Vörugjald
Þriðjudaginn 20. desember 1988

     Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Ingi Björn Albertsson):
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir minnihlutaáliti á þskj. 320, um vörugjald, sem hljóðar svo:
    ,,Frv. þessu um vörugjald er ætlað að afla ríkissjóði um 1600 millj. kr. viðbótartekna á árinu 1989. Nái það fram að ganga verður það til að íþyngja almenningi í landinu til viðbótar við aðrar boðaðar skattahækkanir.
    Meiri hl. boðaði brtt. við frv. Þær tillögur voru ekki lagðar fyrir nefndina áður en meiri hl. afgreiddi málið. Minni hl. átelur slík vinnubrögð og leggur áherslu á að slíkt komi ekki fyrir aftur.
    Þær takmörkuðu upplýsingar, sem fram komu um breytingar á frv., benda þó eindregið til þess að þar sé verið að gera hlut innlendrar framleiðslu enn lakari en til stóð í upphaflega frv. Athugasemdir í fskj. eiga því ekki síður við frv. eins og það mun væntanlega líta út eftir 2. umr.
    Þegar matarskatturinn var lagður á á síðasta þingi voru tollar og aðflutningsgjöld lækkuð til að milda áhrif hans. Nú er áformað að taka þá lækkun til baka og um leið að hverfa af braut ,,einfaldleikans`` sem svo mjög var talað fyrir á síðasta þingi.
    Allt er hér á sömu bókina lært: laun fryst, skattar stórauknir, kaupmáttur stórlega skertur og verðstöðvun hefur farið úr böndum. Það jaðrar því við siðleysi að leggja auknar byrðar á almenning sem óhjákvæmilega verður með samþykkt þessa frv. Þess vegna getur minni hl. ekki staðið að samþykkt frv. og leggur til að það verði fellt.
    Á fund nefndarinnar komu fjölmargir aðilar til umsagnar. Nokkrar skriflegar umsagnir þeirra fylgja áliti þessu.``
    Undir nál. skrifa ásamt mér hv. þm. Geir H. Haarde og hv. þm. Kristín Halldórsdóttir.
    Þess ber að geta, hæstv. forseti, að hér er vísað til meðfylgjandi umsagna. Af tillitssemi við starfsmenn þingsins var ekki farið út í það að fjölrita þær í þeim fjölda eintaka sem til hefði þurft og látið duga að það kæmi í sinni endanlegu mynd í þskj. á morgun.
    Um þetta frv. má hafa langt og mikið mál og verður það sjálfsagt raunin á morgun að fjallað verður ítarlegar um það. En eins og forseta er kunnugt hefur verið gert samkomulag um að stytta nú mjög umræður og mun ég heiðra það samkomulag.
    Ég vil þó þakka hv. formanni fjh.- og viðskn. fyrir jákvæðar undirtektir við þær brtt. sem minni hl. nefndarinnar hefur hér lagt fram um það að færa til endurskoðunarákvæðin frá 1. jan. 1991 til 1. jan. 1990. Þessi brtt. er lögð fram að beiðni innlendra framleiðenda sem telja á þessu frv. ýmsa vankanta sem muni koma mjög fljótlega í ljós þannig að væntanlega verði ekki vanþörf á að endurskoða frv. strax að ári.
    Hæstv. forseti. Frekari umræður um þetta frv. geymi ég mér til morguns og hef lokið máli mínu.