Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1988
Miðvikudaginn 21. desember 1988

     Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):
    Herra forseti. Það er fullkomlega ljóst að lögum samkvæmt eru ekki heimildir til þess að undanþiggja skipasmíðaiðnaðinn hvað varðar vinnu lántökugjaldinu öðruvísi en Alþingi samþykki. Ef till. verður felld þá er algjörlega ljóst, hvort sem menn tala um það að ég tali hátt eða lágt, hvort sem menn segja að minn málflutningur sé góður eða vondur, þá verður algjörlega útilokað að létta lántökugjaldinu af skipasmíðaiðnaðinum nema sú till. verði borin upp hér í þessari deild og í neðri deild og þingmenn, meiri hluti í báðum deildum samþykki.
    Ef það er fullnægjandi fyrir hv. 3. þm. Norðurl. v. að þetta megi dragast svona fram eftir vorinu þannig að ekki þurfi að spyrja deildina er ekki að vænta að lántökugjaldinu verði létt af fyrr en ríkisstjórnin hefur fengið bráðabirgðalagavaldið í sínar hendur. (Gripið fram í.) Það er algjör misskilningur hjá þessum hv. þm. ef hann heldur að hæstv. fjmrh. hafi heimild til þess að létta af sköttum af þessu tagi að geðþótta sínum. Þess vegna mun reyna á það nú í deildinni hvort hugur manna stendur til þess nú að létta lántökugjaldinu af skipasmíðaiðnaðinum eða hvort menn kjósa að koma síðar og bera það undir deildina að létta þessu lántökugjaldi af skipasmíðaiðnaðinum eða hvort ríkisstjórnin tekur kannski hinn kostinn: að undirbúa málið og athuga málið og draga málið og láta það danka, sem er auðvitað það líklegasta. Ég hef ekki orðið var við það að hæstv. fjmrh. sleppi neinu sem hann hefur náð í. Ég hef enga trú á því. Úr því að hugsunarhátturinn hjá ríkisstjórninni núna er sá að það eigi að nota þetta sérstaka lántökugjald í fjáröflunarskyni fyrir ríkissjóð, sem það var ekki hugsað til í upphafi, þá má hv. þm. bíða lengi eftir því að skipasmíðaiðnaðurinn fái leiðréttingu. Og þá er til lítils að vera að flytja einhverjar þáltill. í sameinuðu þingi og samþykkja einhverjar almennar ályktanir í sameinuðu þingi ef þessi iðnaður fær ekki rétt sinn núna. (Gripið fram í.)
    Ég mundi í sporum þessa hv. þm. ekki beina orðum mínum að þeim sem vilja hjálpa honum til þess að rétta stöðu skipasmíðaiðnaðarins, heldur mundi ég krefja ráðherrana um það að þeir bregðist skjótt við og standi við orð sín gagnvart þessum þingmanni en komi honum ekki í þá klemmu sem hann er í núna. ( StG: Við höfum báðir beðið.) En þetta er hins vegar ekki aðeins hlutskipti þessa manns. Þetta er ekki eini maðurinn sem núna er í vandræðum. Við getum talað t.d. um fjórða hjólið undir vagni ríkisstjórnarinnar, Stefán Valgeirsson. Það vantaði ekki að áður en upplýst varð um það að ríkisstjórnin hafði fengið Borgfl. til liðs við sig, a.m.k. hluta af honum, þá var sú dagskipan gefin í fjh.- og viðskn. efri deildar að við skyldum láta sjóðafrv. danka vegna þess að ríkisstjórnin vissi að hún hafði ekki meiri hluta fyrir því í neðri deild að koma skattinum á Stofnlánadeild landbúnaðarins, en um leið og Aðalheiður, blessunin, bættist í hópinn og kannski einn eða tveir til viðbótar, hálfir eða í heilu lagi úr

Borgfl., þá þykist hæstv. fjmrh. öruggur með sig, þá má segja við Stefán Valgeirsson: Núna ætla ég að skattleggja Stofnlánadeild landbúnaðarins, nú þarf ég ekki lengur á þér að halda, nú skulum við ganga yfir hann. Þannig hafa vinnubrögðin verið. Það er ekki bara Stefán Guðmundsson, það er ekki bara Stefán Valgeirsson sem hafa orðið að kyngja miklu núna. ( StG: Ekki Halldór Blöndal.) Og þeir munu vera fleiri sem hafa orðið að kyngja. Hv. þm. Karvel Pálmason hefur orðið að kyngja líka. Þeir eru allir önnum kafnir við að kyngja. Ég vil þess vegna segja það að við afgreiðsluna á þessu máli kæmi mér ekki á óvart þótt stjórnarmeirihlutinn léti sig hafa það að halda lántökugjaldinu á skipasmíðaiðnaðinum þrátt fyrir stóru orðin, þrátt fyrir blíðmælgina, þrátt fyrir loforðin.
    Mig minnir að Alexander mikla hafi verið gefið það ráð að ef hann vildi lofa, en hefði þó ekki ráð á því, þá skyldi hann lofa eigi að síður og efna þegar tök væru á. Mér finnst einhvern veginn að þessir hæstv. ráðherrar ætli að efna fyrirheitið við Stefán Guðmundsson þegar tök eru á. Og hvenær eru tök á því? Hvenær þykir ráðherrunum vera tök á því að einstakir þingmenn, stuðningsmenn þeirra fái að koma fram með svona litla bón eins og þá að skipasmíðaiðnaður fái að halda velli? Það er ekki stórt mál. Það er hægt að sigla með fiskiskipin, það er hægt að gera við þau erlendis, þau eru hreyfanleg. Þess vegna skiptir kannski ekki svo miklu máli þó þessi litla iðngrein fari á höfuðið eins og svo margar aðrar. Það voru ein helstu rökin hjá hæstv. sjútvrh. í dag fyrir því að nauðsynlegt væri að halda lántökugjaldinu á ýmsum fyrirtækjum á þessu ári að þau væru svo illa stödd. Ætli rökin fyrir skipasmíðaiðnaðinum séu ekki þau sömu núna? Skipasmíðaiðnaðurinn er svo illa staddur, hann má ekki missa af neinu, þess vegna skulum við hugsa okkur vel og lengi um það hvað við getum gert til þess að létta dauðastríðið. Það getur hins vegar einn þingmaður þessarar hv. deildar, Guðrún Agnarsdóttir 6. þm. Reykv., sagt ríkisstjórninni af sinni læknisreynslu að eftir því sem sótthitinn hækkar, eftir því sem nær dregur dauðastríðinu verður erfiðara að gera sjúklinginn alheilan á nýjan leik.
    Ég held þess vegna að þingmenn ættu að manna sig upp í það í deildinni að
ganga til liðs við skipasmíðaiðnaðinn, styrkja hann og efla hann, og fyrsta skrefið í þá átt hlýtur að vera að aflétta lántökugjaldinu af skipasmíðaiðnaðinum.