Húsnæðisstofnun ríkisins
Miðvikudaginn 21. desember 1988

     Halldór Blöndal:
    Virðulegi forseti. Það er ekki vonum fyrr sem tækifæri gefst hér í deildinni til þess að ræða húsnæðismálin og það mikla öngþveiti sem þau hafa komist í og er vaxandi. Við sem hlýddum á hæstv. félmrh. meðan hann var þm. höfðum satt að segja búist við því að stórstígar framfarir yrðu fram undan nú þegar þm. settist í sæti húsnæðisráðherra og að húsnæðisráðherrann mundi gera einhverja tilraun til þess að standa við hin stóru orðin svo dómharður sem þessi hæstv. ráðherra var, meðan hann var þm., um forvera sinn, 1. þm. Vesturl. Alexander Stefánsson.
    Ég veit satt að segja ekki hvar maður á að byrja. Það er kannski freistandi að byrja á þeim punkti hvort hæstv. félmrh. hafi eitthvað meint með því meðan hann var þm. þegar hann talaði um að þetta húsnæðiskerfi væri sprungið. Ef við drögum þá ályktun að hugur hafi fylgt máli á þeim tíma og reynum síðan að meta verk húsnæðisráðherrans eftir að hann settist í sæti félmrh. er augljóst að hann hefur ekki haft afl til að koma fram þeim umbótum sem honum bjuggu í brjósti meðan hann var þm. eða þá að þm. hafi skipt um skoðun þegar hann var orðinn að ráðherra. A.m.k. er það víst að hann hefur söðlað um með þeim hætti að húsnæðismálin eru nú í meira öngþveiti en nokkru sinni fyrr og vaxandi öngþveiti vegna þess að húsnæðislöggjöfin eins og hún er núna, ef hún er borin saman við skattalöggjöfina, hlýtur óhjákvæmilega að leiða til mjög vaxandi mismununar milli þegnanna á margvíslegan hátt, bæði varðandi þau lán og lánskjör sem notendur húsnæðis eiga kost á frá hinu opinbera og líka vegna þess að þannig er haldið á skattamálunum að sú mismunun margfaldast í gegnum skattakerfið. Það er þess vegna deginum ljósara að það er ekki vonum fyrr að okkur gefist tækifæri til þess að tala um húsnæðiskerfið í heild sinni en núna.
    Ég hafði satt að segja búist við því að það hefði getað orðið í sambandi við frv. til lánsfjárlaga en formaður fjh.- og viðskn. hefur kosið að draga það á langinn eða slá því á frest að fulltrúar byggingarsjóðanna komi á fund fjh.- og viðskn. þannig að okkur hefur ekki unnist tími til þess að ræða þau mál út við fulltrúa Húsnæðisstofnunar enn þá í fjh.- og viðskn.
    Ég ætla að byrja á að víkja að því að þegar húsnæðiskerfinu var breytt með lögum í kjölfar febrúarsamninganna 1986 var út frá því gengið, miðað við þá eftirspurn eftir lánum sem þá var gert ráð fyrir, að það væri algjört lágmark að í fjárlögum væri varið 1 milljarði kr. til húsnæðislána. Og ég minnist þess meðan Alexander Stefánsson var húsnæðisráðherra ( Gripið fram í: Hann var nú góður ráðherra.) að þessum hv. þm. þótti það naumt skorið og vildi halda því fram að svo naum fjárveiting til húsnæðiskerfisins fæli það í sér að það hlyti að hrynja og að vaxtamismunur sem ríkissjóður yrði af þeim sökum að standa undir og hlyti að hlaðast upp, vaxtamunurinn á milli tekinna lána hjá lífeyrissjóðunum og veittra lána hjá Byggingarsjóði ríkisins, yrði svo mikill á

skömmum tíma að óviðráðanlegur yrði í fyrirsjáanlegri framtíð. Ég var fullkomlega sammála hv. þm. um þetta atriði og var auðvitað ekki sáttur við að í fjárlögum fyrir árið 1987 skyldi ekki takast að ná hærri fjárhæð en 1 milljarði og það þurfti engan að undra það, jafnríka áherslu og ég hafði lagt á að auka fjárveitingar ríkisins í Byggingarsjóðinn strax til þess að hann gæti síðar staðið undir sér, jafnríka áherslu og ég hafði lagt á það atriði í tveimur nefndum sem ég átti sæti í hjá tveimur fyrirrennurum núv. hæstv. húsnæðisráðherra.
    Það hefur hins vegar nú komið á daginn að bæði í fjárlögum yfirstandandi árs og þó sérstaklega í fjárlögum fyrir næsta ár, eins og fjárlagafrv. lítur út eftir 2. umræðu, er gert ráð fyrir að upp á vanti --- ég skal ekki segja ef það hefði verið framreiknað hvort það er 1 milljarður kr., ég hygg að stærðargráðan sé ekki minni. ( Félmrh.: Það er mikið meira.) Hæstv. húsnæðisráðherra segir að það sé mikið minna. ( Félmrh.: Mikið meira.) Ég hafði kannski ætlað --- ( Gripið fram í: Mikið meira.) Ég heyrði það. Ég hafði búist við að ef maður framreiknaði einn milljarð væri ekki ósanngjarnt að búast við að það gæti verið 1,8 eð 2 milljarðar nú, en húsnæðisráðherra er mér sammála um að ástæða sé til að taka þetta mál upp milli 2. og 3. umr. fjárlaga og væri æskilegt að ráðherrann léti þá formann fjvn. vita um það. Það eru hæg heimatökin en á hinn bóginn erfitt fyrir einstaka þm. að ræða einstök útgjöld ríkisins við þennan formann fjvn. vegna þess að hann hefur þau vinnubrögð að svara þm. engu um það hvað honum finnist, hvort hann telji að þeir rökstyðji nægilega vel sín erindi, og hefur raunar gengið svo langt að segja við aðra nefndarmenn í fjvn. að þeir megi ekki segja frá því á fundi í sínum þingflokkum hvernig vinnan gengur í smáatriðum í fjvn. ( Gripið fram í: Þessu þarf að breyta.) Það eru því auðvitað fyrst og fremst flokksbræður formanns fjvn. sem hljóta að ræða þetta mál.
    Ég hef líka tekið eftir því þegar verið er að tala um fjárlögin að hæstv. ráðherrar virðast hafa þann hátt á, ef málið er óþægilegt, að vísa jafnan til fjvn. Nú þekki ég það af reynslunni og þykist vita að svo sé einnig þegar Sjálfstfl. er utan ríkisstjórnar að fjárveitingar af þeirri stærðargráðu sem
húsnæðismálin eru verða ekki ákveðnar af fjárveitinganefndarmönnum meiri hlutans heldur erum við hér að tala um ákvörðun sem hlýtur að takast af ríkisstjórninni í heild og nú verður það eftirtektarvert vegna frammíkalls hæstv. ráðherra að fylgjast með því hvort honum tekst að ná fram þeim vilja sínum að í fjárlögum fyrir árið 1989 verði veitt svo miklu fé til byggingarsjóðanna að hann telji viðunandi. Auðvitað verður með þessu fylgst. Það er ekki aðeins vegna þess að kæruleysið nú fyrir eignarstöðu og greiðslustöðu byggingarsjóðanna valdi því að með því séum við að safna upp til framtíðarinnar, með því sé verið að binda ríkinu bagga sem erfitt getur orðið að standa undir síðar, heldur lít ég svo á að með þessu sé beinlínis og bókstaflega brotið það samkomulag

sem gert var við verkalýðshreyfinguna og vinnuveitendur, sem gert var við aðila vinnumarkaðarins í febrúarmánuði 1986. Það er ógjörningur að horfa á þetta mál út frá öðru sjónarmiði og ég vil taka það fram, virðulegi forseti, að á fundi sem forseti Alþýðusambandsins átti með fjh.- og viðskn. nú í desembermánuði kom það glögglega fram að eins og málin stóðu þá taldi forsetinn að þetta atriði, hversu naumt fjárveitingarnar eru skammtaðar, væri hrein svik við verkalýðshreyfinguna, og hann taldi líka að lánsfjáráætlun, eins og hún var hugsuð af fjmrh., væri líka bein svik við verkalýðshreyfinguna þar sem á þeim tíma var búist við að hluti af því fé, þeim 55% sem talað er um af skuldabréfakaupum lífeyrissjóðanna, yrði tekinn fyrir ríkissjóð. Ég hygg hins vegar að húsnæðisráðherra hafi tekist að fá hæstv. fjmrh. ofan af því og ég lýsi sérstakri ánægju minni yfir því og stuðningi því að auðvitað, þó svo ég hafi sagt áðan að ráðherrann geri ekki jafnmiklar kröfur til sín í húsnæðismálum og hann gerði til fyrirrennara síns meðan þessi ráðherra var þm., veit ég eigi að síður að ráðherrann er mikill málafylgjumaður ef hann leggur sig fram og þykist vita að hann standi mjög fast á sínu. Þess vegna vil ég mega vænta þess og vil sannarlega vona að þegar fulltrúar Húsnæðisstofnunar ríkisins koma á fund fjh.- og viðskn. þegar meiri hlutinn er búinn undir það að ræða lánsfjárlögin megi það koma í ljós að byggingarsjóðirnir eigi að fá það lánsfé frá lífeyrissjóðunum sem þeim var ætlað samkvæmt nýju húsnæðislöggjöfinni og eins og samkomulagið frá því í febrúarmánuði 1986 stóð til.
    Ég er að því leyti sammála hæstv. ráðherra að þannig hefur verið staðið að Byggingarsjóði ríkisins að hann hefur ekki getað staðið við þau fyrirheit sem gerð voru þegar lögin voru sett. Ástæðan fyrir því er að minni hyggju fyrst og fremst sú að hvorugur þessara hæstv. ráðherra, hvorki Alexander Stefánsson né sá ráðherra sem nú situr, hafa fyrst og fremst lagt sig fram við að láta hinn almenna borgara njóta þeirra réttinda sem hinn almenni borgari hlýtur að hafa gert kröfu til þegar löggjöfin var sett og þegar febrúarsamningarnir voru gerðir. Það er auðvitað alveg augljóst mál, úr því að verið er að hengja þyngri bagga á Byggingarsjóð ríkisins til þess að ná vissum hópum fram fyrir röðina, að allur almenningur, allur fjöldinn, hlýtur að fá verri fyrirgreiðslu en áður nema sérstakar aðgerðir séu gerðar, nema Byggingarsjóðnum sé sérstaklega ætlað fé til að standa undir þessum aðgerðum, fé sem ekki er tekið frá öðrum. Ég fullyrði hins vegar að eins og framkvæmdin hefur verið hjá þessum hæstv. ráðherra hefur breytingin á lögunum og breyting á reglugerðum og vinnubrögðum stjórnar Húsnæðisstofnunar ríkisins bitnað á öðrum.
    Ég vil taka sérstaklega sem dæmi hvernig farið er með lán vegna endurbóta á húsnæði. Til að byrja með var sá háttur á hafður að þeir sem þannig stóð á um voru ekki settir inn í röð, heldur gátu fengið lán sín, eins og áður, eftir því sem verkin unnust,

endurbæturnar voru unnar. Hins vegar er nú búið að setja þessi lán inn í röðina sem veldur verulegum töfum, að ég ætla, hjá einstökum mönnum, a.m.k. hef ég skilið framkvæmdina svo og verður þá leiðrétt ef um misskilning er að ræða. Þetta hygg ég þó að sé rétt.
    Í öðru lagi hefur verið gefið út að ef menn kaupa íbúð í sérstökum lánaflokki, eins og t.d. í kaupleiguíbúðum, eigi viðkomandi rétt á því að fá 85% af byggingarkostnaði innan mjög rýmilegra marka. Á sama tíma og þetta er ákveðið er hinum venjulega borgara sem ekki kemst inn í röðina ætlað að bíða svo árum skiptir og getur ekki vænst þess að fá nema 70% af byggingarkostnaði hið hæsta og þó með ákveðnum mörkum, þó þannig að lánið má ekki fara yfir þessar --- ég skal ekki segja hvernig það er núna, ætli það sé ekki í kringum 3 millj. kr. eða eitthvað svoleiðis. Ég kann það ekki nákvæmlega, ég hef ekki séð nýjar tölur um það, en ef ég man rétt vorum við að tala um rúmar 2 millj. á árinu 1986 og ég hygg að það sé ekki fjarri lagi að það sé í kringum 3 millj. núna, og það er hámark. Og eftir þessum 70% þarf viðkomandi að bíða mjög lengi og verður raunar að una því fyrsta kastið, jafnvel í tvö ár, að fá ekki annað svar frá Húsnæðisstofnun en það að viðkomandi húsnæði sé að vísu lánshæft, en á þessari stundu sé ekkert hægt um það að segja hvenær búast megi við láninu. Það er ekki, eins og gert var ráð fyrir í samkomulaginu og lögunum upphaflega, tekið fram af Húsnæðisstofnun hvenær lánið verði til greiðslu, heldur verða menn að reyna að bjarga sér svo árum skiptir, eins og áður var og kannski miklu verr en áður, án þess að hafa neina pappíra í höndunum sem geti
tryggt þeim það hvernig þeir geti endurgreitt íbúð sem þeir kaupa, festa kaup á hvort sem um nýsmíði íbúðar er að ræða eða kaup á eldri íbúð.
    Ég minnist þess að þegar við þm. úr öllum flokkum vorum að ræða húsnæðismálin á árunum 1984 og 1985, þm. og fulltrúar allra flokka --- fyrir Alþfl. var í þeirri nefnd fyrrv. félmrh. Magnús Magnússon --- vorum við öll sammála um að það yrði gífurlegur munur og mundi skapa meira jafnvægi á húsnæðismarkaði, koma í veg fyrir mikla greiðsluörðugleika fólks ef hægt yrði að koma á þeirri reglu, bæði fyrir þá sem ekki áttu íbúðir og eins hina sem þurftu að stækka við sig eða þurftu að flytjast búferlum milli staða vegna þess að þeir misstu atvinnuna á einum stað og þurftu að setjast að á öðrum, vegna þess kannski að húsnæði þeirra á hinum fyrri staðnum var verðlítið samanborið við markaðsverð á hinum síðari staðnum --- þá þurftu viðkomandi á verulegu lausafé að halda til þess að geta staðið í skilum og til þess að geta annaðhvort náð sér í, stækkað við sig eða fest kaup á húsnæði. Þá voru þm. allra flokka sammála um að það væri grundvallaratriði að menn gætu sagt um það fyrir fram hvenær lánveitingin kæmi og við sögðum að það væri grundvallaratriði að lánsloforðið héldi verðgildi sínu borið saman við vísitölu byggingarkostnaðar. Þetta var

í raun og veru forsendan fyrir okkar tillögum.
    Nú hefur síðan verið slakað á hvað þetta varðar. Ég fullyrði að það hafi ekki þurft mikið fé til viðbótar, ef það hefði komið á réttum tíma, til þess að húsnæðismálin nú væru í mjög sómasamlegu standi. Ég fullyrði að ástæðan fyrir hinum langa biðlista sem er eftir húsnæðislánum eigi fyrst og fremst rætur sínar að rekja til þess að þeir menn og konur sem hafa farið með stjórn húsnæðismálanna hafa ekki hugsað um það hvernig hægt væri að svara þörfum hins almenna borgara, ungs eða gamals. Hitt er okkur ofviða með öllu, að láta sérhvern ungan mann eða stúlku, ung hjón, fá sem svarar 85% lán í nýbyggingu og ætla að svara öllum markaðnum undir eins þannig. Ef við erum ekki menn til þess að lána 70% með vissu hámarki erum við ekki menn til þess að lána 85% í miklu dýrara húsnæði. Þetta skilur hvert mannsbarn.
    Ég geri mér auðvitað grein fyrir því að það fólk sem kemst inn í kaupleiguíbúðirnar og fær 85% lánið, hvort sem það er hjá Byggingarsjóði verkamanna eða Byggingarsjóði ríkisins, unir auðvitað vel sínum hlut. Þegar ég var á ferðalagi nú nýverið um Austfirði og hitti þar tvo unga menn sem höfðu nýstofnað heimili og þeir voru að spyrja mig um húsnæðismálin var ég að reyna að útskýra fyrir þeim að allir yrðu að sætta sig við að bíða eitthvað og ég var að útskýra fyrir þeim að ekki væru tök á því að byggja kaupleiguíbúðir jafnt og samtímis fyrir alla þá sem eru húsnæðislausir í landinu. Þá sögðu þeir við mig að maður í stjórnarandstöðu ætti auðvitað ekki að vera að tala um að skortur væri á fé og að lífeyrissjóðirnir gætu ekki lánað endalaust, Byggingarsjóður ríkisins og Byggingarsjóður verkamanna. Þessir ungu menn fluttu mér þann boðskap að það væri óskynsamlegt fyrir mann í stjórnarandstöðu að tala af hreinskilni um húsnæðismálin eins og þau eru vegna þess að þeir töldu að stjórnarandstaðan ætti fremur að tala um það þjóðfélag sem hana dreymdi um að fá en hitt sem væri kannski í raunveruleikanum í það og það skiptið og ætti þess vegna ekki að taka á sig þá erfiðleika sem því eru samfara að útskýra að við getum ekki alls staðar flogið eins og við viljum, við getum ekki undir eins uppfyllt óskir allra, við getum ekki látið alla fá allt sem þeir vilja.
    Ég fullyrði að það var auðvitað mikil og góð byggðastefna að fólk úti á landi, á stöðum þar sem byggingarframkvæmdir höfðu kannski legið niðri, á stöðum þar sem atvinnulífið hafði kannski tekið fjörkipp vegna betri aflabragða, vegna þess góðæris sem var í sjávarútvegi og er alltaf einhvers staðar á landinu --- þá er auðvitað nauðsynlegt að unga fólkið á þessum stöðum geti fengið lán þegar það þarf á að halda svo að það þurfi ekki að flytjast í burtu og það var af þeim sökum sem fulltrúar Sjálfstfl. og fulltrúar Framsfl. sögðu við stjórnarmyndunarviðræður vorið 1987, að það væri af þeirra hálfu skilyrði fyrir kaupleigufyrirkomulaginu að landsbyggðin yrði látin sitja fyrir. Það var líka vegna þess að endursöluverð á íbúðum úti um land er ekki jafnhátt og hér á

höfuðborgarsvæðinu og líka vegna þess að sú þróun hafði orðið að bygging verkamannabústaða var orðin mjög áberandi víðs vegar úti um land.
    Á hinn bóginn vil ég vekja athygli á því að verkamannabústaðakerfið hefur sums staðar reynst þannig að íbúðir innan þess kerfis hafa hækkað svo í verði með vísitölum og öðru þvílíku að ógerningur er fyrir það fólk sem fellur inn í verkamannabústaðakerfið að endurgreiða lánin eins og þau hljóta að verða borið saman við þær endurmatsreglur sem eru á verkamannabústaðakerfinu. Ég skal víkja nánar að því síðar. Vegna þess að boðað er með þessu frv. að til standi að efna til heildarendurskoðunar á hinum félagslega hluta húsnæðislánakerfisins tel ég óhjákvæmilegt nú við 1. umr. að víkja síðar nokkuð að því hvaða hugmyndir ég hef um það hvernig að því eigi að standa í grundvallaratriðum og hvaða markmið við eigum að hafa með félagslega kerfinu.
    Við erum nú að tala um það og þetta frv. hér fjallar sérstaklega um það sem við köllum kaupleiguíbúðir. Ég vil vekja athygli á því að þeir sem búa í slíkum kaupleiguíbúðum og taka íbúðirnar á leigu --- sem er mikið baráttumál Alþfl., að fjölga sem mest leiguíbúðum hér á landi, og minnist ég snoturrar greinar í Alþýðublaðinu á sínum tíma þegar talað var um það að ríkið ætti að sjá þegnunum fyrir íbúðum til þess að einstaklingarnir gætu átt skemmtisnekkjur eða sumarbústaði. Það var sú stefna sem Alþýðublaðið hafði í húsnæðismálum meðan Alþfl. var í stjórnarandstöðu en hefur verið minna um það síðan. Eftir að ábyrgðin á húsnæðismálunum kom yfir á Alþfl. hefur minna verið talað um það í Alþýðublaðinu en á þeim tíma að það væri markmiðið hjá Alþfl. að auðvelda mönnum að eignast skemmtisnekkjur og sumarbústaði. Það er svo annað mál.
    Leiguíbúðirnar hafa skattalegan forgang, í fyrsta lagi vegna þess að ef félagssamtök reka slíkar íbúðir, ef hið opinbera rekur slíkar íbúðir, þurfa slíkir eignaraðilar að íbúðum ekki að greiða tekjuskatt af viðhaldi og endurbótum sem á sér stað á íbúðunum, þurfa ekki að greiða tekjuskatt af fasteignagjöldum eða öðru slíku eins og nauðsynlegt er að gera fyrir einstaklinga sem vilja halda við sínum íbúðum. Það er hægt að taka um þetta lítið dæmi. Segjum sem svo að einstaklingur sem á sína íbúð þurfi að kalla til sín iðnaðarmenn vegna þakleka eða einhvers þvílíks og fái reikning upp á hálfa milljón króna er óheimilt að draga þennan reikning frá við álagningu tekjuskatts. Félagið á hinn bóginn hefur fullan rétt til þess að draga slíkan kostnað frá sem auðvitað kemur fram í því að endurgjaldið verður minna en ella.
    Í öðru lagi vil ég vekja athygli á því að með því að fjölga þeim íbúðum úr hófi sem einungis þurfa að borga 1,5% vexti af sínum lánum vex ásóknin í slíkar íbúðir. Við höfum dæmin fyrir okkur um það að fjöldi manns býr nú í verkamannabústöðum og áreiðanlega innan skamms í kaupleiguíbúðum sem staðið er undir af Byggingarsjóði verkamanna, fólk

sem hefur mjög góðar tekjur, þannig að aðstaða þessa fólks hefur gjörbreyst síðan það festi kaup á hinum félagslegu íbúðum. Ég minnist þess þegar þessi mál voru til umræðu á árinu 1986 að fulltrúar Alþýðusambands Íslands létu í ljós þá skoðun að nauðsynlegt væri að hafa eitthvert svigrúm í sambandi við vaxtahæð húsnæðislána þannig að hægt væri að hækka vextina upp í það sem gildir hjá Byggingarsjóði ríkisins ef viðkomandi hefði mjög miklar tekjur, en á hinn bóginn væri unnt að lækka vexti hjá Byggingarsjóði ríkisins þannig að þeir svöruðu til vaxta hjá Byggingarsjóði verkamanna ef kjör viðkomandi versnuðu mjög mikið, ef um röskun á húsnæðishögum væri að ræða. Það dæmi sem þeir tóku, fulltrúar Alþýðusambands Íslands, var að læknir hafði flust inn í íbúð ekkju hér í Reykjavík og þau bjuggu áfram í verkamannabústaðnum við þau kjör sem ekkjan hafði áður haft, en á hinn bóginn tóku þeir dæmi af konu sem hafði misst mann sinn og þurfti að standa undir lánum frá Byggingarsjóði ríkisins. Þetta er auðvitað mikið réttlætismál og nauðsynlegt að koma því í framkvæmd.
    Ég verð, herra forseti, að biðjast afsökunar á því að í fljótræðinu hér áðan, það er sennilega vegna þess að ég er búinn að lesa of mikið af skattalögum upp á síðkastið, fór ég rangt með þau skattalegu áhrif sem ég var að tala um áðan í sambandi við viðhaldið og bið afsökunar á því og tek þá aðfinningu til baka.
    Þegar ég hef fundið að því í sambandi við félagslegu íbúðirnar að sú löggjöf væri orðin úrelt og þyrfti endurskoðunar við, og það á auðvitað líka við um kaupleiguíbúðir að því leyti sem þær falla undir félagslega kerfið, hafa andstæðingar Sjálfstfl. mjög haldið því á loft og reynt að læða því inn hjá fólki að í aðfinningum mínum felist andstaða við það að félagslegt kerfi sé í húsnæðismálum. Það er auðvitað algjörlega rangt. Við sjálfstæðismenn höfum frá upphafi lagt á það ríka áherslu að það sé skylda samfélagsins að sjá þeim sem verst eru settir fyrir húsnæði við hóflegu verði þannig að viðkomandi geti staðið undir því að búa sómasamlega. Við höfum lagt áherslu á að æskilegt væri að gera það eftir mætti innan kerfis verkamannabústaðanna, auðvitað vegna þess að reynslan hér á landi og erlendis sýnir að ef menn eiga sjálfir sín hýbýli ganga þeir betur um þau, reyna að halda þeim vel við á hverjum tíma, þannig að þau drabbist ekki niður, líður betur í þeim og hugsa betur um umhverfið. Fyrir þessu er margföld reynsla.
    Það var á sínum tíma gerð tilraun til þess að efna til leiguíbúða sveitarfélaga, en það kom brátt í ljós að bæði íbúar slíkra íbúða og eins sveitarstjórnarmenn lögðu á það vaxandi áherslu að einstaklingarnir mættu komast yfir íbúðirnar og létta ábyrgðinni af sveitarfélögunum. Þetta teljum við nauðsynlegt, en um leið og við teljum nauðsynlegt að viðhalda þessu kerfi höfum við haldið því fram að engir séu líklegir til þess að kunna að meta félagslega þörf íbúðanna á hverjum stað en þeir menn sem eiga sæti í sveitarstjórnum og fulltrúar verkalýðsfélaganna á

hverjum stað. Það er einmitt þannig sem verkamannabústaðakerfið er byggt upp og ég efast ekki um að ég segi satt þegar ég held því fram að í öllum aðaldráttum hafa þeir menn sem ábyrgð hafa borið á kerfinu reynt að leggja sig fram um það að láta þá sitja fyrir
íbúðum sem helst hafa þurft á því að halda.
    Við getum auðvitað líka búið til nýtt lánakerfi sem heitir kaupleiguíbúðir. Það breytir í sjálfu sér ekki þessari heildarmynd. Það breytir ekki þeirri heildarmynd að við ætlumst til þess að sumir þegnar eigi kost á því að fá lán með betri kjörum en aðrir. Það er ekki annað en nafn. Kaupleiguíbúðir innan félagslega kerfisins eru auðvitað ekkert annað en eitt nafn á því sem áður viðgekkst. Það skiptir auðvitað engu máli frá sjónarmiði hins opinbera hvort það heitir verkamannabústaðir eða leiguíbúðir sveitarfélaga eða eitthvað annað ef hlutur hins opinbera í kerfinu er sá sami, ef það sem ríkið leggur af mörkum fyrir þegnana er hið sama í báðum tilvikum. Og það fullyrði ég að enn er ekki komið það kerfi sem tekur fram verkamannabústaðakerfinu að þessu leyti þó mér þyki á hinn bóginn hálfdapurlegt að sjá hversu lítið er lagt upp úr því sums staðar á landinu að íbúðir verkamannabústaða séu hóflegar og ekki allt of kostnaðarsamar eða dýrar. Ekki þarf maður að fara lengi um landið til þess að fá dæmin um fáránlegt verð á slíkum íbúðum, svo fáránlegt að augljóst er hverjum manni að fólk með lægstu tekjur hefur ekki ráð á því að setjast að í íbúðunum, búa í þeim, af því að afborganir og vextir eru of stór hluti af ráðstöfunartekjum fólksins.
    Ég hef margsinnis lagt á það áherslu í mínum málflutningi að í mínum huga er það auðvitað ekki heilagt mál að húsnæðismálunum sé öllum komið fyrir í einni opinberri stofnun. Ég er þeirrar skoðunar að hitt væri heppilegra ef smátt og smátt, kannski í einum, tveimur eða þremur áföngum, væri hægt að færa húsnæðislánin, kannski hægt að byrja á þeim lánum sem veitt eru til kaupa á notuðum íbúðum, inn í bankana í hinu almenna kerfi þannig að bein viðskipti ættu sér stað með skuldabréf, t.d. milli lífeyrissjóða og banka, þannig að bankarnir gætu séð viðskiptavinum sínum fyrir húsnæðislánum að verulegum hluta í tengslum við skuldabréfakaup lífeyrissjóðanna. Þetta mundi að sjálfsögðu valda því að meira svigrúm yrði í kerfinu en áður, bankarnir gætu t.d. eins og víða er erlendis hagað endurgreiðslum lánsins í samræmi við greiðslugetu viðkomandi viðskiptamanns á hverjum stað. Ég vil þessu til útskýringar taka dæmi frá Hollandi. Landi okkar sem þar býr festi sér kaup á íbúð þar fyrir nokkrum árum en þau hjón urðu síðan atvinnulaus um eins árs skeið og þá gátu þau samið við bankann um það að lán sem áður voru til 20 ára skyldu verða til 30 ára. Það var linað á endurgreiðslum lánsins meðan þetta tímabundna ástand varði að þetta fólk hafði ekki fasta vinnu, hafði minni tekjur en áður. En um leið og hagur þeirra vænkaðist á nýjan leik, þá var aftur hert á kröfunum, hert á endurgreiðslunni, auðvitað til þess

að flýta fyrir því að fólkið eignaðist sjálft þessa íbúð.
    Ég er ekki í vafa um að það mætti koma á þvílíku samstarfi milli lífeyrissjóðanna og viðskiptabankanna beint því að auðvitað er það eðlilegt að þegnarnir eigi rétt á því að geta þannig fengið fyrirgreiðslu í einni stofnun. Það er á hinn bóginn algjört skilyrði fyrir því, ef hugmyndin er að fara með húsnæðismálin út úr Húsnæðisstofnun ríkisins, ef hugmyndin er að láta húsnæðislánin vera með markaðsvexti en niðurgreiða vextina ekki eins og nú er gert, þá er auðvitað algjört skilyrði fyrir því að hinni vaxandi vaxtabyrði sé mætt með því að vextir og verðbætur af lánunum yrðu frádráttarbær frá skatti eins og víða tíðkast erlendis, t.d. í Englandi, Danmörku og víðar, alls staðar þar sem ég hef spurnir af. (Gripið fram í.) Ég man nú ekki hvort þetta er eitthvað að breytast í Danmörku vegna þeirrar miklu skattheimtu sem þar er í landinu, en ég hygg að víðast erlendis sé það þannig. Þetta er auðvitað algjört skilyrði fyrir því að fara með húsnæðislánin út úr Húsnæðisstofnun ríkisins, að vextir og verðbætur verði frádráttarbær við álagningu tekjuskatts. Ef sú leið er ekki farin og ef ríkisvaldið ætlar að þráast við þeim megin og er ekki reiðubúið til þess að viðurkenna að þetta séu rekstrargjöld þess efnis af því tagi hjá þegnunum að eðlilegt sé að draga þau frá tekjuskatti, þá er auðvitað óhjákvæmilegt að viðhalda húsnæðiskerfinu eins og það er og að niðurgreiðsla ríkisins á fjármagninu komi strax fram hjá Byggingarsjóði ríkisins eins og nú er þar sem vextir eru 3,5%.
    Við þingmenn erum oft að segja það að nauðsynlegt sé að draga úr ríkisútgjöldum. Við sjálfstæðismenn höfum auðvitað verið harðari á því en aðrir og ég hika ekki við að segja að einmitt með því að breyta húsnæðiskerfinu á þann veg sem ég hef verið að lýsa hjá þeim sem ekki þurfa á félagslegum lánum að halda væri hægt að stíga stórt skref í þá átt að draga úr opinberum kostnaði sem raunar má gera á mörgum öðrum sviðum sem heyra undir þennan hæstv. ráðherra og ekki er efni til að fara út í núna. En vitaskuld ber alþingismönnum á hverjum tíma að hafa það í huga annars vegar að hægt sé að veita þegnunum sem besta þjónustu og hins vegar að draga úr kostnaði eftir mætti.
    Ef ekki eru gerðar ráðstafanir til þess að stytta biðlistann fyrir hinn almenna borgara í Húsnæðisstofnun er auðvitað sýnilegt að lífeyrissjóðirnir hljóta fyrr en síðar að brjóta niður það samkomulag sem þeir hafa gert við
ríkisvaldið og byggingarsjóðina um fjármögnun á húsnæðiskerfinu. Sú var hugsunin þegar þetta samkomulag var gert að félagsmenn lífeyrissjóðanna þyrftu ekki að sitja við verra borð en áður varðandi lánsfyrirgreiðslu úr þessum sjóðum sem auðvitað var rökstutt með því að þeir sem ættu sjóðina ættu fyrst og fremst rétt til þess að fá lán úr þeim. Ef sú þróun heldur áfram að menn þurfi að bíða eins og nú er, að menn fái ekki svar, ef það heldur áfram á þeim stöðum þar sem íbúðarbyggingar hafa legið niðri en allt í einu færist fjörkippur í atvinnulífið, ef sú þróun

á að halda áfram að einstaklingarnir sem þar búa þurfi að bíða um ófyrirsjáanlegan tíma áður en þeir fá fyrirgreiðslu, þá er náttúrlega óhjákvæmilegt fyrir þessa lífeyrissjóði að brjóta sig út úr. En við sjálfstæðismenn höfum flutt um það frumvörp hér á Alþingi og lagt það til að húsnæðislögunum verði breytt á þann veg að þegar um skyndilega eftirspurn er að ræða eftir húsnæði á vissum stöðum, þá sé Húsnæðisstofnun heimilt að taka menn fram fyrir í röðina. Ég skil hins vegar að það er mjög erfitt eins og nú standa sakir einfaldlega vegna biðraðarinnar, vegna þess að málið er ekki hugsað í botn, ekki er séð fyrir þörfum kerfisins í heild.
    Það væri fróðlegt að fá um það upplýsingar hjá hæstv. félmrh. hversu mikið fé hann telji að þurfi til þess að hægt sé að svara eftirspurninni þannig að viðunandi ástand verði komið segjum innan þriggja ára, þannig að þeir sem sækja um húsnæðislán eftir þrjú ár megi vænta þess að geta fengið lánsloforð um greiðslu fyrri hluta lánsins, segjum einu ári eftir að þeir sækja. Það er auðvitað mjög mikið atriði að fá þetta upplýst í tengslum við þennan málaflokk í heild. Það er líka mjög mikilsvert að fá það upplýst hjá ráðherranum hvort hann hyggist horfa fram á það að biðröðin í Byggingarsjóði ríkisins haldi áfram að lengjast, hvort hann hyggist standa við þau fyrirheit sem gefin voru með febrúarsamkomulaginu eða hvort hann hyggist í einhverjum atriðum reyna að sveigja frá þeim og taka rétt af einstaklingum sem þeir hafa samkvæmt því samkomulagi og sem þeir hafa samkvæmt þeim lögum sem nú eru í gildi.
    Ég vil líka segja það, og ég veit að þar er ekki við félmrh. að sakast, að það er auðvitað mjög ömurlegt að horfa upp á það að það fólk, sem verst er statt í landinu, hefur verið í mjög miklum persónulegum erfiðleikum og átt erfitt með að halda sínu húsnæði, skuli ekki hafa fengið fyrirgreiðslu frá Húsnæðisstofnun fyrr en raun er á, að enn skuli þeir sem sóttu um lán hjá ráðgjafarþjónustu Húsnæðisstofnunar ekki hafa fengið svar, þeir sem sóttu um lán í septembermánuði að ég hygg, jafnvel í lok ágúst, ég kann það ekki nákvæmlega, en því var lofað þegar ríkisstjórnin tók við völdum að meira fjár yrði aflað til þess arna nú á þessu ári. Það hefur líka verið talað um það að verja ákveðnum fjárhæðum til þess að flýta afgreiðslu á lánum þar sem verst stendur á. Ég veit það af dæmum að það fé, sem varið hefur verið til þessa hvors tveggja --- til þess að flýta lánsloforðum og til þess að bjarga þeim sem verst hafa verið staddir --- þetta fé hefur verið ónógt og væri fróðlegt að fá upplýsingar um það hjá húsnæðisráðherra hversu mikið fé hann telji nauðsynlegt að fá til þess annars vegar að hægt sé að veita því fólki sem er í nauðum statt flýtingu á lánsfyrirgreiðslu vegna endurbóta á húsnæði, kaupa á húsnæði eða vegna byggingar á húsnæði, og hins vegar að fá upplýsingar hjá hæstv. ráðherra um hversu mikla fjárhæð ráðherrann telji að vanti til þess að fullnægja þeim þörfum sem eru vegna beinna greiðsluerfiðleika og falla undir þá skilgreiningu. Ef

ég þekki þessi mál, þá hygg ég að síðari málaflokkurinn sé betur staddur en hinn fyrri, en ég vil leggja á það áherslu, herra forseti, að ef hugmyndin hjá ríkisstjórninni og ráðherranum er sú, með því að leggja aukna áherslu á kaupleiguíbúðir, með því að leggja aukna áherslu á félagslegar íbúðir, að bjarga þeim sem eru í nauðum staddir, þá er oft og tíðum hægt að komast af með miklu lægri fjárhæð ef komið er til móts við það fólk sem vantar herslumuninn til þess að halda sinni íbúð. Ég held þess vegna að það verði að gefa þessu meiri gaum. Það verði umfram allt að efla fólk til sjálfsbjargar þannig að það reyni sjálft að ráðast í það verkefni að koma þaki yfir höfuðið.
    Ég sagði hér áður í ræðu minni, að það væri auðvitað viss sóun fólgin í því að hið opinbera ætti og ræki íbúðir fyrir einstaklingana, að hið opinbera færði einstaklingunum íbúðirnar upp í hendurnar. Og það er auðvelt að rökstyðja það. Við höfum auðvitað öll fylgst með því hvernig ungt fólk hefur brotist í því að eignast íbúð, byggja yfir sig og hefur oft látið sér nægja minna í upphafi en síðar, hefur byggt í áföngum, hefur kannski ekki gengið frá öllu undir eins. Það hefur kannski ekki verið komið teppi út í öll horn, korkur á gólfin. Það hefur kannski verið beðið með að kaupa hurðir inn í stofuna og þar fram eftir götunum. Það hefur kannski ekki verið búið að ganga endanlega frá lofti í öllum herbergjunum þegar flutt hefur verið inn, heldur hefur þetta unga fólk smátt og smátt verið að eignast þetta sem það býr í. Smátt og smátt. Þetta fólk hefur átt kost á þessum lánum úr Byggingarsjóði ríkisins og hefur auðvitað sparað ríkinu stórfé með þessu. Af því að það hefur sparað þjóðfélaginu stórfé, þá hefur það sparað bæði ríki og einstaklingum stórfé. Síðan hefur þetta fólk sjálft unnið í því að lagfæra sínar lóðir. Það
hefur sjálft getað málað. Það hefur getað gert ótal, ótal hluti og þannig sparað. En kerfið vinnur á móti því.
    Ég þekki eitt dæmi utan af landi. Þá var íbúð seld á uppboði í hinu félagslega kerfi og ung hjón á staðnum vildu festa kaup á íbúðinni af kerfinu, en því var sagt að það væri ekki hægt eins og stæði vegna þess að það þyrfti að gera mikið við íbúðina. Ég man ekki hvort sú áætlaða viðgerð kostaði 800 þús. kr. eða 1,2 millj. kr. Það skiptir heldur ekki máli. En skoðun kerfisins var sú að hið opinbera yrði að lagfæra hlutina áður en unga fólkið mætti flytja inn. Ungu hjónin bentu að vísu á það að foreldri annars var húsasmiður og hins rafvirki og sjálfur var sá sem keypti mjög liðtækur við hvers konar viðgerðir þannig að fólkið bað um að fá íbúðina ódýrari. Það mundi sjálft gera við hana, það kynni að halda á pensli, það kynni að laga skolplögn, það kynni að lagfæra ef eitthvað færi úrskeiðis í sambandi við rafmagnið. En þetta átti ekki að fást. Það tók margra mánaða þref að ná þessu fram sem þó tókst að lyktum til allrar hamingju. En í öðrum dæmum hefur þetta ekki verið svo. Reglan er: Við skulum ekki hleypa nýjum íbúum inn í íbúðirnar fyrr en hið opinbera með öllum sínum

kostnaði er búið að bæta ofan á kaupverðið, ofan á söluverðið svo og svo miklu en íbúarnir fá ekkert að gera. Auðvitað er þetta sóun. Þetta er sóun á opinberu fé og þetta kemur í veg fyrir að aðrir fái fyrirgreiðslu sem þurfa á henni að halda. Þetta er auðvitað ömurlegt dæmi um það hvernig kerfið er farið að vinna innan úr þjóðinni, sjúga merginn úr einstaklingunum að því marki sem kerfið vinnur á móti sjálfsbjargarviðleitni einstaklinganna.
    Sú ríkisstjórn sem nú situr leggur á það mikla áherslu að hækka eignarskatta. Nú er fróðlegt að velta því fyrir sér hvernig eignarskattar koma við einstaklingana eftir því hvar þeir búa. Ef t.d. einstaklingur fær búseturétt í íbúð sem hið opinbera á, ríki og sveitarfélög í raun og veru, ef sveitarfélag t.d. á íbúðina eða ríkið, hvernig svo sem búseturétturinn er til kominn, hvort sem hann er samkvæmt sérstökum samningi eða vegna atvinnu viðkomandi eða hvernig sem á stendur, þá þarf einstaklingurinn ekki að greiða eignarskatt af þeirri íbúð vegna þess að eignarskatturinn fellur ekki á búseturéttinn, heldur fellur eignarskatturinn á íbúðarhúsnæðið ef það er skuldlítið eða skuldlaust. Með háum eignarskatti er þessi ríkisstjórn þannig beinlínis að níðast á þeim sem sjálfir hafa tök á því að koma yfir sig húsnæði, að níðast á þeim í bókstaflegri merkingu þess orðs. Það náttúrlega getur verið góð latína hjá þeim sem eiga það málgagn sem talaði um að ríkið ætti að sjá mönnum fyrir íbúðum til þess að þeir gætu eignast skemmtisnekkjuna eða sumarbústaðinn, að tala um það að aðrir þegnar í þjóðfélaginu séu rétt góðir til að borga skattinn af íbúðarhúsnæðinu. En auðvitað er það ómannúðleg stefna. Og ég vil taka það fram að í sumum tilvikum kemur þetta mjög illa niður.
    Það er, herra forseti, óhjákvæmilegt að vekja athygli á því að það er mikil lausung í húsnæðiskerfinu hér á landi. Einstaklingarnir vita ekki hvaða rétt þeir eiga frá einu ári til annars. Það er alltaf verið að finna upp á einhverju nýju, það er verið að breyta því sem var, breyta rétti fólks og einstaklinga. Það líður ekki svo ár að ekki sé verið að setja á fót nefndir til þess að kollsteypa kerfinu. Hver og einn þykist geta fundið eitthvað annað og betra og nýrra kerfi í staðinn fyrir að reyna að fá stöðugleika í húsnæðismálunum. Ég hygg að einstaklingarnir hér á landi hljóti að eiga þann rétt. Og ég held að það gangi ekki að leika sér svona með fjölskyldurnar í landinu, að menn bókstaflega viti ekki neitt hvar þeir standa. Það koma í blöðum og fjölmiðlum fréttir af hinu og þessu og það er alltaf verið að spyrja mann: Hver er minn réttur núna og hver var hann í gær og hvernig verður hann á morgun? Það væri þess vegna mjög nauðsynlegt --- ég vil segja kannski fyrst og fremst fyrir þá menn sem bera ábyrgð á ávöxtun lífeyrissjóðanna og eru trúnaðarmenn launþega í landinu að þeir fari að íhuga það í sameiningu hvernig þeir hyggist verja þessu fé samborgaranna til þess að skapa öryggi fyrir fólkið því að þar liggur uppspretta fjármagnsins. Húsnæðisstefnu verður aldrei haldið uppi í þessu landi til langframa nema þessir aðilar séu

sáttir við hana, það er fullkomlegur ómöguleiki, um leið og við hljótum að íhuga, og ég hlýt að leggja áherslu á það, að lán til húsnæðiskaupa eru þess eðlis að við eigum að niðurgreiða þau. Við eigum annaðhvort að niðurgreiða þau beint í gegnum Byggingarsjóð ríkisins eða Byggingarsjóð verkamanna --- ef þannig er ástatt hjá viðkomandi að hann þurfi á þvílíkri aðstoð að halda --- eða við eigum að heimila það að vextir og verðbætur séu frádráttarbær. Þetta eigum við að gera. Við erum ekki menningarþjóð nema við höfum ráð á þessu, það er útilokað. Og það kerfi sem við byggjum upp á að vera þannig að það komi fólkinu að gagni í þeirra lífi.
    Það þýðir auðvitað ekki að segja við mann sem missir atvinnuna á Neskaupstað vegna þess að þar er lagt niður fyrirtæki, og hann getur ekki fengið vinnu í sinni starfsgrein þar vegna þess, að hann eigi hús á Neskaupstað og geti af þeim sökum ekki fengið lánsfyrirgreiðslu til að kaupa
hús annars staðar, ef hann getur ekki selt þá húseign nema fyrir smámuni borið saman við markaðsverðið á nýja staðnum. Það húsnæðiskerfi sem við eigum að byggja upp á að geta mætt slíkum hlutum á þolanlegan hátt en ekki segja við mennina: Þú átt að fara inn í biðröð og kannski get ég eftir þrjú, fjögur, fimm, sex ár sagt þér hvenær þú getur átt von á láninu. Og það þýðir ekkert að flagga með einhverjar aðrar rósir. Ef maður fer inn í blómabúð og biður um rósir þá þýðir ekkert fyrir kaupmanninn að koma og segja: Ég er með túlípana. Auðvitað verður sá maður sem ber ábyrgð á húsnæðismálunum að hugsa málið í heild. Hann verður að skilja að hann er trúnaðarmaður þjóðarinnar í heild í þessum málum og að honum ber skylda til að hugsa jafnt um úrlausn fyrir alla. Það þýðir ekki að vera með nein gæluverkefni. Það þýðir ekki að látast því að sársaukinn að vera óöruggur um sjálfan sig og vita ekki sinn næturstað er jafnsár hvort sem maður hefur átt íbúð áður eða ekki og hvar sem maður er staddur.
    Ég verð þó vegna sanngirni að segja að þessi hæstv. ráðherra hefur mikinn hug til þess að standa sig vel í húsnæðismálum og ég hef satt að segja fundið til þess að ekki skuli hafa verið hægt að gera betur á liðnum árum og að ekki skuli hafa verið gert betur. En ég vil líka segja við ráðherrann að ég stend heils hugar með honum í því ef hann vill gera almennar aðgerðir til að koma til móts við alla og sérstaklega vil ég leggja áherslu á það að óhjákvæmilegt er við afgreiðslu lánsfjárlaga og afgreiðslu fjárlaga nú að taka almennilega á þeim þætti í starfsemi Húsnæðisstofnunar ríkisins sem lýtur að þeim sem nú eru í mestu erfiðleikunum annaðhvort vegna greiðsluerfiðleika eða af öðrum sökum. Og þó svo að það mundi hafa einhver áhrif til frestunar hjá öðrum sem betur mega sín mundi ég sætta mig við það. En hitt get ég ekki sætt mig við ef fólk í sömu stöðu, sem er jafn vel statt fjárhagslega og atvinnulega, á að búa við misjafna stöðu eftir því hvort það sækir hjá Byggingarsjóði ríkisins um kaupleiguíbúð eða eitthvað annað. Ég get heldur ekki

sætt mig við að sumir geti svo áratugum skiptir búið við lánskjör Byggingarsjóðs verkamanna ef þeir eru í raun og sannleika hátekjumenn. Þá verður að vera inni í kerfinu einhver möguleiki til þess að leiðrétta lánskjörin eins og við heimtum að sé inni í kerfinu einhver möguleiki til þess að leiðrétta lánskjörin ef um neyð er að ræða. Þetta er grundvallaratriði og ég hygg að um þetta megi fá góða samvinnu við aðila vinnumarkaðarins.
    Ég vil að síðustu, herra forseti, mjög vara við því að sú regla verði tekin upp hjá Húsnæðisstofnun ríkisins eftirleiðis að lán til einstaklinga verði veitt eftir nýrri lánskjaravísitölu sem þannig verði saman sett að hún verði að 1 / 4 byggingarvísitala, að 1 / 4 framfærsluvísitala og að 1 / 2 einhvers konar launavísitala. Ég hlýt að spyrja húsnæðisráðherra að því hvort hann hafi í hyggju að taka upp þá reglu í Húsnæðisstofnun ríkisins á næsta ári að ákveða að allir þeir sem húsnæðislán fái þá skuli þurfa að axla þá byrði sem slíkri lánskjaravísitölu fylgir. Það liggur auðvitað opið fyrir að kaupmáttur launa er mjög lækkandi og í rauninni orðinn mjög lágur miðað við það sem hann var fyrir einu ári. Það liggur auðvitað líka fyrir að ríkisstjórnir koma og fara. Þó svo að einstakir þingmenn úr Borgfl. hafi komið ríkisstjórninni til hjálpar í dag þá þýðir það ekki að ríkisstjórnin verði eilíf. Einhvern tíma birtir upp. Öll él birtir upp um síðir. Og þess vegna kemur auðvitað að því að önnur stjórn tekur við völdum í þessu landi. En fram að þeim tíma verða væntanlega veitt lán úr Byggingarsjóði ríkisins og Byggingarsjóði verkamanna. Og ég held að það sé nauðsynlegt að fá upplýsingar um þetta.
    Ég viðurkenni að vísu að þessi ríkisstjórn fylgir þeirri stefnu að rétt sé að reyna að kenna verkalýðshreyfingunni mannasiði, rétt sé að reyna að lækka lífskjörin, kaupmáttinn hjá fólkinu í landinu með því að við megum ekki búa við gjaldmiðil í landinu sem stendur undir nafni. Þess vegna er með skipulögðum hætti verið að brjóta niður þau fyrirtæki sem eru burðarásar atvinnulífsins hér, útflutningsgreinarnar. Það er auðvitað viss stefna í efnahagsmálum. Hún hefur verið reynd annars staðar. Og hún var reynd af Framsóknar- og kreppustjórninni hér á sínum tíma á fjórða áratugnum. Að reyna að brjóta niður fyrirtækin og knýja þannig kaupmáttinn niður að ekki var hægt að reka fyrirtækin nema launþegarnir létu sér nægja minna. Þetta er auðvitað viss pólitísk stefna. En ef við reiknum nú með því að aðrir taki við eða kannski að ríkisstjórnin sjái að sér, þá er óhjákvæmilegt að lífskjörin fari batnandi á nýjan leik eins og í kringum okkur. Þá hljóta launin að hækka að verðgildi meira en framfærsla eða byggingarkostnaður. Og þegar svo er komið þá er auðvitað með engum hætti þolanlegt að þeir sem hafa tekið lán hjá byggingarsjóðunum verði að sitja við það borð að afhenda ríkinu hluta af þeim kjarabótum sem þeir eiga í vændum í formi nýrrar lánskjaravísitölu sem ekki gengur upp. Þetta held ég að sé augljóst mál. Og þess vegna hlýt ég að spyrja ráðherrann hvort

hann hyggist taka þessa vísitölu upp eftir áramótin þegar hæstv. forsrh. er búinn að sannfæra hæstv. viðskrh. um að það sé nauðsynlegt.
    Nú langar mig að spyrja, herra forseti, úr því að ég kom inn á þennan
þátt, hvort forseti geti greitt fyrir því og séð um að þingmenn fái í hendur þá álitsgerð sem Seðlabankinn hefur gert um mismunandi lánskjaravísitölu. Nú er Seðlabankinn náttúrlega opinber stofnun og auðvitað viðurkenni ég þann rétt sem ríkisstjórnin hefur til að biðja um sérstakt álit á ákveðin mál, en lánskjaravísitalan er slík þungamiðja í íslenskri efnahagspólitík að eðlilegt hlýtur að teljast að allir þingmenn fái þessa skýrslu í hendur til þess að þeir geti áttað sig á einstökum atriðum ef málið skyldi bera upp í þinginu. Þetta getur ekki verið neitt ríkisleyndarmál. Það eru ekki neinir hagsmunir í húfi þarna, engir fjárhagslegir, peningalegir hagsmunir. Það mundi ekki skaða neinn þótt þingmenn fengju plaggið í hendur. Ég vil spyrja forseta hvort hann geti greitt fyrir því eða séð um það að við fáum þessa greinargerð í hendur.