Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1988
Miðvikudaginn 21. desember 1988

     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Herra forseti. Hv. frsm. minni hl. hefur gert grein fyrir brtt. sem við flytjum um þetta mál og eru ekki veigamiklar. Þess er að geta að á fund nefndarinnar kom aðstoðarbankastjóri Seðlabankans við annan mann og gerði okkur grein fyrir því að núna á síðustu vikum, eins og hann orðaði það, þá hefðu verið veitt lán aðallega til sjávarútvegsfyrirtækja í framhaldi af heimild sem hæstv. iðnrh. hafði til skuldbreytingalána frá í vor og þau næmu allt að 3 milljörðum í staðinn fyrir 1 milljarð eins og ákveðið var upphaflega. Af öllum þessum lánum hefði verið tekið 6% lántökugjald sem er auðvitað mikil upphæð hjá fyrirtækjum sem illa eru stödd vegna þess að það voru fyrst og fremst þau sem fengu þessi lán. Heimild sú sem er í frv. til þess að undanþiggja fyrirtæki þessu gjaldi næði einungis til þeirra gjalda sem hefðu annars orðið á lögð eftir gildistöku laganna sem við núna ræðum um, þ.e. frv. sem við núna ræðum um. Þarna yrði mjög mismunað því að þeir sem hefðu verið að taka þessi lán á síðustu vikum, eins og það var orðað, það hafði dregist það lengi að lánin yrðu greidd út að lítið var um það í sumar að menn fengju þessa peninga. Það var aðallega á föstudögum og síðustu vikurnar sem þetta hefði verið borgað út.
    Það er auðvitað ekki við það unandi að þeir sem fengu lánin núna í haust eftir mjög svipaðri heimild til undanþágu frá skatti eins og hér er rætt um greiði þennan skatt að fullu en hinir sem fengju útborgað t.d. í næstu viku eða svo slyppu. Það er fullkomið sanngirnisatriði, a.m.k. að það sé heimild til að undanþiggja þá eða endurgreiða öllu heldur þeim sem þennan skatt hafa greitt nú að undanförnu. Satt að segja er ég algjörlega undrandi á því að hv. stjórnarþm. skuli ekki samþykkja þessa heimild, svo augljóst sem það er að menn eigi að njóta jafnréttis í þessu efni sem öðru. Þess vegna er ég að vona að brtt. sem við flytjum um þetta efni, þ.e. fyrri brtt. verði samþykkt. Þess er þá líka að gæta, og ég held nú að öllum sé orðið það ljóst, að gengið er fallið og menn verða að taka á sig þá gengisfellingu sem fram undan er, en þeir sem hafa verið að fá þessi skuldbreytingarlán yrðu að auki að borga þessi 6%.
    Síðari brtt. fjallar um að heimilt sé að undanþiggja gjaldtöku lán þar sem um er að ræða viðhald fiskiskipa, enda sé verkið unnið hér á landi. Hæstv. iðnrh. talaði um það hér á fundi í Sþ. að hann teldi þetta ekki óeðlilegt, en því heldur hélt ég að stjórnin mundi samþykkja að þessi undanþáguregla yrði lögfest svo að ekkert þyrfti um það að véla hvort þetta mætti greiða út eða ekki.
    Það er rétt, sem kom fram í máli hv. þm. Halldórs Blöndals, að hér er um að ræða skattlagningu og ekkert annað. Það getur enginn verið með þessum skatti að slá á einhverja þenslu sem alls ekki er til í þjóðfélaginu. Þess vegna er þetta bara gjaldtaka til ríkissjóðs. Þetta er einn af þessum pinklum sem alls staðar er verið að tína saman til þess að fylla í eitthvert ógurlegt gat hjá ríkissjóði á næsta ári sem auðvitað verður þeim mun stærra sem skattarnir verða

meiri af því að þeir þýða jú verðbólgu og gengisfellingar. Og eins og ég svo margoft hef sagt einmitt úr þessum ræðustól í hv. Ed., þá eykst halli ríkissjóðs en minnkar ekki við slíka skattlagningu eins og dæmin sanna því að gjaldahliðin hækkar á undan tekjuhliðinni og í kreppuástandi verða tekjurnar auðvitað enn þá minni en ella.
    Þetta er eins vitlaus stjórnarstefna og nokkuð getur verið vitlaust. Það er stefnt beint út í foraðið, vísvitandi út í kreppu og erfiðleika og miklu meiri greiðsluhalla en vera mundi ef horfið yrði frá allri þessari skattlagningu og skattakröfur lækkaðar. Það er ég sannfærður um og það eru fleiri og fleiri að sannfærast um. Það finn ég hvarvetna. Menn eru farnir að skilja hver endaleysa það er að ætla á hverju einasta ári að dengja milljörðum á milljarða ofan, jafnvel milljarðatugum yfir þjóðina í nýjum sköttum og halda að með því móti sé hægt að stöðva verðbólgu, örva atvinnulíf og tryggja hag fólksins í landinu. Þetta er svo vitlaust að það gengur ekkert af þessu upp. Þessi upphæð ríður kannski ekki baggamuninn. En á sama tíma og verið er að taka fé að láni og úr ríkissjóði til þess að styrkja útveginn, þá er verið að skattleggja hann hvarvetna sem hægt er í einu og öllu. Gagnvart sjávarútveginum gæti maður sagt að þarna væri eiginlega um öfuga gengisfellingu að ræða, ef það mætti orða það svo, kyrrt gengi, þ.e. óbreytt krónutala sem sjávarútvegurinn fær fyrir útfluttar afurðir. Þeir fá bara part af dollarnum til sín, partur fer til allra neytenda o.s.frv. En í ofanálag ætlar ríkið að láta þá borga meira fyrir gjaldeyrinn sem þeir fá miklu lægri, 6% meira skulu þeir borga en ég ef ég kaupi mér bíl. Það er það sem verið er að gera. Þetta stangast allt hvað á annars horn og er eins og ég segi algjör endaleysa. Það er ekki bara að landið sé stjórnlaust. Það er miklu verra en stjórnlaust. Ég hugsa að ef ekkert yrði gert í skattamálum og öðru slíku --- og jafnvel væri allt í lagi að hafa þessa ráðherra sem gætu dúllað í stólunum sínum og verið í utanlandsferðum og veislum og öllu slíku, ef þeir gerðu ekki neitt --- þá mundi þetta kannski leysast svona nokkurn veginn. En að gera á
hverjum degi alrangar ráðstafanir er háskalegt.
    Það síðasta er það að nú á að fara fram á það að í viðbót við það sem búið er að semja um, ég var að frétta þetta bara núna í augnablikinu, að koma í gegn þessum skattlagningarfrv., þá á að keyra áfram skattinn á fjármálastofnanir. Það er verið að óska eftir því núna. Við höfum fengið útreikninga frá nokkrum hvað þetta kosti. Lánasjóður sveitarfélaga litlar 95 millj. á ári. Forstöðumenn þessara samtaka lýstu því yfir að þeir vildu miklu heldur að sjóðurinn yrði allur tekinn til ríkisins og þeir færu þá bara að skattleggja allar ríkiseignirnar og ríkisumsvifin úti á landi í staðinn. Það á sem sagt að gera þennan sjóð upptækan. Og Hafnabótasjóður, sem fær 20 millj. eða þar um bil úr ríkissjóði, það á að skattleggja hann um einar 10 og Fiskveiðasjóð um 150 eða eitthvað slíkt og alla landbúnaðarsjóðina og atvinnuvegasjóðina. Iðnþróunarsjóður, sem er erlent fé, fé sem okkar

bræðraþjóðir margumræddar létu okkur fá, að vísu að láni en nokkurs konar gjafafé er við gengum í EFTA, nú ætlar íslenska ríkið að fara að skattleggja gjöfina frá nágrönnum okkar.
    Þetta er allt slík endaleysa að ef það á að fara að reyna að drífa þetta mál í gegn ofan á allt hitt, þá er náttúrlega nauðsynlegt að hafa fundi hér milli jóla og nýárs og fram eftir næsta ári bara til þess að fjalla um það mál eitt sér. Ég vona að a.m.k. nefndarmenn í hv. fjh.- og viðskn. geri sér grein fyrir því að þetta getur auðvitað ekki gengið upp. Ég trúi ekki öðru en a.m.k. hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir, sem hefur þó nokkra þekkingu á atvinnumálum og viðskiptamálum, sé andvíg því að fara nú að gera þessi ósköp ofan á allt annað og það á að gera það í nótt, skilst mér. Þetta er nú síðasta ósk fjmrh. Það er búið að rétta honum litla puttann, og þá skal sko taka höndina alla.
    Ég ætla svo sannarlega ekki að tefja hér umræður, mér dettur það ekki í hug. Það er búið að gera samkomulag hér með forustumönnum flokka og eins og venjulega hlýði ég mínum foringjum, en ef á svo núna að fara að rifta því samkomulagi með því að bæta einu atriðinu inn í viðbót, og því allra vitlausasta af því öllu sem vitlaust er, að margskattleggja peninga sem komnir eru frá atvinnuvegunum og ríkinu og eyðileggja allt sjóðakerfi landsins! Það má út af fyrir sig hugsa sér að afnema allt sjóðakerfi og afnema alla ríkisbanka og hafa frjálsræði í peningamálum. Það væri kannski það æskilegasta. En að ætla að byrja á því að taka með eignaupptöku það fé sem t.d. Fiskveiðasjóður hefur yfir að ráða --- ég býst að hv. þm. Stefáni Guðmundssyni sé kunnugt um það að það hefur æðilítið fé runnið í Fiskveiðasjóð í gegnum árin og áratugina frá sjávarútveginum --- að núna, þegar sjávarútvegurinn er allur kominn á hausinn, þá eigi að hirða af þeim sjóði líka með sköttum er auðvitað fáránlegt. Ég hefði gaman af að sjá hv. þm. Stefán Guðmundsson núna í nótt greiða atkvæði með þessu frá fjmrh. sínum. Má ég kannski spyrja beint, hv. þm. Stefán Guðmundsson, munt þú greiða atkvæði með þessu? ( StG: Við sjáum nú til.) Mundir þú fallast á að við værum hér í alla nótt að ræða um að bæta þessum pinklum ofan á? ( StG: Við skulum hafa biðlund, þingmaður góður.) Kannski við verðum fram eftir nóttu og sjáum hvað hv. þm. gerir. ( StG: Já. Ég vona að þú bíðir.) Ég get vakað í alla nótt og hina nóttina líka. Mér er ekkert að vanbúnaði og mig langar mjög mikið til að sjá hvað hv. þm. mundi gera. Ég raunar veit hvað hann mundi gera. Hann mundi segja nei. Ég veit það, ég þekki hann það vel. Og þó ég þekki hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur eitthvað minna, þá veit ég líka að hún mundi segja nei. Þess vegna er allt í lagi mín vegna að taka þetta á dagskrá, þessa mestu endaleysu af allri endaleysunni, fyrir nú utan náttúrlega þetta sem verið er að bauka í hornunum hérna og er nú að ýmsu leyti dálítið skemmtilegt.
    En ég lofaði að hafa ekki langa ræðu og ég lýk máli mínu.