, þá geri ég ráð fyrir því að við munum leggjast gegn þessu frv., en eitthvað sýnist mér nú á hv. formanni nefndarinnar að hann láti sér það í léttu rúmi liggja, enda hygg ég að hann sé búinn að afla sér fylgis á öðrum miðum en hinum hefðbundnu. Það mun þá væntanlega koma í ljós þegar atkvæði verða greidd um hans eigin tillögur sem reyndar sáu ekki dagsins ljós fyrr en í eftirmiðdag hér í hv. deild og auðvitað öðruvísi en hans eigin stjórnarliðar gengu frá málinu í Ed. En svo lengi lærir sem lifir. Ég hef lokið máli mínu.