Vörugjald
Miðvikudaginn 21. desember 1988

     Kristín Halldórsdóttir:
    Herra forseti. Svo mjög er nú þegar búið að gagnrýna vinnubrögð meiri hlutans við afgreiðslu þessa frv. um vörugjald að varla er á bætandi, en hjá því verður þó ekki komist.
    Fyrir ári voru gerðar víðtækar breytingar á lögum um tolla og vörugjald. Lentum við þá í slæmri tímaþröng við athugun mála rétt eins og nú þótt segja megi að nú hafi svo sannarlega keyrt um þverbak. Þá lýstu fulltrúar stjórnarandstöðunnar sig reiðubúna til þess að fara ítarlega yfir tollskrána og leita samkomulags um álagningu vörugjalds. Því boði var hafnað og var svo að skilja að þeir sem þá réðu málum væru sannfærðir um að ekki yrði bætt um betur.
    En Adam var ekki lengi í Paradís. Nú er kominn nýr húsbóndi í fjmrn. og þykir nú álitlegt að leita á náðir vörugjaldslaganna og kreista svolítið meira út úr þeim. Við kvennalistakonur erum ekki á móti sköttum svo framarlega sem þeir þrengja ekki um of að almenningi. Um afstöðu til þeirra tekjuöflunarfrv. sem hafa komið til afgreiðslu nú síðustu daga og vikur höfum við viljað fara mjög varlega, bæði með tilliti til ótryggs atvinnuástands og með tilliti til þess að ríkisvaldið hefur tekið sér það vald að ákveða þak á almenna launataxta. Við slíkar aðstæður er óforsvaranlegt að samþykkja álögur sem hafa veruleg áhrif á afkomu heimila og launafólks og þá jafnáþreifanlega og t.d. bæði vörugjaldið og hækkun tekju- og eignarskatts.
    Þegar frv. sem hér er til 2. umr., ef við eigum að fallast á það með tilliti til þeirra miklu breytinga sem fram eru komnar á þingskjölum, var kynnt var látið að því liggja að manneldissjónarmið hefðu skipað háan sess við val númera úr tollskrá. Við nána athugun kom hins vegar í ljós að með því var verið að reyna að fegra tilganginn sem var auðvitað sá einn að afla ríkissjóði tekna.
    Í síðustu útgáfu sem við nefndarmenn fengum í hendurnar óútskýrða með öllu, eftir að meiri hlutinn hafði afgreitt málið frá nefndinni fyrir sitt leyti, er farin býsna skringileg leið. Þar er sérstök hækkun á ákveðna vöruflokka færð í eins konar grímubúning, eins og reyndar fleiri tillögur stjórnarinnar í öðrum málum, og reynt að halda því fram að þar sé um sykurskatt að ræða. Það er þó alls ekki raunin þar sem innan um og saman við sælgætis- og gosnúmerin eru númer sem hafa að geyma t.d. ósætt ávaxtaþykkni, ógerjaða og ósykraða ávaxtasafa, edik, ölkelduvatn, sælgæti sem hvorki inniheldur sykur eða kakó, samkvæmt skýringum í tollskrá, og svokölluð ,,medicated sweets``. Hins vegar er svo sleppt ýmsum vörum eins og t.d. tilbúnum ávaxtagrautum sem allir vita að eru hlaðnir sykri og rotvarnarefnum. Því er afar augljóslega engin samræming í þessari skattlagningu sem er klædd í búning hollustuverndar.
    Það skal að vísu metið að með breikkun stofnsins í A-lið 1. gr. er komið til móts við það sjónarmið Kvennalistans sem við kynntum rækilega hér við umræðu og í þingsölum fyrir ári að sykur og

sykurvörur ættu að bera vörugjald. Framkvæmdin að öðru leyti er ekki eins og við teljum réttast. Hitt er þó kannski sýnu verra að sitthvað bætist við, fær sem sagt vörugjald, sem bar ekkert slíkt áður samkvæmt brtt. meiri hl. sem fengust lítið skýrðar áður en þetta var keyrt í gegnum nefndina. Það skildi ég raunar vel þegar ég sökkti mér niður í tollskrána að loknum þingfundi í gærkvöldi, en þá fyrst gat ég farið að kynna mér þetta. Sumt verkar reyndar hálfhlægilega. Ég tíni hér til örfá dæmi.
    Það er að vísu ekkert hlægilegt við það að vörugjald á að leggja á málningu og lökk og t.d. liti til listmálunar, kennslu, dægradvalar og þess háttar. Það eru gluggakítti, þéttiefni og sparsl, slöngur, pípur, hosur. Síðan er eitt númer sem er komið hér inn í --- ég vona að ég sé með rétt þingskjal --- það er númer 3926.3001. Þetta fann ég ekki í tollskránni, en e.t.v. get ég fengið skýringar á því. Alla vega hef ég ekki hugmynd um hvað þetta er ef þetta númer er þá einhvers staðar til. Ég sem sagt fann það ekki og spyr: Hvaða númer er þetta? Ég vænti að þessi spurning komist til hæstv. fjmrh. Hann virðist vera mjög önnum kafinn, en ég sé að hann hefur aðstoðarmenn í hliðarsal sem hlýða á mál mitt, og ég lýsi eftir því hvað felist á bak við þetta númer 3926.3001.
    Síðan kom áfram slöngur, pípur, hosur, ýmsar vörur úr járni og stáli, koparstengur og fleiri vörur úr kopar, vörur úr nikkel, ýmislegt úr áli, blýi, zinki. Síðan koma númer sem eru skýrð sem brynvarðir eða styrktir peningaskápar. Hvort menn telja sig ná þar inn miklu fé veit ég ekki. Það eru katlar til miðstöðvarhitunar, stimpilbrunahreyflar með þrýstikveikju, viftur og háfar, loftjöfnunartæki, lyftur og skúffubönd til vöru- og mannflutninga, rennistigar, rennigangbrautir, rafgeymar og fleira áfram í þeim lið. Það eru yfirbyggingar fyrir vélknúin ökutæki, stuðarar á bíla, bremsuborðar, gírkassar, höggdeyfar o.s.frv., það eru sem sagt varahlutir í bíla, og loks lampar og ljósabúnaður. Þetta eru þau númer sem bætt er við við breikkun stofnsins og þetta kemur vitaskuld misjafnlega illa niður. Sjá menn t.d. skynsemina í því að skattleggja aukalega varahluti í bíla? Þessi skattur er samkvæmt upplýsingum, sem við þó fengum, talinn skila um 70 millj. kr. í soltinn ríkissjóð, en að mínum dómi er hann heimskulegur og varhugaverður og ég hef ástæðu til að ætla að fulltrúar meiri hl. hafi slæma samvisku þegar þeir leggja það til að þetta gjald verði lagt á. Álagningarpólitík stjórnvalda er satt að segja með eindæmum vitlaus hvað þetta varðar, þ.e. hvað varðar skattlagningu á bíla og hluta í þá. Fyrst voru bílar stórlækkaðir í verði árið 1986 til þess að falsa framfærsluvísitöluna og afleiðingarnar eru allt of margir bílar sem kalla á dýr umferðarmannvirki og kosta okkur manntjón og eignatjón og viðskiptahalla og mengun. Og nú vilja menn skattleggja varahluti svo að það borgi sig síður að gera við alla þessa bíla. Sér er nú hver stefnan.
    Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta en hlýt að endurtaka mótmæli við því hvernig

meðferð þessa máls hefur orðið þar sem hreinlega enginn tími hefur gefist til þess að vinna með þær tillögur sem meiri hl. varpaði fram, fyrst munnlega áður en hann afgreiddi málið frá nefndinni og því næst skriflega í óskiljanlegu formi svo að illmögulegt er um að ræða. Svona afgreiðsla nær auðvitað engri átt og ég tek undir með hv. síðasta ræðumanni, 17. þm. Reykv., að hér fer í raun og veru fram 1. umr. en ekki 2. umr. þar sem um gjörbreytt þingmál er að ræða. Ég er satt að segja enn að reyna að átta mig á því hvernig unnt er að greiða atkvæði um þetta þingmál af nokkru viti og ég tala nú ekki um að koma upplýsingum til stallsystra minna í þingflokknum. Af þessum ástæðum vil ég að lokum, hæstv. forseti, mælast til þess að okkur gefist stutt hlé til þess að undirbúa atkvæðagreiðslu að lokinni umræðu um þetta mál, hvort sem við köllum hana 1. eða 2. umr. ( Forset i: Tilmæli hv. ræðumanns verða tekin til vinsamlegrar athugunar.)