Efnahagsaðgerðir
Miðvikudaginn 21. desember 1988

     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Mér hefur skilist að einn hv. þm. hafi spurst fyrir um hvort hann geti gert að sinni tillögu tillögur sem flm. hefur ákveðið að kalla aftur, annaðhvort til 3. umr. eða kalla alveg aftur, og að svar hæstv. forseta og úrskurður sé að svo sé ekki hægt, jafnvel um þær tillögur sem ekki hafa verið greidd atkvæði um, þ.e. brtt. sem eru við greinar sem búið er að greiða atkvæði um. Það kann vel að vera að svo sé, en ég óska eftir því að það sé þá vísað til ákveðinna greina í þingsköpum þar sem þetta er að mínu viti afar óeðlilegt því að hv. alþm. þurfa að geta treyst því að tillögur sem hafa komið fram með réttum hætti séu ekki gervitillögur sem síðan séu kallaðar aftur í atkvæðagreiðslunni og þannig komið í veg fyrir að greidd séu atkvæði um efnisatriði sem þegar er búið að ræða og menn hafa tekið afstöðu til í umræðum. Ég ætla ekki að efast um úrskurð hæstv. forseta, en þetta stríðir a.m.k. gegn almennum fundasköpum sem fylgt er í landinu og þess vegna óska ég eftir að vísað sé til ákveðinna atriða í þingskapabálki.