Stofnlánadeild landbúnaðarins
Miðvikudaginn 21. desember 1988

     Matthías Á. Mathiesen:
    Herra forseti. Hæstv. landbrh. hefur hér talað fyrir frv. sem fjallar um vandamál sem lengi hefur verið á dagskrá, þ.e. afurðalán vegna fiskeldis. Hvað svo sem menn segja um staðsetningu þessa málefnis í stjórnkerfinu heyrir það undir landbrn. og mér sýnist að hæstv. landbrh. sé hér með frv. sem geti leyst úr því vandamáli sem við hefur verið að glíma og unnið hefur verið að kannski um of langan tíma og þess vegna ástæða til þess að málið fái hraða afgreiðslu. Menn geta að vísu deilt um með hvaða hætti þessum málum skuli fyrir komið, en eins og hér er gert ráð fyrir í 2. gr. frv., að um endurskoðun verði að ræða fyrir lok ársins 1993, þá yrði fengin reynsla af því hvernig það fyrirkomulag sem hér er lagt til hefur reynst.
    Ég vil taka undir það með hæstv. ráðherra að þetta mál fái eins skjóta afgreiðslu og mögulegt er til þess að af því sem því er ætlað að sinna geti orðið sem allra fyrst.