Efnahagsaðgerðir
Miðvikudaginn 21. desember 1988

     Forseti (Kjartan Jóhannsson):
    Eins og hv. þm. er jafnljóst og mér gerist það oft á Alþingi að tillögur séu dregnar til baka, annaðhvort milli umræðna eða fyrir fullt og fast, og hlýtur að teljast eðlilegt í þingsköpum að ef koma upp nýjar aðstæður hafi menn möguleika á því að draga tillögur sínar til baka áður en kemur til atkvæða. Það hlýtur að teljast eðlilegt. En ég legg til úr því að hér er ekki um slíkt vandaverk að ræða að það gefist ekki færi á því að taka þessar tillögur upp aftur, það gefst færi á því við 3. umr., að það verði farið í bóklestur, lagalestur og þingskapalestur að lokinni þessari atkvæðagreiðslu, enda hefur hv. 5. þm. Reykv. lýst skoðun sinni á þessu máli.