Efnahagsaðgerðir
Þriðjudaginn 20. desember 1988

     Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Varðandi Atvinnutryggingarsjóðinn langar mig til þess að spyrja: Hvað skyldi næsti sjóður eiga að heita næsta haust? Eða ætli Atvinnutryggingarsjóður eigi að taka við öllu atvinnulífinu næsta haust? Það er gott og blessað, þessar hugmyndir um hlutafjársjóð Byggðastofnunar, en hræddur er ég um að það gangi ekki upp til lengri tíma að ætla að láta ríkisvaldið kaupa upp atvinnufyrirtæki landsmanna nema þá að komið verði rekstrargrundvelli undir dótið.
    Það er alveg ljóst að þessi aukna skattheimta, sem stefnt er að með fjárlagafrv., getur náttúrlega ekki annað en leitt til aukinnar verðbólgu sem eykur enn þá meira en orðið er þrýsting á gengi krónunnar, hvort svo sem menn vilja sjá það eða ekki. Mér sýnist helst sem menn hér ætli að binda fyrir bæði augu og eyru og láta bara vaða. Það hefðu ekki þótt merkilegar rekstraráætlanir í sjávarútvegsfyrirtæki, það fjárlagafrv. sem liggur fyrir þessu þingi. Ég er hræddur um að það fengi ekki góða einkunn í banka.
    Ég verð að segja það að mér finnst raunverulega alveg hræðilegt að upplifa hér valdníðslu kerfisins gagnvart atvinnuvegunum og um leið launþegum landsins og það þekkingarleysi og virðingarleysi sem maður verður vitni að.
    Eftir allar þessar skuldbreytingar og eiginfjárrýrnun þá verður náttúrlega greiðslubyrði þessara fyrirtækja enn þá erfiðari en nokkru sinni fyrr þannig að þau þurfa að vera rekin með enn meiri hagnaði en áður ef þau eiga að geta staðið í skilum. Allar þessar hugmyndir eru því eins og hróp í eyðimörkinni, þær ganga allar á sama veg. Þetta er allt saman byggt annaðhvort á sýndarmennsku eða algjöru skilningsleysi. Ég sé ekki annað en að atvinnulífið og einstaklingarnir í þjóðfélaginu eigi engra annarra kosta völ en að láta fyllilega reyna á öll ákvæði stjórnarskrárinnar, bæði um eignarrétt, varðandi gengisskráningu og eignarskatt --- og láta prufukeyra stjórnarskrána alveg í botn. Það er eina svarið við svona skattheimtubrjálæði. Borgurunum ber skylda til að láta reyna á smáa letrið í stjórnarskránni.