Húsnæðisstofnun ríkisins
Miðvikudaginn 21. desember 1988

     Salome Þorkelsdóttir:
    Hæstv. forseti. Það ríkir nokkuð undarlegt ástand hér á hv. Alþingi þessa dagana. Hér mættum við efrideildarþingmenn til þingfunda kl. 11 í morgun og síðan hefur fundi verið frestað æ ofan í æ, þar til kl. 13 að þessi þingfundur gat hafist. Það er kominn 21. des. og við vitum í raun ekkert hvernig málin þróast fram að jólum og ég efast um að hæstv. ríkisstjórn hafi hugmynd um það sjálf. Hæstv. forsrh. er samur við sig. Hann gefur eina yfirlýsinguna í dag og aðra á morgun eða jafnvel eina að morgni og aðra að kvöldi. Því hefur verið lýst yfir að engir þingfundir verði hér milli jóla og nýárs og því hefur verið lýst yfir að það verði þingfundir milli jóla og nýárs. Hverju eigum við að trúa?
    Ég get ekki séð af þessu, sem ég nú hef sagt, að það sé ástæða fyrir þingmenn stjórnarliðsins í þessari hv. deild að amast við því þó að þingmenn stjórnarandstöðunnar hafi áhuga á að fjalla um og ræða þau frumvörp sem hæstv. ráðherrar eru þó að leggja fyrir þingdeildina. Mér finnst það dálítið dapurlegt hvað menn eru fljótir að gleyma. Fyrrv. þingmenn stjórnarandstöðu og núverandi þingmenn stjórnarliðsins virðast ekki lengur muna eftir því að hafa verið í því hlutverki að hafa hér af litlu tilefni, jafnvel engu tilefni hlaupið í ræðustól æ ofan í æ til að lýsa andstöðu sinni eða taka þátt í umræðum um mál þegar þeir voru í stjórnarandstöðu til að mótmæla því sem hæstv. ríkisstjórn var þá að gera. En nú, þegar nýir stjórnarandstæðingar hafa komið hér til liðs, er þetta allt annað og er skinhelgin yfirsterkari hjá þessum hv. þm. Ég gat ekki, hæstv. forseti, látið hjá líða að nefna þetta eins og mér hefur fundist menn haga sér hér þegar stjórnarandstæðingar hafa fundið hvöt hjá sér til að taka hér til máls.
    Lögin um Húsnæðisstofnunina eru mikill lagabálkur og flókinn, enda er það svo að í hvert sinn sem nýr ráðherra sest í stól félmrh. setur hann á laggirnar nefnd til að endurskoða lögin. Við höfum vissulega kynnst þessu, þingmenn á hv. Alþingi, og þeir sem hafa setið í félmn. á hverjum tíma hafa lagt á sig mikla vinnu í umfjöllun um þessi frv. Ég minnist þess sjálf að hafa setið hér jafnvel heilu helgarnar fyrir nokkrum árum þegar ég átti sæti í félmn. og við vorum að fjalla um þennan lagabálk. Það ætti ekki að vera neitt undarlegt við það því að lög um Húsnæðisstofnun ríkisins varða hverja einustu fjölskyldu í landinu, efnahag hennar og afkomu.
    Ég verð að segja það hæstv. núv. félmrh. til hróss að hún hefur alla tíð barist fyrir þessum málum og haft brennandi áhuga á húsnæðismálum, en ég er ansi hrædd um að hún hafi upplifað það nú sem félmrh. eins og fleiri að það er oft hægara um að tala en í að komast. Ég geri ráð fyrir því að hún standi oft frammi fyrir því nú að geta ekki staðið við stóru loforðin eða fyrirheitin sem hún gaf þegar hún var aðeins óbreyttur þingmaður að berjast fyrir þessum málum.
    Stefna okkar sjálfstæðismanna er ljós í húsnæðismálum. Við leggjum áherslu á að sem flestir

einstaklingar í þjóðfélaginu geti eignast eigið húsnæði og notið þess öryggis og sjálfstæðis sem því fylgir. Þeir eiga ekki að vera afgangshópar í lánakerfinu sem eru sjálfbjarga og geta staðið undir því að eignast eigið húsnæði, þeir sem geta og vilja gera slíkt. Við viljum hafa valkosti og sveigjanleika en ekki forsjárhyggju bundna á klafa.
    Hv. 2. þm. Norðurl. e. hefur ítarlega fjallað um okkar stefnu. Hún kom greinilega fram í ræðu hans áðan og ég geri ráð fyrir því að hæstv. félmrh. hafi hlustað með athygli á ýmislegt sem þar kom fram og ég þykist vita að hún hafi talið sér vera gagnlegt ýmislegt sem kom fram í hans sjónarmiðum varðandi þessi mál.
    Þegar ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. var mynduð vorið 1983 ríkti neyðarástand í málefnum fjölmargra húsbyggjenda og íbúðakaupenda vegna þeirrar óstjórnar sem hafði viðgengist í þessum málum og fyrir þá sök setti Sjálfstfl. fram það meginmarkmið að almenn íbúðalán hækkuðu nægilega til þess að almenningi yrði gert kleift að eignast húsnæði með þeim lánskjörum sem staðið yrði undir með venjulegum launatekjum. 1. sept. 1986 tóku gildi veigamiklar breytingar á lögunum, eins og hér hefur reyndar komið fram í máli hv. 2. þm. Norðurl. e. Þessar breytingar voru gerðar í samræmi við samkomulag aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar. Með þeim breytingum náðust fram mörg meginatriði einmitt í okkar stefnu í húsnæðismálum, sem við töldum vera til bóta, og með þeim var húsnæðislánakerfið gert einfaldara og aðgengilegra fyrir lántakendur, en það verður að segjast eins og er að því miður hefur framkvæmdin upp á síðkastið farið úr böndunum varðandi þau fyrirheit sem gefin voru með þessum lögum. Ég vil því ítreka þær spurningar sem komu fram í máli hv. 2. þm. Norðurl. e. varðandi það hvaða úrbætur ríkisstjórnin hafi vegna þeirra aðila sem eru í greiðsluerfiðleikum.
    Nú ríkir stjórn hér á landi sem kennir sig við jafnrétti og félagshyggju, en ég verð að segja alveg eins og það er að mér kæmi ekki á óvart þó að eftirmæli hennar yrðu ríkisstjórn skattpíningar og forsjárhyggju því að hennar stefna t.d. í húsnæðismálunum birtist í skattastefnunni. Skattpíningarstefnan beinist fyrst og fremst að fjölskyldunum og heimilunum í landinu, unga fólkinu
sem er að koma sér upp þaki yfir höfuðið eða er búið að því og hefur tekið á sig skuldbindingar vegna t.d. húsnæðislána. Nú á að auka skatta á þessu fólki vegna þessara lána með því að skattleggja greiðsluerfiðleika húsbyggjendanna, skattleggja lántökur húsnæðismálastjórnar, skattleggja byggingarefni unga fólksins sem er að koma sér upp þaki yfir höfuðið eða húsbyggjendanna, skattleggja húsbúnaðinn og svo tekur steininn úr með auknum eignarsköttum og fasteignasköttum sem auðvitað bitna fyrst og fremst á þessu fólki. Eins og hér hefur komið fram skiptir það þúsundum mánaðarlega sem þetta fólk kemur til með að þurfa að greiða ef skattastefna ríkisstjórnarinnar

nær fram að ganga. Þá má gera ráð fyrir að íbúðareigandi, sem á kannski lítinn bíl upp á við skulum segja hálfa milljón, komi til með að þurfa að greiða á hverjum mánuði bara vegna þessara eigna líklega um 17 þús. kr. og er það ekki lítið til viðbótar við allt annað.
    Ég ætla ekki, hæstv. forseti, að tefja þessa umræðu frekar. Það frv. sem hér liggur fyrir og er breyting á lögunum um Húsnæðisstofnun ríkisins varðar hið félagslega kaupleigukerfi og virðist vera eðlileg í sjálfu sér og gefur því ekki tilefni til sérstakrar umræðu, enda á ég sæti í félmn. þessarar hv. deildar og hef því tækifæri til að taka þátt í afgreiðslu frv. þar.