Efnahagsaðgerðir
Miðvikudaginn 21. desember 1988

     Sighvatur Björgvinsson:
    Herra forseti. Sé tillaga kölluð aftur á meðan enn er ráðrúm til þess að gera tillögur, þ.e. áður en atkvæðagreiðsla hefst, er að sjálfsögðu hverjum þingmanni heimilt að gera þá tillögu sem þá er dregin til baka að sinni. Eftir að atkvæðagreiðsla er hins vegar hafin er ekki heimilt að gera tillögur þannig að sé þá kölluð aftur tillaga þegar atkvæðagreiðsla er hafin getur enginn þingmaður gert hana að sinni fremur en nokkur þingmaður getur flutt tillögu eftir að atkvæðagreiðsla er hafin.
    Þess eru mörg dæmi að þannig hafi staðið á við afgreiðslu fjárlaga t.d. að í atkvæðagreiðslunni hafi tillögumenn kallað brtt. aftur og aðrir þingmenn hafi þá óskað eftir því að atkvæði gengju um þá brtt. þó hún væri kölluð til baka með því að gera hana að sinni. Það hefur ávallt verið úrskurður forseta við slíkar aðstæður að slíkt sé ekki hægt eftir að atkvæðagreiðsla er hafin og ég tel að þessi úrskurður forseta sé laukréttur. En ég vil jafnframt benda hv. þm. á að þó að menn kalli tillögur sínar aftur til 3. umr., eins og sumir segja, verða þær ekki til atkvæða við 3. umr. sjálfkrafa af þeim sökum nema þingmenn flytji þær aftur formlega eftir að 2. umr. lýkur.