Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Miðvikudaginn 21. desember 1988

     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Til fundar við nefndina kom út af þessu máli fulltrúi frá Sambandi ísl. samvinnufélaga og fulltrúi frá Verslunarráðinu. Það var mjög athyglisvert að hlýða á það sem fulltrúi Sambands ísl. samvinnufélaga sagði á þessum fundi. Hann vakti athygli nefndarmanna á þeirri miklu breytingu sem orðið hefði hér á landi ef farið er aftur í tímann, við getum sagt 20--30 ár aftur í tímann. Þá bjuggust menn við allt annarri byggðaþróun en orðið hefur. Menn bjuggust við því að fólki færi fjölgandi í öllum landshlutum og menn gerðu ráð fyrir að ýmsar iðngreinar mundu spretta upp víðs vegar um landsbyggðina og verslun eflast eftir því sem samgöngur bötnuðu og eftir því sem lífskjör yrðu almennt betri, þannig að samgönguþátturinn kæmi strjálbýlinu miklu betur en raun hefur orðið á í þeim skilningi að þjónustan mundi færast út á land. Hann rakti fyrir okkur dæmin um það hvernig t.d. einstök kaupfélög hefðu ráðist í byggingu mikilla verslunarhúsa og skrifstofuhúsa. Hann minntist einnig á einkafyrirtæki í þessu sambandi og sagði að nú væri svo komið að þessi fyrirtæki héldu einungis heimamarkaðinum í nauðþurftavörunum og tók sérstaklega þar til dæmis mjólkurvörur og kjötvörur sem þannig væri þó ástatt um að álagning á þessum vörum væri ekki nema kannski þriðjungur, kannski fjórðungur af því sem álagningin þyrfti að vera og væri t.d. í Noregi til þess að sá rekstur stæði undir sér.
    Ég var auðvitað sammála hverju orði sem fulltrúi Sambands ísl. samvinnufélaga, Kjartan Kjartansson, sagði um þessi efni. Það var allt laukrétt sem hann sagði. Hann rakti dæmin, ekki mörg en sláandi, um það hvernig landsbyggðin stendur höllum fæti og hann talaði af þeim sökum mjög gegn þessum skatti af því að hann leggst á fjárfestingu sem kemur ekki að fullum notum úti á landi, en verður þó að greiða fullan skatt af miðað við þá löggjöf sem við erum nú að setja. Það er því auðvitað algjör misskilningur ef einhverjir menn halda að skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði sé einhver sérstakur Kringluskattur sem aðeins komi við eitt verslunarhús eða verslunarhöll hér í Reykjavík. Það er algjör misskilningur. Þessi skattur kemur auðvitað líka við Miklagarð. Hann kemur líka við miklar byggingar, t.d. Kaupfélags Eyfirðinga, ekki síður en kaupfélagsbyggingarnar á Patreksfirði eða Sauðárkróki eða verslunarhús einstaklinga sem eru að berjast við að halda þó uppi einhverri þjónustu við landsbyggðina.
    Ég hlýt að vekja athygli á þessu hér um leið og ég minni á að þessi skattur er ekki frádráttarbær fyrir álagningu tekjuskatts fremur en eignarskatturinn sem nú á að fara að leggja á með enn meiri þunga en áður. Það á að þyngja tekjuskattinn, það á að þyngja eignarskattinn, það á þyngja skattinn á verslunar- og skrifstofuhúsnæði, en enginn af þessum sköttum er frádráttarbær áður en kemur til álagningar tekjuskatts. Það væri því auðvitað fróðlegt rannsóknarefni að sjá

hversu mikið fyrirtækin eiga eftir af sínum arði og sínum hagnaði eftir á þegar þannig er alls staðar klipið utan af. Hvernig eiga menn líka að hafa vilja og dugnað til þess að leggja dag við nótt til þess að bjarga fyrirtækjunum sem kannski standa höllum fæti, að fjölskyldan öll leggi saman, starfsmennirnir allir leggi saman og séu kannski óeigingjarnir í sínum störfum, ef ríkið gengur svona hart að, ef hvergi nokkurs staðar má vera eftir eyrir og ef engin virðing er borin fyrir því sem menn eru að gera og skiptir ekki máli þótt vöruverð rjúki hér upp?
    Herra forseti. Vegna þess að ég veit að þessi mikla fjárfesting í verslunar- og skrifstofuhúsnæði á sér líka stað í byggðum Suðurlands þar sem fólki hefur fækkað, þar sem áður var búist við að því fjölgaði þar sem menn bjuggust auðvitað við miklu fjölbreyttari verslunarrekstri en nú er og meiri þjónustu, veit ég að forseti deildarinnar þekkir þessi dæmi engu síður en ég og gerir sér auðvitað grein fyrir því að þessi sérstaki skattur er mjög ranglátur og hann hlýtur að bitna á viðskiptavinunum. Það er talað um, eins og hv. 8. þm. Reykv. sagði áðan, að þetta muni kannski 0,6% í vöruverði. Auðvitað munar það enn meira í vöruverði þar sem viðskiptin eru minni og fólkið færra og kannski fjárfestingin miðuð við allt, allt aðrar aðstæður en nú eru.
    Ég skal ekki halda um þetta lengri tölu. Ég vil aðeins leggja áherslu á þetta. Með þessum skatti er verið að reyna að gefa í skyn, með því að hækka hann nú um helming þrátt fyrir erfiða stöðu verslunarinnar úti um allt land, að þetta sé einhver skattur á Reykvíkinga, þar séu verslanirnar og þar sé skrifstofufólkið. Þetta er sami söngurinn og maður hefur vanist í Þjóðviljanum og frá alþýðubandalagsmönnum, að þeir sem fást við verslun og þjónustu séu einhverjir annars flokks þegnar. Það er auðvitað úr lausu lofti gripið og þetta er ekki annað en hálfaulaleg tilraun til þess að draga athyglina frá því aðalatriði málsins að þarna er enn á ferðinni sama áráttan að klípa af alls staðar, ná alls staðar í einn bita í viðbót, þangað til skattbyrðin verður að síðustu orðin óbærileg.
    Það er gamalt orðtak og sýnir náttúrlega hvað þjóðarsálin er vitur: Lengi tekur sjórinn við. Menn gerðu sér grein fyrir því hér fyrr á öldum að jafnvel sjórinn gat ekki endalaust tekið við, því væru líka takmörk sett hvað lífríki
hans þyldi. Það er líka sagt að dropinn fylli mælinn. Eins er það um skattheimtuna: Þegar alltaf er bætt við kemur að því að menn þola ekki lengur ranglætið, hljóta að gera uppreisn gegn þessu, sætta sig ekki við það að ríkið skuli heimta meira og meira. Sama daginn og það er fellt í þinginu að fólkið fái samningsréttinn til sín á nýjan leik koma þessir sjálfkjörnu talsmenn verkalýðshreyfingarinnar, eins og hæstv. menntmrh., og semja við stjórnarandstöðuna um það að öll skattafrv. skuli í gegn fyrir jól. Það er jólagjöfin. (Gripið fram í.) Það eru jólagjafirnar og þeir eru margir pinklarnir. Samningsrétturinn verður ekki veittur, það á að hækka vöruverð á ótal

vörutegundum, það á að íþyngja hér og íþyngja þar. Ég held að ríkisstjórnin ætti nú smekks síns vegna ekki að hafa mynd af jólasveinum á þeim jólapappír sem hún réttir þjóðinni núna, heldur sé betur við hæfi að það sé Leppalúði sem skreytir jólapappír ríkisstjórnarinnar á jólagjöfunum fyrir þessi jól.