Húsnæðisstofnun ríkisins
Miðvikudaginn 21. desember 1988

     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Ég vek athygli þingheims á að ráðherra kom með mjög merkilegar upplýsingar inn á fundinn, að það hefur tekist samkomulag milli fjmrn. annars vegar og lífeyrissjóðanna hins vegar um kaup lífeyrissjóðanna á skuldabréfum Húsnæðisstofnunar. Að vísu gildir þetta ekki nema fyrir þrjá fyrstu mánuði ársins 1989, en það sem hefur gerst í þessum samningum er m.a. að vextir sem áður voru 7% fara ekki nema niður í 6,8%. Þetta ber vott um að af hálfu fjmrn. er það staðfest að ríkisstjórninni hefur ekki tekist að framkalla þá vaxtastefnu til lækkunar sem til stóð þegar hún tók völdin haustið 1988. Þetta er mjög þýðingarmikið atriði og verður að koma skýrt fram í ljósi þess sem gera þarf bæði fyrir atvinnulífið og einnig í sambandi við peninga- og fjármálamarkaðinn.
    Þá er einnig eftirtektarvert að í þessum samningum hefur verið samið um að vextir á skuldabréfum sem keypt voru á árinu 1987 skuli hækka úr 6,25% í 6,35%. Út af fyrir sig hlýt ég að fagna því að lífeyrissjóðirnir skuli geta tryggt stöðu sína með þessum hætti. Þarna er greinilega samið á raunsæjum grundvelli um hvað lífeyrissjóðirnir þurfa að fá til að tryggja sitt fé, sem eru fjármunir til að tryggja gamla fólkið í ellinni. Þarna er sem sagt búið að staðfesta það, sem við sjálfstæðismenn höfum sagt í umræðum á þingi undanfarnar vikur, að sú stefna sem núv. ríkisstjórn hefur í sambandi við að reyna að lækka vexti hefur ekki tekist. Þeir hafa ekki fundið þau ráð sem gátu haft áhrif á að þessir samningar yrðu með öðrum hætti.