Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1988
Miðvikudaginn 21. desember 1988

     Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):
    Herra forseti. Ég tek vel þeirri ábendingu hæstv. sjútvrh. að ég sé illa að mér í lagasmíð og er mjög þakklátur fyrir og dreg þess vegna til baka þá brtt. sem við þremenningarnir lögðum fram, en legg um leið fram aðra nýja sem ég bið um að fá heimild deildarinnar fyrir að verði tekin fyrir, á þá leið að í staðinn fyrir ,,eftir gildistöku laga þessara`` komi: frá og með 10. mars 1988.
    Það er best að halda líka ártalinu til haga þannig að ekki fari nú á milli mála. Hitt er svo forvitnilegt að ganga úr skugga um að skilningur hæstv. ráðherra hafi verið réttur á því að eftir gildistöku laga þessara hafi einungis átt við um breytinguna á lögunum. Skal ég ekki fara út í það, en má vel vera að það sé rétt að fyrir því hafi fengist úrskurður. En best er að hafa þetta skilmerkilegt og skýrt og ég þakka fyrir þá ábendingu og skal reyna að haga mér betur eftirleiðis þegar ég þarf að skrifa niður lagatexta. En ekki greinir okkur þá á um það hvað lögin þýða.
    Hitt þótti mér merkilegt þegar hæstv. sjútvrh. sagði í sinni ræðu að ekki væri fordæmi fyrir því að skattur sem búið væri að leggja á yrði endurgreiddur. Það er nú verið að gera þetta núna í loðdýraræktinni. Það er nú verið að senda þeim peninga vegna uppsafnaðs söluskatts sem þeir höfðu greitt. (Gripið fram í.) Mér fannst hæstv. sjútvrh. gefa í skyn að fyrir því væri ekki fordæmi. Það hefur líka verið gert áður í sambandi við loðdýraræktina beinlínis þannig að það tók til sérstakrar framkvæmdar. Endurgreiddur hefur verið söluskattur í iðnaði og útgerð. Að vísu hefur ríkisvaldið haft tilhneigingu til þess um leið og það þykist vera að endurgreiða söluskattinn að taka hluta af honum til baka. ( Gripið fram í: Skattleggja svolítið skattinn.) Já, skattleggja pínulítið af því sem þeir taka til baka. Ég efast ekki um það að jafnvel þótt okkur tækist, herra forseti, að fá deildina til að samþykkja það að lántökugjaldið skuli undanþegið eftir textanum, og nú yrði textinn samþykktur, þá hefði ríkisstjórnin einhver ráð til að setja einhverjar reglur sem mundu valda því að þeir fengju kannski ekki lántökugjaldið allt til baka. En það er betra að það sé eitthvað heldur en ekki neitt. Og þó svo ég tali nú um annað sem kannski liggur fremur í loftinu en að maður megi beinlínis fullyrða það af því að maður hefur ekki tölulegar upplýsingar um það, þá veit ég ekki betur en að það séu ekki síður þau frystihús sem versla við Samband ísl. samvinnufélaga heldur en Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna sem hafa fengið lánafyrirgreiðslu á þessu ári, þannig að ég veit kannski ekki alveg hvar þetta kemur niður. (Gripið fram í.) En ég hygg að það sé ekki það sem skiptir höfuðmáli. Aðalatriðið er náttúrlega það óþolandi misrétti sem lýsir sér í þessari lagasetningu, að gert er ráð fyrir því, eins og frv. liggur fyrir frá ríkisstjórninni, að þetta lántökugjald eigi að vera í gildi í 20 mánuði og 21 dag og þá er það hugmynd ríkisstjórnarinnar að þeir sem hafa tekið lán í 8 mánuði og 20 daga eigi að borga 6% af því til

ríkissjóðs undir eins, en hinir sem koma síðar, síðustu 12 mánuðina, eigi ekki að borga eina einustu krónu í lántökugjald. Þetta finnst mér nú ekki vera lagasmíð sem hægt er að leggja nafn sitt við. Mér finnst þetta vera mismunun af því tagi að hún sé óþolandi og verð auðvitað að segja að ef meiri ró hefði verið yfir störfum fjh.- og viðskn., þá hefði auðvitað nefndin öll staðið að þeim brtt. sem við hér berum fram. Ég vil líka að það komi alveg skýrt fram að þó svo að við viljum reyna að laga frv. þannig erum við auðvitað algjörlega á móti lántökugjaldinu í heild því að það eru engar forsendur fyrir því að leggja svona gjald á núna.
    Eins og hæstv. ráherra sagði, þá er bullandi hallarekstur á fyrirtækjunum í landinu. Bullandi hallarekstur. Og hvaða rök eru þá fyrir einhverjum sérstökum þensluskatti? Einhverjum sérstökum góðærisskatti til að reyna að standa á móti því að fyrirtækin fari í framkvæmdir þegar þau geta alls ekki hreyft sig? Það eru auðvitað engin rök fyrir því. Eins og ég sagði áðan var satt að segja nógu erfitt fyrir okkur þessa óbreyttu þingmenn í síðustu ríkisstjórn að kyngja bitanum í marsmánuði, kyngja þessum bita. En að biðja stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar núna að kyngja bitanum, það er snöggt um erfiðara. Það er eins og búið sé að reka títuprjóna í gegnum helvítis bitann sem alls staðar rekast í í kokinu þannig að það verður að banka í menn til þess að bitinn fari annaðhvort upp eða niður. Ég ætla að vona að hann fari upp. Ég ætla að vona að hv. stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar kyngi ekki þessum ósköpum.
    Með vilja sá ég hins vegar ekki ástæðu til að kalla á iðnrh. áðan til þess að spyrja hann nánar út í skipasmíðaiðnaðinn vegna þess að ég fann að viðskrh. hafði borið hann ofurliði í málinu. Því að eins og greinin lítur út hjá stjórnarmeirihlutanum og eins og fram kom í ræðu sjútvrh. eiga einungis þau fyrirtæki að njóta þess að sleppa við lántökugjaldið sem fá skuldbreytingu sem er liður í aðgerðum stjórnvalda. Ef nú peningarnir sem ætlaðir eru til þessara aðgerða eru ekki nógir, ef þeir verða ónógir, og ef fyrirtæki í sjávarútvegi þurfa á frekari skuldbreytingum að halda en felast í bráðabirgðalögunum og í einhverjum sérstökum aðgerðum stjórnvalda, verða út undan, eiga þau þá að
borga lántökugjaldið?
    Ég veit ekki hvað hæstv. sjútvrh. hugsar sér í því, en ekki þótti mér ræða hans falleg og ef forsrh. hefði verið staddur hér í deildinni hefði mér líka þótt viðeigandi að hann segði að fjármagnskostnaðurinn á þessum fyrirtækjum væri svo sem ekkert of þungur á árinu 1988. Það mætti vel þyngja hann, 8% til eða frá skipti kannski ekki máli. Það ætti að fara að lækka fjármagnskostnaðinn í framtíðinni og þá skipti svo sem ekki máli hvað væri fallið á fyrirtækin áður.
    Ég vil þess vegna aðeins ítreka að ég treysti því að óbreyttir stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar láti þetta ekki yfir sig ganga og sýni þann manndóm annars vegar að mismuna ekki fyrirtækjum í útflutningsgreinum eins og gert er með þessari

lagasetningu og hafi hins vegar kjark til þess að standa á bak við skipasmíðaiðnaðinn í landinu. Þarna eru tök á því að greiða aðeins fyrir og ég held að ekki sé vanþörf á.