Aðgerðir í efnahagsmálum
Miðvikudaginn 21. desember 1988

     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Ég vænti þess, eins og kom fram í máli hv. síðasta ræðumanns, að forsvarsmenn hæstv. ríkisstjórnar gefi skýringar og svör við þeim spurningum og fyrirspurnum sem til þeirra var beint af hálfu síðasta ræðumanns, einkum og sér í lagi vegna þeirra yfirlýsinga sem komu fram af hálfu þeirra sem ákváðu að koma í veg fyrir eðlilegar breytingar á frv. sem hér er verið að ræða. Það er nú þannig, virðulegur forseti, að málgögn ríkisstjórnarinnar halda því fram í leiðurum þessa dagana að hér á Alþingi sé stundað málþóf af hálfu stjórnarandstöðunnar. Af því tilefni tel ég rétt að það komi mjög skýrt fram að við 2. umr. um frv. sem hér er til umræðu og eins um 8. mál þingsins urðu tiltölulega stuttar umræður. Að vísu flutti hæstv. forsrh. nokkuð langa og ítarlega ræðu sem ég er honum þakklátur fyrir því að í ræðu hans komu fram ýmis gagnleg efnisatriði sem snerta stefnu hæstv. ríkisstjórnar og hafa upplýsingagildi fyrir þingmenn alla. Mér finnst það vera ákaflega ósanngjarnt af hálfu málgagna hæstv. ríkisstjórnar að ráðast þannig að þeim sem þurfa að koma fram með upplýsingar í þessum umræðum og ég hygg að dagblaðið Tíminn, sem einna harðast hefur verið að hamra á því að hér sé stundað málþóf, hafi með þessum hætti ætlað að stemma stigu við því að hæstv. forsrh. taki aftur til máls, en ég treysti því að hæstv. forsrh. láti ekki undan slíkum tilmælum og viðurkenni það að auðvitað þurfa forsvarsmenn hæstv. ríkisstjórnar að svara þeim fyrirspurnum sem til þeirra berast í umræðum og taka eðlilegan þátt í umræðum um þessi mál.
    Eins og fram kom í máli síðasta ræðumanns er hér á ferðinni frv. sem á rætur að rekja til ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar. Þetta eru að stofni til bráðabirgðalög sem útgefin voru í maímánuði sl. Á því frv. eða á þeim bráðabirgðalögum sem þá voru samþykkt af þáv. ríkisstjórn hafa orðið gagngerar breytingar. Þær breytingar eru m.a. í því fólgnar að 4. gr. frv. hefur verið breytt í meðförum Alþingis, en jafnframt hefur ýmsum ákvæðum verið breytt og gerðist það um það bil sem hæstv. núv. ríkisstjórn tók við völdum hér á landi.
    Það liggur nú fyrir að sumir hv. þm. úr hópi stuðningsmanna hæstv. ríkisstjórnar lögðu á það mikla áherslu að í stað dagsetningarinnar 10. apríl kæmi 15. febr. Það virtist vera skilyrði af hálfu Alþb. í upphafi þegar stjórnarmyndunarviðræður hófust að samningsrétturinn yrði viðurkenndur strax, en eftir nokkurt þóf og eftir að Alþb. hafði fallist á þá hugmynd formanns Alþb. að ganga til samstarfs við Alþfl. og Framsfl. nánast hvernig sem viðraði var ákveðið til málamynda að færa dagsetninguna til og setja dagsetninguna 15. febr. í lögin með breytingu sem varð með nýjum bráðabirgðalögum. Þetta hafði auðvitað þá þýðingu, sem margoft hefur verið bent á, að samningstími samninga sem gerðir hafa verið verður mislangur. Það er ljóst að samið hefur verið við fjölmörg verkalýðsfélög samkvæmt Akureyrarsamningunum til 10. apríl, en önnur

verkalýðsfélög, þar á meðal félög eins og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, eru með gildandi kjarasamninga við ríkisvaldið til nk. áramóta.
    Þetta nefni ég hér og legg áherslu á vegna þess að svo undarlega vill til að hæstv. ríkisstjórn, og þó einkum fulltrúar Alþb. í hæstv. ríkisstjórn og í þingliði Alþb., bera það nú allt í einu fyrir sig að ekki megi fella niður bann við samningum og opna samningana í gildi frá gildistöku þessara laga vegna þess að þá verði gildistími samninganna mismunandi langur. M.ö.o.: Hæstv. ríkisstjórn notar sem rök gegn nýfelldum tillögum stjórnarandstöðunnar, rök sem eiga nákvæmlega eins vel við um þá breytingu sem hæstv. ríkisstjórn gerði á bráðabirgðalögum þegar hún tók við völdum sl. haust.
    Hæstv. forsrh. hefur engin ný rök komið með í þessum efnum og hæstv. fjmrh. hefur jafnvel leyft sér að halda því fram að fulltrúar Alþýðusambands Íslands séu á móti því að þessi ákvæði --- einkum og sér í lagi þau sem koma fram í 4. gr. þessa staðfestingarfrv., formaður Alþb. hefur leyft sér að nefna ákveðin nöfn í forustusveit Alþýðusambands Íslands og haldið því fram að þeir forustumenn í Alþýðusambandinu sem hann hafi rætt við, og ég þori að nefna mann eins og Ásmund Stefánsson, að hann sé á móti því að samþykkt verði tillaga stjórnarandstöðunnar. Ég vil að það komi skýrt fram í þessum umræðum hér að Ásmundur Stefánsson lýsti því yfir á fundi fjh.- og viðskn. að hann vildi fella þessa grein brott.
    Ég held hins vegar að hæstv. forsrh. hafi gefið í skyn að hann í sínu almáttuga veldi geti strax í upphafi nýs árs gengið til einhvers konar kjarasamningaviðræðna við aðila vinnumarkaðarins. Og eins og fram kom í atkvæðaskýringu eins þingmanns sem gekk til liðs við ríkisstjórnina í dag, þá búast menn við því að hæstv. forsrh. spili einhverjum trompum út í upphafi næsta árs. Þess vegna vil ég beina þeim eindregnu tilmælum til hæstv. forsrh. að hann skýri það út fyrir þingheimi: Hvað ætlar hann að leggja til við Alþýðusamband Íslands og við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja í þeim viðræðum sem hann hyggst efna til eftir jól? Það verður ekki annað ráðið af atkvæðaskýringum sumra hv. þm., sem gengið hafa til liðs við ríkisstjórnina, en að hæstv. forsrh. ætli sér að leggja upp í slíkar viðræður með einhver ákveðin efni. Og við hljótum að spyrja hér á hinu háa Alþingi: Hvað er það sem
hæstv. forsrh. ætlar að leggja af stað með í slíkar viðræður? Er það eitthvað nýtt sem varðar efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar? Eins og allir vita hefur hæstv. ríkisstjórn ekki fylgt neinni stefnu annarri en þeirri að leika biðleiki í haust og síðan á að ,,leita allra leiða`` svo að ég noti orðrétt orðtak sem hæstv. viðskrh. notar gjarnan í sínum málflutningi.
    Ég tel í tilefni dagsins að það sé bráðnauðsynlegt að hæstv. forsrh. fylli út í þessa mynd þannig að almenningur í landinu geti betur gert sér grein fyrir því hvað sé að gerast í stjórnmálunum, hvernig á því standi að vissir þingmenn beri þetta traust til hæstv.

forsrh. á þeim grunni að hann muni efna til einhvers konar viðræðna við verkalýðssamtökin í landinu í upphafi nýs árs. Ef hæstv. forsrh. hefur gefið slíkt loforð eða lýst slíku yfir við viðkomandi þingmenn, þá er fyllsta ástæða til þess nú að fá fram hvað hæstv. forsrh. eigi við. Upp á hvað ætlar hann að bjóða? Eða ef engin svör koma --- og ég trúi því satt að segja ekki að hæstv. forsrh. sitji þegjandi undir þessum umræðum, jafnvel þótt dagblaðið Tíminn segi að hér fari fram málþófsumræður þegar hæstv. forsrh. leyfir sér að taka til máls --- þá ætlast þingheimur til þess og almenningur að hann svari slíkum einföldum spurningum.
    Og hvers vegna skyldi nú hæstv. forsrh. eiga að svara slíkri fyrirspurn? Það skal ég segja honum. Það er vegna þess að eitt sinn sem oftar þegar hæstv. forsrh. var erlendis að ná sér í nýja línu með því að skoða beinabyggingu ákveðins forsætisráðherra úti í heimi, þá var varamaður hans, hæstv. sjútvrh., hér mættur og tók þátt í umræðum um efnahagsmál. Í þeim umræðum sagði hæstv. sjútvrh. svo skýrt að allir skildu: Það á að lækka launin í landinu. Það á að rýra kaupmáttinn. Það er það eina sem dugar. Þetta sagði hæstv. sjútvrh. sem talar manna skýrast og er talinn sá hæstv. ráðherra sem mest mark er á takandi. Ég þarf ekki að minna hæstv. forsrh. á orðræður þeirra um hvalamálið svokallaða. Þar kom best í ljós hver það var sem hélt orð sín. Og það er ekki nokkur vafi á því að það er tekið mark á orðum hæstv. sjútvrh. Það sem þá stendur eftir, svo að ég tali nú mjög skýrt, er þetta:
    Að minnsta kosti tveir hv. stjórnarandstæðingar svokallaðir hafa gengið til liðs við ríkisstjórnina vegna þess að hæstv. forsrh. hefur gefið það í skyn að hann ætli að hefja viðræður við verkalýðssamtökin í landinu. Hæstv. forsrh. hefur ekkert sagt um það út á hvað slíkar viðræður eiga að ganga, en varamaður hans, staðgengill hans, hæstv. sjútvrh. hefur sagt hér í þessum sama ræðustól: Það ber að rýra kaupmátt fólksins í landinu. Og við hljótum að spyrja hæstv. forsrh.: Ætlar hann að staðfesta orð sjútvrh.? Er það sú stefna sem hefur orðið til þess að menn hafa hér breytt um afstöðu? Eða hefur hæstv. forsrh. einhverja aðra áætlun, einhver önnur spil sem hann ætlar að sýna verkalýðshreyfingunni? Þessum eðlilegu fyrirspurnum bið ég hæstv. forsrh. um að svara og gera hér skil í sinni ræðu. Ég mun aldrei halda því fram þótt hæstv. forsrh. taki til máls og ræði efnislega um þessi atriði að hann haldi uppi málþófi hér á hinu háa Alþingi. Það dytti mér aldrei í hug að gera.
    Í þessu frv. til staðfestingar á bráðabirgðalögum kemur fram kjara- og efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar. Við 2. umr. málsins urðu nokkrar umræður um einstakar greinar frv. en jafnframt um nokkur önnur atriði og ég vil þakka hæstv. forsrh. fyrir það að hafa í þeim umræðum tekið til baka þau ummæli sem hann viðhafði í svokallaðri stefnuræðu sinni þegar hann hélt því fram að vestrænar aðferðir í efnahagsmálum væri ekki hægt að viðhafa hér á landi. Ég fagna því að í ræðu hæstv. forsrh. við 2. umr. þessa máls kom skýrt

fram að hæstv. ráðherra telur að það eigi að stefna í átt til frjálsræðis í íslenskum efnahagsmálum, ekki síst í málefnum er varða fjármagns- og lánamarkaðinn. Ég fagna þessu vegna þess að ýmsir töldu að hæstv. forsrh. væri horfinn af þessari braut, ekki síst vegna þess að til fylgilags við Alþfl. og Framsfl. kom Alþb. í haust og til skamms tíma a.m.k. hafa menn þekkt stefnu þess flokks á því að hann hefur ekki viljað fylgja svokölluðum vestrænum aðferðum við stjórn efnahagsmála. ( Fjmrh.: Það er misskilningur hjá þér. Það stafar af vanþekkingu.) Það er alveg hárrétt, held ég, sem hæstv. fjmrh. kallar hér fram í að þetta sé misskilningur vegna þess, hæstv. fjmrh., núv. formaður Alþb., að ég er sannfærður um að þú, virðulegur ráðherra, ætlar að færa Alþb. til í íslenskum stjórnmálum. Ég er viss um að hæstv. fjmrh. sættir sig ekki við að vera foringi í litlum kommúnistaflokki.
    Hæstv. ráðherra ( Fjmrh.: Það á að stofna hann fyrst.) hefur verið í ýmsum íslenskum stjórnmálaflokkum. Hæstv. ráðherra er fæddur og uppalinn í Framsfl. ( Fjmrh.: Ekki fæddur þar.) ja, a.m.k. skírður í Framsfl., fæddur á Ísafirði, eins og ýmsir góðir flokksmenn annarra flokka. ( Fjmrh.: Hann er fæddur í Alþfl.) Reyndar er hann fæddur í Alþfl. upplýsir hann, og það þýðir þá, svo ég fari nú með lífsferil þess hæstv. ráðherra sem kallar hér fram í: Fæddur í Alþfl., alinn upp í Framsfl., fór með Möðruvallahreyfingunni yfir í Frjálslynda og vinstri til þess að sameina alla vinstri menn í einum flokki, hvarf þaðan yfir í Alþb. og situr þar við hægri hönd Svavars Gestssonar og annarra þeirra sem hafa starfað þar allt frá því að þeir störfuðu í Æskulýðsfylkingunni á sínum tíma. ( Fjmrh.: Og deyr í Sjálfstfl.) Ja, ég get nú
ekki ráðið næturstað hæstv. ráðherra, en ég rifja upp vísu sem hv. þm. Stefán Valgeirsson orti á sínum tíma þegar hv. þm. Stefán Valgeirsson var í Framsfl. með hæstv. ráðherra, en þá stóð þannig á að (Gripið fram í.) jú, jú, seinna --- að hv. þm. Stefán Valgeirsson var harðasti framsóknarmaðurinn á landinu ( SV: Og er það enn.) Og er það enn, segir hann, þó að hann sé farinn úr flokknum. Hafa menn heyrt þetta? Þá orti Stefán Valgeirsson um hæstv. ráðherra:
        Fyrir öllu sjálfur sat,
        sótti um völd og hylli.
        Ólafur Ragnar Grímsson gat
        því gengið flokka á milli.
    Man hv. þm. eftir því þegar þeir störfuðu saman í Framsfl. og Ólafur Ragnar Grímsson, hæstv. ráðherra, gekk úr flokknum og fyrir orðastað flokksforustunnar í Framsfl. þáv. orti hv. þm. Stefán Valgeirsson þessa vísu? ( SV: Það er ekki rétt.) Jæja, í sinn eigin orðastað þá. ( SV: Þín sagnfræði er léleg.) Neitar hv. þm. að hafa ort þessa vísu? Kannast hv. þm. ekki við krógann? Þorir ekki hv. þm. að kannast við krógann kannski vegna þess að nú er hv. þm. Stefán Valgeirsson farinn að ganga flokka á milli?
    Þetta var nú í tilefni þess að hæstv. fjmrh. kallaði hér fram í og sagði að ég hefði misskilið stefnu Alþb. Ég held nefnilega satt að segja að hæstv. fjmrh. hafi

enn í huga að sameina alla vinstri menn í einum flokki, og væri það vel ef honum tækist það, og þess vegna sé það áhugamál hæstv. fjmrh. að breyta frá þeirri stefnu sem hefur verið ríkjandi af hálfu Alþb. í efnahagsmálum. Það er þess vegna ekki misskilningur af minni hálfu. Það er fullur skilningur af minni hálfu á því hver sé stefna hæstv. fjmrh. Ég hygg að það sé einmitt nákvæmlega þess vegna sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson treysti sér ekki til þess að kjósa hæstv. fjmrh. sem formann Alþb.
    Um það sem hæstv. fjmrh. sagði, að svo gæti farið að hann dæi í Sjálfstfl., ja, maður hefur nú ýmis kvíðbogaefnin í þeim flokki þó að þetta bætist ekki við (Gripið fram í.) svo að ég vil nú frábiðja mér það böl að þurfa að taka við hæstv. fjmrh., a.m.k. þangað til enn ein hugarfarsbreytingin hefur átt sér stað og hann hefur þvegið úr heilanum á sér ýmsar þær vitleysur sem þar sitja nú fyrir.
    Það hefur verið rætt nokkuð í þessari umræðu, og ég held að það sé afar nauðsynlegt að fá hæstv. ráðherra, einkum og sér í lagi hæstv. fjmrh., til að ræða í þessari umræðu um spariskírteini og vexti, hæstv. fjmrh., sem er nú æðsti ráðherra þessarar ríkisstjórnar og stjórnar ferðinni, a.m.k. að eigin áliti --- og ég sé að hæstv. forsrh. skilur hann einan eftir úr ráðherragenginu hér í salnum --- þá væri ánægjulegt ef hæstv. fjmrh. vildi gera okkur þann greiða í þessari umræðu að skýra það út hvort vextir af spariskírteinum muni lækka á næstunni samkvæmt því loforði sem hæstv. ríkisstjórn gaf út í haust og tekið var inn í fyrstu aðgerðir ríkisstjórnarinnar. --- Ég ætla að bíða aðeins meðan hæstv. ráðherra hreinsar á sér eyrun. --- Ég held nefnilega að það skipti ákaflega miklu máli að átta sig á því hvort hæstv. ráðherra hyggst standa við gefin loforð þrátt fyrir það að nánast ekkert spariskírteini ríkissjóðs hafi selst eftir að hæstv. ráðherra byrjaði að skrifa undir þau. Nú er staðan sú í bönkum landsins og öðrum þeim stofnunum sem hafa tekið að sér að selja spariskírteini ríkissjóðs að spariskírteinin hafa ekki selst. Ég giska á að álíka mikið hafi selst af spariskírteinum og innleyst hafa verið. Ég giska á það. Þetta þýðir að áætlanir ríkissjóðs, sem hæstv. ráðherra hefur gert, geta ekki staðist og þess vegna hlýtur hæstv. ráðherra að þurfa að skýra það út fyrir þingheimi og þjóðinni hverng hann hyggst standa að rekstri ríkissjóðs án þess að fá þá fjármuni sem áttu að fást með sölu spariskírteina og hvort hann treysti sér til þess að lækka enn vexti á spariskírteinum þótt sú staðreynd liggi fyrir að spariskírteinin seljast alls ekki. Um þetta urðu nokkrar umræður hér um daginn í fyrirspurnatíma. Þá sagðist hæstv. ráðherra ætla að beita sér fyrir vaxtabreytingu á spariskírteinum um áramótin. Nú líður senn að áramótum þannig að hæstv. ráðherra hlýtur að geta gefið okkur einhverjar vísbendingar um það hvað hann hyggst gera nú á síðustu dögum fyrir jól.
    Það er annað mál sem hefur talsvert verið rætt einnig og snertir öll þessi mál, en það er lánskjaravísitalan. --- Og nú eru í salnum tveir hæstv.

ráðherrar í forföllum hæstv. forsrh. Annar þeirra er hæstv. viðskrh. Mig langar til að rifja það upp ásamt hæstv. viðskrh. hvernig það lá svo dæmalaust mikið á hjá hæstv. forsrh. að útrýma lánskjaravísitölunni og á meðan það var ekki hægt, þá ætti a.m.k. að breyta henni. Nú skilst mér af fjölmiðlum að eftir áramótin verði ekki bara ein lánskjaravísitala heldur tvær eða þrjár og fór nú þannig fyrir hæstv. forsrh., sem ætlaði að drepa lánskjaravísitöluna, að þegar hann hjó á hana, þá fjölgaði hún sér með þeim afleiðingum, sem hæstv. forsrh. hefur best lýst, að það verður stórhættulegt fyrir almenning í landinu sem kemur til með að skilja minna í þessum frumskógi en áður og getur orðið til þess, eins og hann sagði, ég geri þau orð ekki að mínum en nefni hans rök til sögunnar, getur orðið til þess að braskarar eigi betur með að svindla á
fólki. Það var efnislega það sem hann sagði hér í umræðum í gær. Nánast þetta. Og ég spyr hv. þm., ekki síst þá sem hafa hugsað sér að styðja núv. hæstv. ríkisstjórn og hæstv. forsrh., ekki síst þá sem leggja traust sitt á það að hæstv. forsrh. muni fara að vilja þeirra og hefja viðræður við fulltrúa verkalýðsins: Treysta þeir orðum forsrh. í ljósi þeirrar staðreyndar að þegar hann lýsir yfir að breyta eigi lánskjaravísitölunni, þá er fjölgað úr einni viðmiðun í þrjár?
    Hér hefur enn fremur verið rætt um raforkuverðið, en af því að ég hafði ekki hugsað mér að tala hér lengi, þá ætla ég ekki að fjalla ítarlega um það mál að sinni. Það gefst tækifæri til þess síðar. En ég vil ítreka þá fyrirspurn, sem lögð var fyrir hæstv. forsrh., hvort ekki væri rétt að 25% lækkun raforkuverðs hefði verið reiknuð inn í fyrstu aðgerðir hæstv. ríkisstjórnar og átt að gilda um 1 / 2 % í afkomubata, en í því máli hefði ekkert gerst og ekki sé fyrirsjáanlegt að nokkuð muni gerast.
    Mig langar til þess að spyrjast fyrir um það jafnframt, hvort hæstv. forsrh. þyki það tilhlýðilegt, að í 12. gr. þess frv. sem hér er til umræðu standi nú eins og áður: ,,Lög þessi öðlast þegar gildi og gilda til 10. apríl 1989.`` Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra: Hvaða efni standa til þess að þessi lög gildi til 10. apríl 1989 þegar þess er gætt að nánast allar aðrar dagsetningar miðast við 15. febr. eða 1. mars? ( Forseti: Má ég aðeins, hv. þm. Það hefur komið fram mjög eindregin ósk frá að ég held öllum flokkum þingsins um það að gefa færi á þingflokksfundum til þess að bera saman bækurnar um skipulag þinghaldsins og að þeir yrðu haldnir núna um þrjúleytið. Spurning mín til ræðumanns er hvort hann muni ljúka sér af svona rétt um þrjúleytið eða hvort hann vilji eiga eftir afgang af ræðu sinni.) Virðulegur forseti. Það stóð aldrei til að flytja hér langa ræðu og það mun vera auðvelt verk fyrir mig að ljúka minni ræðu á svo sem eins og tveimur mínútum.
    Ég spurði hæstv. forsrh. hvort ekki væri eðlilegt að breyta dagsetningunni í gildisákvæði laganna. Loks --- og nú er ég kominn að lokaorðum minnar ræðu --- vil ég enn á ný ítreka það sem margoft hefur komið fram

í umræðum um þessi mál og önnur stefnumál hæstv. ríkisstjórnar, ef maður má nota svo fínt hugtak um þann biðleik sem leikinn var í haust, og það er þetta: Hæstv. forsrh. hefur margoft lýst því yfir að gengi íslensku krónunnar sé rangt skráð. Undir þetta vil ég taka. En ég vil segja til viðbótar að ef gengið er rangt skráð, þá hlýtur það að vera lágmarkskrafa að hæstv. ríkisstjórn leiðrétti skráningu gengisins. Þetta segi ég hér vegna þess að þetta hefur þá efnislegu þýðingu að betur næst viðskiptajöfnuður við önnur ríki og einnig vegna þess að þannig má koma í veg fyrir þá mismunun sem verður milli einstakra atvinnugreina með því að draga úr millifærslum til sumra greina á kostnað annarra. Þetta vil ég gera að mínum lokaorðum, virðulegur forseti, og vænti þess að hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. muni gefa okkur skýr svör við þeim fyrirspurnum sem hér hafa komið fram í þessari stuttu umræðu sem nú hefur átt sér stað.