Vörugjald
Þriðjudaginn 20. desember 1988

     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Páll Pétursson):
    Herra forseti. Á þskj. 307 liggur fyrir álit meiri hl. fjh.- og viðskn.
    ,,Nefndin hefur fjallað um frv. Umsagnir bárust frá Félagi íslenskra iðnrekenda, Meistara- og verktakasambandi byggingamanna, Landssambandi iðnaðarmanna, Félagi húsgagna- og innréttingaframleiðenda, Félagi ísl. stórkaupmanna og Kaupmannasamtökum Íslands.
    Þá komu á fund nefndarinnar Sveinn Björnsson frá utanrrn., Guðrún Ásta Sigurðardóttir frá fjmrn., Ólafur Friðriksson, framkvæmdastjóri verslunardeildar SÍS, Kristmann Magnússon frá Kaupmannasamtökunum, Árni Reynisson frá Félagi ísl. stórkaupmanna, Vilhjálmur Egilsson frá Verslunarráði Íslands, Sigurgeir A. Jónsson frá tollstjóra, Sveinbjörn Guðmundsson og Jón Mýrdal frá tollvörðum, Helgi Hjálmarsson og Jón Bragi Gunnlaugsson frá Tollvörugeymslunni, Þórleifur Jónsson, Guðlaugur Stefánsson og Haraldur Sumarliðason frá Landssambandi iðnaðarmanna, Björn Lárusson og Guðjón Pálsson frá Félagi húsgagna- og innréttingaframleiðenda, Guðmundur Þ Jónsson frá Iðju, Loftur Pétursson frá Meistarafélagi húsgagnabólstrara, Kristinn Björnsson og Ólafur Davíðsson frá Félagi ísl. iðnrekenda, Benedikt Davíðsson frá Sambandi byggingamanna, Árni Brynjólfsson frá Landssambandi rafverktaka, Gísli Karlsson frá Framleiðsluráði landbúnaðarins, Gunnlaugur Júlíusson og Hákon Sigurgrímsson frá Stéttarsambandi bænda, Jóhannes Gunnarsson og María Ingvadóttir frá Neytendasamtökunum, Snorri Páll Snorrason og Hrafn Tulinius frá Manneldisráði, Jón Gíslason frá Hollustuvernd, Ólafur Ólafsson landlæknir og Georg Ólafsson verðlagsstjóri.
    Meiri hl. nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt með breytingum sem fluttar eru á sérstöku þskj. Meginbreytingin er að vörugjaldið verður 9% en gjaldstofn breikkaður, lækkar þá gjald á þær byggingarvörur er borið hafa 14% vörugjald. Rafmagnstæki og snyrtivörur, er borið hafa 14% vörugjald, lækka. Hins vegar leggst 9% vörugjald á húsgögn, innréttingar, lampa, teppi, bílavarahluti, timbur, steypu, málningu, lökk, lím, gler, vörur til pípulagna og byggingarefni úr plasti.
    Þá leggst sérstakt 16% vörugjald til viðbótar 9% vörugjaldi á sælgæti, kex, gosdrykki og sykur.
    Loks leggur nefndin til að lögin verði endurskoðuð fyrir 1. jan. 1991.``
    Ég teldi það vera til skoðunar og mun beita mér fyrir því fyrir 3. umr. að nefndin íhugi hvort ekki sé óþarflega langt í þessa dagsetningu, hvort ekki væri fullt eins eðlilegt að endurskoða lögin árinu fyrr, þ.e. endurskoða lögin að ári liðnu. ( Gripið fram í: Það er komin brtt. um það.) Já, ég tel að það beri að íhuga þann kost.
    Í brtt. eru talin upp tollskrárnúmer þeirra vörutegunda sem ætlast er til að beri 9% vörugjald. Það er í fyrsta lagi um sykurvörur að ræða, og melassa. Síðan koma málning í allmörgum liðum,

slöngur og pípur úr plasti til pípulagna, plastvörur til bifreiða, slöngur og pípur úr gúmmíi til pípulagna og síðan ýmsar byggingarvörur úr járni og stáli í fjölmörgum liðum, ofnar og eldavélar sem ekki eru fyrir rafmagn, miðstöðvarofnar, stengur úr kopar til bygginga, koparvír, koparleiðslur, hitunartæki úr kopar, stengur úr nikkel, leiðslur og pípur úr nikkel og álteinar, álvír, álleiðslur, álleiðsluhlutar, vír úr blýi, leiðslur og pípur úr blýi, zinkteinar og stengur, leiðarar úr zinki, tinplötur, leiðarar úr tini, leiðslur úr tini, skápar, innréttingar og katlar, hreyflar í bifreiðar, loftdælur og hreyflar aðrir, loftdælur, loftjöfnunartæki, lyftur, hlutar í lyftara, rafgeymar, varahlutir í bifreiðar, lampar og lýsingartæki. Og síðan eru talin upp þau númer sem bera sérstakt vörugjald upp á viðbótar 16%. Þar er um að ræða sykur og sælgæti, sætt kex, ávaxtasafa, ölkelduvatn, öl og gosdrykki, efni til gosdrykkjarframleiðslu og sælgæti.
    Þá leggjum við til að í 1. málsl. 2. gr. frv. verði eindaginn hinn 15. og að lög þessi öðlist þegar gildi hvað varðar gjaldskyldar innfluttar vörur, en frá og með 1. jan. 1990 vegna gjaldskyldrar innlendrar framleiðslu. Þannig er mál með vexti að nokkuð hallar á innlenda framleiðslu þegar vörugjaldið er að byrja að verka þar sem innlend framleiðslufyrirtæki verða að gjalda vörugjald af sínum framleiðslulager en innflytjendurnir einungis af því sem þeir flytja inn eftir gildistökudag.
    Þá eru breytingar á dagsetningum og síðan bætist ákvæði við til bráðabirgða svohljóðandi:
    ,,Þrátt fyrir ákvæði 16. gr. bráðabirgðalaga nr. 83/1988, um efnahagsaðgerðir, og fyrirmæli stjórnvalda um stöðvun á hækkun verðs vöru og þjónustu má hækka verð vöru sem nemur álagningu gjalda samkvæmt lögum þessum.``
    Ég mun ekki orðlengja þetta meira að sinni, herra forseti, og læt máli mínu lokið.