Vörugjald
Miðvikudaginn 21. desember 1988

     Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Ingi Björn Albertsson):
    Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því, eins og ég hygg að aðrir ræðumenn hafi gert, að fjalla örlítið um þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið í þessu máli.
    Eins og fram kom hér í gær undir þingskapaumræðu hafa vinnubrögðin verið ákaflega gagnrýnisverð og þinginu í raun til vansa. Lagt er fyrir viðamikið mál eins og vörugjaldsmálið er, einn af helstu tekjustofnum ríksstjórnarinnar, og því ekki gefinn sá tími sem það í rauninni þarf til vinnslu í nefnd. Frv. sem upphaflega var afgreitt til nefndar er, eins og ég sagði í gær, orðið nánast úrelt og úr gildi fallið og þar af leiðandi einnig álit allra þeirra fjölmörgu aðila sem á fund nefndarinnar komu til að gefa sínar umsagnir um málið. Þær umsagnir eru allar marklausar með öllu. Ég ítreka því enn á ný að ef þetta á að fá það sem ég vil kalla þinglega meðferð þarf það að fara aftur fyrir nefnd og aðilar sem þetta mál snertir þurfa að fá að fjalla aftur um það og gefa sínar umsagnir.
    Nefndastörf eiga að vera til þess að lagfæra mál, finna á þeim hnökra og skila þeim sem allra bestum út úr nefnd og inn í þingið þannig að það þurfi ekki að vera þinginu og þingmönnum til vansa, en því miður virðist sú vera raunin í dag. Ég tek því undir þá fsp. sem ég hygg að hv. þm. Geir H. Haarde hafi borið fram hér fyrr í dag um að athugað verði hvort hér hafi verið rétt að málum staðið.
    Um frv. má hafa fjölmörg orð og eins og ég sagði þá gafst ekki tími til að fara yfir þetta í nefndinni. Ég bað um það þegar 1. umr. fór fram að á borðum nefndarinnar mundi liggja tollskráin, þannig að nefndin gæti farið yfir skrána og borið saman númer og menn vissu þá í raun hvað þeir væru að tala um. Það kom fljótlega í ljós að menn hafa afskaplega litla hugmynd um á hvað þeir eru að auka álögur, á hvaða vörur þeir eru að bæta gjöldum og hvaða vörur þeir eru að hækka úti í þjóðfélaginu.
    Þegar að því kom að ég vildi fá að ræða það í nefndinni var skellt við skolleyrum og málinu lokað og það afgreitt út úr nefnd á hraða sem Carl Lewis hefði verið afskaplega stoltur af.
    Það eru fjölmörg númer sem má gera athugasemdir við. Ég ætla ekki að fara að tína þau mörg upp, sérstaklega af því að forsendur hafa breyst mikið. Það er allt í lagi engu að síður að kíkja lítillega á þetta. Það er talað um sykurskatt og þá stefnu sem kennd er við hann. Hollustustefnu, manneldisstefnu og annað slíkt. Þá vekur það furðu að í tollskránni, undir þeim ákveðna kafla er heyrir undir sykur, eru nánast öll númer sett með vörugjaldi, nema dísætir ávaxtagrautar og búðingsduft. Má t.d. benda í því sambandi á 18. kafla þar sem fjölmörg númer fá á sig vörugjald, nema búðingsduft. Þetta leiðir náttúrlega hugann að hver í rauninni stefnan er á bak við frv. Hvernig er valið úr? Hvaða vara skal fá vörugjald og hver ekki? Ég hef hingað til staðið í þeirri meiningu að ávaxtagrautar væru eitthvað það sætasta sem menn setja upp í sig. Engu að síður er í 21. kafla tollnúmer

9033, ávaxtasúpur og grautar, sem ber ekki vörugjald. Eðlilegt er að menn velti fyrir sér hvernig vinnubrögð hafi verið viðhöfð, hvort hér hafi bara hreinlega verið kastað upp á það hvaða númer fengi vörugjald á sig og hvaða númer fengi það ekki.
    Þá er mjög athyglisvert að í allri sykurskattsstefnunni og hollustustefnunni, manneldisstefnunni, og því sem nú er kallað sykurskattur á að setja vörugjald á sælgæti sem hvorki inniheldur sykur né kakó. Þetta hljómar mjög ankannalega, að sælgæti sem ekki inniheldur sykur skuli fá þetta vörugjald á sig. Maður hefði ætlað að það væri nær að sleppa því þá í gegn af manneldissjónarmiðum, af hollustusjónarmiðum, að reyna þá að stýra neyslunni yfir í sykurlaust sælgæti, en það er öðru nær. Ég óska náttúrlega eftir því að fá skýringar á því hvers vegna þetta er og hvaða stefna felst í því að setja vörugjald á sykurlaust sælgæti, hvort það hefur eitthvað með hollustu að gera eða ekki og hvort það kemur inn á t.d. sykursjúka. Ölkelduvatn, af hverju setja þeir vörugjald þar? Maður getur skilið þetta með bjórinn, að sett sé vörugjald á hann, enda á það að vera ein megintekjulind ríkisins í næstu framtíð. Hér er númer eins og edik. Á bak við öll þessi númer hlýtur að liggja einhver ástæða, einhver stefna. Nær hefði verið að setja vörugjald á tóbak, t.d. neftóbak, kaffi og aðrar slíkar vörur. Þá sæi maður einhverja hollustustefnu í frv.
    Eins og ég hef sagt fékk nefndin engan tíma til að fara yfir þetta, þannig að það verður að fara einhver tími af þingtímanum úr ræðustól í að fletta þessu aðeins í gegn. Stefna sú sem hæstv. ríkisstjórn markar hér í þessu frv. m.a. er sú að leggja vörugjald á vörur í 30. kafla sem er kafli undir nafninu Vörur til lækninga. Þar er liður 3003.9004 sem ber þetta enska orð ,,medicated sweets``. Það er afskaplega hæpin stefna sem þar er tekin, að fara að setja vörugjald á þann kafla. Þarna er nú aðallega, að ég hygg, um að ræða hóstatöflur og annað slíkt. Í kafla 3307.9002 er sett vörugjald á lið sem heitir pappír, vatt, flóki, vefleysur, gegndreypt, húðað eða hjúpað með ilmefni eða snyrtiefnum. Ef maður flettir blaðsíðunni er nákvæmlega sama upptalning, pappír, vatt, flóki, vefleysur, gegndreypt, húðað, hjúpað sápu eða
þvottaefni, vörugjaldslaust. Það er ekkert samræmi í þessu. Þetta er nákvæmlega sami hluturinn nema að því leyti til að í vörugjaldstilfellinu er bætt í snyrtiefnum en í síðara tilfellinu, sem fær ekki vörugjald, þvottaefnum. Ég sæi tollverðina fyrir mér þegar þeir ættu að fara að greiða úr þessu.
    Kafla 7313.0000 merki ég sérstaklega við fyrir Framsfl., þar sem nú hyggjast þeir setja vörugjald á gaddavír, girðingarefni, netagerðarefni og annað slíkt sem á virkilega að aðstoða bændurna í þeirra hörðu baráttu, gaddavír úr járni eða stáli, snúin bönd eða einfaldur flatur vír o.s.frv. (Gripið fram í.) Það er ákveðin stefna sem felst í því, hv. þm. Ég held að við ættum ekki að ræða hana mjög út í hörgul núna.
    Hér er 90. kafli sem er ansi stór og mikill kafli. Þar er tollnúmer 9007, eina númerið í öllum kaflanum

sem lagt er á vörugjald og enn á ný er kallað eftir skýringum. Hvers vegna þetta eina númer? Þarna er um kvikmyndavélar og kvikmyndasýningarvélar að ræða. Ég skal viðurkenna að þetta gæti verið til samræmis við vörugjald á vídeóvélar en þó skal ég ekki segja. Mér finnst hæpið að samræma það á þann hátt.
    Herra forseti. Það er náttúrlega hægt að lesa þessa tollskrá fram og til baka en hv. nefnd fékk engan tíma til að gera slíkt og hafði í reynd engan áhuga á að gera slíkt og er það miður að svo hafi farið. En stefna er engin í frv. Hún er mjög handahófskennd. Og að voga sér að tengja þetta manneldis- eða hollustusjónarmiðum er gjörsamlega út í hött.
    Þær breytingar sem hafa orðið í þá veru að hafa að meginstofni bara eitt vörugjald, 9%, eru þó vissulega til bóta þó að sykurskatturinn komi þar í ofanálag á mörg númer, og virðist þá hinni margfrægu einfeldni, sem átti að komast á í tollmeðferð, vera kastað fyrir róða því að þar á að leggja á 9% jöfnunargjald, 16% sértækt gjald hygg ég að það eigi að kallast þó að það hafi ekki, held ég, komið neins staðar fram, og síðan 25% heildsöluálag ofan á það. Ég held að þar með sé einfeldnin fokin út í veður og vind.
    Á fund nefndarinnar komu fjölmargir aðilar til umsagnar og eins og ég hef fyrr getið eru flestar þeirra nánast ógildar vegna þeirra gríðarlegu breytinga sem orðið hafa á frv., en ég vil þó fá að fara lítillega yfir einhvern hluta af þeim. Áður en ég geri það vil ég fá að minna á það að bæði í umræðunum um þetta mál á síðasta þingi og eins í 1. umr. hér, já, og einnig í umræðum uppi í ráðuneyti í þeim frægu samstarfsumræðum sem þar fóru fram um þetta frv., gat ég um ákveðið ósamræmi sem væri í tollskránni og benti á að ýmsir varahlutir, sem eru nákvæmlega eins og geta verið notaðir hver í sitt tækið, fá annaðhvort vörugjald eða ekki vörugjald. Til skýringar get ég nefnt tollskrárnúmer 8450.9000, sem eru varahlutir í þvottavélar. Samræmið í að hafa vörugjald á þessum lið er lítið þar sem ekkert vörugjald er á varahlutum t.d. í uppþvottavélar undir kafla 8422.9000, eða þurrkara 8451.9000 og fleiri og fleiri númer þar sem um nákvæmlega sömu hluti er að ræða. Sama má segja um fleiri tæki, ryksugur og hrærivélar og önnur sem ég hirði ekki um að tína upp hér. Það er búið að benda á þetta í tvígang en það fæst ekki lagað. Þegar tollverðir komu á fund nefndarinnar spurði ég þá einmitt um þetta atriði og þeir tóku alveg undir það að hér væri ógjörningur að greina á milli, og nánast, að mínu mati, lagt í hendur innflytjanda hvort hann merkir ekki vöruna vitlaust hreinlega til að komast hjá því að greiða vörugjald.
    Manneldisstefnan og hollustustefnan í frv. kemur m.a. fram í því að tannburstar eru að ég hygg vörugjaldslausir, en þegar kemur að því að hugsa um sjúka og aldraða og þá sem þurfa á rafmagnstannburstum að halda sem fer nú mjög í vöxt er að sjálfsögðu skellt á vörugjaldi. Þá er náttúrlega athyglisvert að orðið heimili og heimilistæki eða byggingarefni eða byggingarvörur virðist vera það sem

dugar til þess að vörugjald sé sett á. Á síðasta þingi fengust að verulegu leyti felld niður gjöld á smyglnæmar vörur. Það er tekið upp aftur nú. Má þar nefna tollnúmer eins og 8519.2100, 2900, og nú ætla ég ekkert að nefna vöruna enda tel ég að þingmenn hafi farið það vel í gegnum frv. að þeir átti sig algjörlega á því hvað býr á bak við hvert númer, enda hygg ég að krafa sé gerð til þess að þingmenn fari yfir öll þingskjöl.
    Við þá brtt. sem meiri hl. lagði fram hef ég ásamt hv. þm. Geir H. Haarde og hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur flutt brtt. um að í ákvæði til bráðabirgða V komi ártalið 1990 í stað 1991. Hér er um endurskoðunarákvæði að ræða á þessu frv. sem ég tel nauðsynlegt að fá inn einfaldlega vegna þess að það á eftir að koma í ljós að svo miklir hnökrar eru á frv. að ekki veitir af því að endurskoða það sem allra fyrst. Þar af leiðandi er sá tími sem gert er ráð fyrir í frv. of langur.
    Eins og ég sagði áðan komu tollverðir á fund nefndarinnar og gerðu athugasemdir við frv., þó ekki efnislegar því þeir eins og aðrir höfðu ekki fengið tækifæri til að skoða það, en þeir sáu samt í hendi sér að þar væri ýmislegt sem betur mætti fara. Ég bað þá formann nefndarinnar og tollverði um að gefa okkur skriflega álitsgerð um málið og hvað mætti betur fara. Í þetta var ágætlega tekið en málinu var ekki sinnt frekar og gerði ég athugasemdir
þar við.
    Sama má segja um þá kröfu að fá lögfræðilega álitsgerð á því hvernig slík álagning vörugjalds kæmi heim og saman við þau ákvæði brbl. er taka á verðstöðvun. Þessu var einnig lofað af formanni nefndarinnar. Það loforð var hins vegar ekki efnt en þingmönnum minni hl. var bent á að þeir gætu og ættu að taka orð eins nefndarmanns trúanleg, sem hafði víst í síma átt eitthvert ágætis samtal við hv. Sigurð Líndal.
    Herra forseti. Ég innti fjmrh. eftir allmörgu hér í 1. umr. en hann svaraði fáu og ég hyggst nú spyrja hann aftur. Ég las upp úr viðtali sem haft var við ráðherra í einu dagblaðanna þar sem hann segir m.a.: ,,Fjmrh. var spurður hvort Alþb. væri ekki andsnúið matarskattinum. ,,Það er alveg rétt að við alþýðubandalagsmenn töldum matarskattinn ekki gott skattform,,, svaraði ráðherra. ,,Við stefndum að því einnig að lækka verð á nauðsynlegum matvælum og nota frekar tekjuöflunina til þess. Hins vegar féllumst við á það, þegar þessi stjórn var mynduð, að matarskatturinn héldi gildi sínu í eitt ár og peningarnir væru frekar notaðir til að greiða niður verð á nauðsynlegum matvælum``.`` Ég spurði hæstv. ráðherra við 1. umr. hvað þetta þýddi. Þýðir þetta að matarskatturinn verði felldur niður eftir eitt ár? Eða þýðir þetta það að ráðherrann er að boða tvö þrep í virðisaukaskattskerfinu? Ég tel það afar brýnt að ráðherrann svari þessari spurningu.
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að gera kröfu til þess að ráðherra sitji undir þessum umræðum en vil engu að síður fá að spyrja hann að þessu aftur. Því spyr ég

hæstv. forseta hvort ekki séu tök á að fá ráðherrann í salinn. ( Forseti: Það verður athugað hvort ekki eru tök á því.)
    Á meðan verið er að leita að hæstv. ráðherra mun ég halda áfram ræðu minni. Sá hringlandaháttur sem hefur átt sér stað með þetta vörugjald hefur komið sér illa við margan manninn úti í þjóðfélaginu. Sú hækkun á vöruverði sem frv. í upprunalegri mynd sinni boðaði varð til þess að fólk flýtti sér út á markaðinn og keypti þá hluti sem það bjóst við að mundu hækka. Nú hefur þetta snúist upp í öndverðu sína og lít ég m.a. til ákveðins þingmanns sem lenti í þessari gildru stjórnarinnar og hljóp til og keypti sér heimilistæki, taldi sig spara vænlegan pening, en þegar upp var staðið tapaði hann ekki aðeins þeim hagnaði sem hann taldi sig hafa heldur einnig þeirri lækkun sem nú mun koma með þessum brtt.
    Þessu til staðfestingar vil ég fá að lesa hér brot úr grein er birtist í DV í gær, þriðjudaginn 20. des. Þar er viðtal við sölustjóra hjá Heimilistækjum hf. undir fyrirsögninni: Fólk hamstraði heimilistæki vegna boðaðrar hækkunar á vörugjaldi --- tapar nú peningum þar sem vörugjaldið lækkar. Í stað 5,3% hækkunar kemur 3,5% lækkun. Þessu lýsir sölustjórinn á eftirfarandi hátt, með leyfi forseta: ,,Að sögn Williams Gunnarssonar, sölustjóra hjá Heimilistækjum, varð töluverð söluaukning á heimilistækjum fyrstu dagana eftir að Ólafur Ragnar lagði fram frv. um hækkun vörugjalds á þessi tæki. Þá vildu margir spara sér fjármuni með því að kaupa þessi tæki áður en þau hækkuðu um 5,3%. Samkvæmt nýjum tillögum Ólafs hefur þetta fólk ekki sparað neitt. Þess í stað hefði það sparað 3,5% ef það hefði geymt kaupin fram yfir samþykkt hins nýja frv.``
    Hér kemur hringlandaháttur ríkisstjórnarinnar berlega í ljós. Fólk á náttúrlega að læra af reynslunni og taka þessa ágætu herra með varúð. Úr því að hæstv. ráðherra er kominn í salinn ætla ég fá að endurtaka þá spurningu sem ég var með til hans hér áðan og þarf í því sambandi að lesa aftur upp úr þeirri grein sem ég vitnaði til: ,,Fjmrh. var spurður hvort Alþb. væri ekki andsnúið matarskattinum. ,,Það er alveg rétt að við alþýðubandalagsmenn töldum matarskattinn ekki gott skattform,,, svaraði ráðherra. ,,Við stefndum að því einnig að lækka verð á nauðsynlegum matvælum og nota frekar tekjuöflunina til þess. Hins vegar féllumst við á það, þegar þessi stjórn var mynduð, að matarskatturinn héldi gildi sínu í eitt ár og peningarnir væru frekar notaðir til að greiða niður verð á nauðsynlegum matvælum``.``
    Hæstv. ráðherra. Ég spurði við 1. umr. hvað þetta þýddi. Er ráðherrann að boða það að matarskatturinn verði felldur niður eftir eitt ár eða er hann að boða tvö skattþrep í virðisaukaskattskerfinu?
    Hæstv. forseti. Ég óska eftir því að ráðherrann svari þessari spurningu. Ég tel að þjóðin eigi heimtingu á að vita það hvort fjmrh. meinar það sem hér segir, að matarskatturinn eigi aðeins að gilda í eitt ár. Þó að virðisaukaskattskerfið komist á seint og um síðir er matarskatturinn enn þá inni í því. Ég tel að

hann sé annaðhvort að boða niðurfellingu matarskattsins sem slíks eða tvö skattþrep í virðisaukaskattskerfinu með allverulega lægra skattþrepi fyrir þá matvöru sem þessi skattur féll á.
    Þá spurði ég einnig um fjölgun greiðenda með tilkomu frv. Því var skilmerkilega svarað að greiðendum mundi fjölga úr 50 í 300--350. Nú er stofninn hins vegar breikkaður allverulega og því spyr ég aftur: Hvað verða greiðendurnir margir í þetta sinn? Ég hygg að þeim hafi fjölgað allverulega við þetta. Í upphaflega frv. var um að ræða um 290 ný tollnúmer. Nú sýnist mér
þau sennilega vera komin langleiðina í 1000.
    Þá er rétt að það komi fram að hæsta gjald sem greitt er í tolli í dag er vörugjaldið með sykurskattinum. Um það bil 31,2% er hæsta gjald sem lagt er á í tolli og það heitir vörugjald. Þetta eru svik, fölsun eða plat, hvað sem á að kalla þetta, því þetta er hreinræktaður tollur og ekkert annað. Ég hygg að menn verði að fara varlega gagnvart Efnahagsbandalaginu og þeim fríverslunarsamningi sem við höfum skrifað undir. Ég hygg að hér séum við á þunnum ís.
    Þá sýnist mér stefnan í tollskránni vera orðin sú að ef menn nenna að flytja inn heilu tækin sem varahluti og dunda við að setja þau saman heima þá fái þeir þau töluvert mikið ódýrari fyrir bragðið.
    Hér er ég með í hendi mér það sem nefndin hafði úr að moða. Þetta eru brtt. sem nefndin vann úr. Hér var ákveðinn þingflokksformaður að gagnrýna vinnubrögð um daginn. Ég hefði gaman af því að heyra álit manna á slíkum vinnubrögðum. Af þessu áttum við að dæma vörugjaldsfrv. Ekki eitt einasta tollnúmer hér og forsendurnar hérna standast meira að segja ekki lengur á, 10% alls staðar. Ef svona vinnubrögð eru ekki nefndum og þinginu til skammar þá veit ég ekki hvað. (Gripið fram í.) Já, það má vel vera, en þetta eru akkúrat vinnubrögðin sem ég er að gagnrýna, hæstv. forsrh.
    Þá var harkalega gagnrýnt í nefndinni að innlenda framleiðslan fær strax á sig vörugjaldið en ekki innflutningurinn. Ég veit að hér er um erfitt mál að ræða en engu að síður teldi ég rétt að þetta yrði skoðað og þá sérstaklega með það fyrir augum að gefa frekari aðlögunartíma þannig að gildistíminn verði ekki nú þegar eins og gert er ráð fyrir. Innlenda framleiðslan þarf tvo til þrjá mánuði til að búa sig undir þessa auknu skattlagningu.
    Það kom m.a. fram í nefndinni að fyrir venjulegan húsbyggjanda þýðir þessi hækkun á vörugjaldi 200 þús. kr. á íbúð. Ég hygg að þetta samræmist ekki þeim ágæta málefnasamningi sem ríkisstjórnin stendur að.
    Þá er náttúrlega þetta með verðstöðvunina. Það er ein sorgarsaga út af fyrir sig. Hér gildir verðstöðvun fyrir alla nema ríkisstjórnina. Hér má ekkert hækka nema það sem ríkisstjórnin sjálf tekur upp. Í mínum huga er þessi verðlagning sem nú er verið að setja á vöruna algjört siðleysi, og þetta er ekkert annað en verðlagning því þetta fer beint út í verðlagið og

hækkar vöruna. Að ríkisstjórnin skuli þannig varða veginn í þessum efnum. Hún þverbrýtur allar þær reglur sem hún setur sjálfri sér. Hvernig ætlast hún til þess að þegnarnir hagi sér? Auðvitað er þetta bara hvati fyrir þá til að hækka vöruverð þegar á þarf að halda. Verslunin er að kikna undan aðgerðum ríkisstjórnarinnar með auknum skattaálögum. Auðvitað velta þeir þessu bara út í verðlagið. Það er einhvers staðar sagt að eftir höfðinu dansi limirnir. Nei, hér er aftur verið að ýta verslun út í hina títt nefndu Glasgow. Glasgow-verslun á eftir að aukast verulega, við eigum eftir að sjá það.
    Á síðasta ári voru tollar og vörugjöld lækkuð til að lina þjáningarnar sem fólkið varð fyrir af völdum matarskatts. Því er þessi aukna skattlagning ekkert annað en svik við neytendur, hrein og klár svik. Ég spurði líka ráðherrann, úr því ég sé hann þarna í dyrunum, af hverju væri ekki tekin upp hér fob-tollun, hver ástæðan er fyrir því að leggja tolla á flutningsgjöld, tryggingar, pökkun, innanlandsfrakt og annað úti í heimi. Ég minnist þess ekki að hafa fengið svar við því. Auðvitað er þetta ekkert annað en jólagjöf ríkisstjórnarinnar til þjóðarinnar. Það er bara verst að stjórnarandstaðan hefur tafið þetta mál á einhvern hátt, eftir því sem þeir segja, þannig að þeir ná ekki alveg að kreista hinn almenna mann eins og þeir hefðu helst viljað.
    Samkvæmt samningum við fríverslunarsamtökion, EFTA, eiga engir tollar að vera hér í gildi. Samkvæmt þeim samningum áttu þeir allir að vera úr gildi fallnir árið 1980. Ég tel að þann samning þurfi að endurskoða. Ég er ansi hræddur um að við séum víða að brjóta hann.
    Hæstv. forseti. Ég ætla kannski að fá að renna stuttlega yfir þær umsagnir sem komu til nefndarinnar. Árni Reynisson frá Félagi ísl. stórkaupmanna viðhafði þau orð, eins og ég hafði hérna rétt áðan, að það væru svik við neytendur í tengslum við matarskattinn sem lagður var á á síðasta þingi. Hann tók undir það að þetta mundi örva Glasgow-verslun og kaupmenn í Glasgow yrðu fjmrh. ævinlega þakklátir. Hann taldi þetta verðbólguhvetjandi og verðbólguvaldandi og er hægt að taka undir þetta allt.
    Vilhjálmur Egilsson hjá Verslunarráði tók mjög í sama streng. Hann gagnrýndi mjög að nú ætti að hækka byggingarvöru á sama tíma og rætt er um að hjálpa eigi húsbyggjendum. Hann kallaði þetta sérstakt átak til að koma landsbyggðarverslun fyrir kattarnef. Ég get ekki annað en tekið undir þessi orð enda hefur þetta átak birst víðar en bara í vörugjaldsfrv., það birtist t.d. í 100% hækkun skattlagningar á verslunar- og skrifstofuhúsnæði, eignarskatti og víðar. Auðvitað er þetta ekki annað en tæki til að viðhalda vitlausu gengi.
    Innlendir framleiðendur hafa mjög kvartað undan þessu frv. sem hér er lagt
fram og héldu m.a. stóran fund að ég hygg í Háskólabíói. Ég ætla að fá að lesa upp, með leyfi forseta, það sem Morgunblaðið hafði um þetta að segja föstudaginn 16. des. undir fyrirsögninni

,,Sérstöku vörugjaldi af gosi og sælgæti mótmælt`` og með undirfyrirsögninni ,,Beinist gegn nokkrum framleiðslufyrirtækjum og starfsfólki þeirra, sagði Kristinn Björnsson, forstjóri Nóa-Siríusar, á fundi starfsfólks fyrirtækjanna.``
    ,,Þessu sérstaka vörugjaldi sem nú er fyrirhugað að leggja á, og nemi 25%, er fyrst og fremst stefnt gegn nokkrum einstökum íslenskum framleiðslufyrirtækjum og starfsfólki sem vinnur í þeim. Þannig mælti Kristinn Björnsson, forstjóri Nóa-Siríusar, á sameiginlegum fundi starfsfólks og fyrirtækja í sælgætis-, drykkjarvöru- og kexiðnaði er haldinn var í Bíóborginni í gær. Um 600 starfsmenn fyrirtækjanna sóttu fundinn. Samþykkt var áskorun á alþingismenn um að þeir felli frv. um þetta sérstaka vörugjald. Kristinn sagði engin rök vera færð fyrir þessu vörugjaldi nema að sykurmagn í þessum vörum væri mikið og því væru þær óhollar. Hann spurði hvers vegna ekki ætti að leggja hann þá á allan sykur og allar sætar vörur, eins og kökur, brauð, jógúrt og kókómjólk.
    Guðmundur Þ Jónsson, formaður Iðju, var fundarstjóri. Í ávarpi í fundarbyrjun lýsti hann áhyggjum af atvinnuástandinu. Hann sagði að fyrr á árinu hefðu að jafnaði verið fimm til átta manns á atvinnuleysisskrá hjá Iðju. Það hefði verið fólk sem ekki var lengi í senn á skránni. Nú væru tugir manna á atvinnuleysisskrá og fleiri tugir sem ynnu á uppsagnarfresti.
    Kristinn Björnsson flutti framsögu og sagði stjórnmálamenn gera upp á milli atvinnugreina. Þannig er það óumdeilanlega fínast að vinna við landbúnað og sjávarútveg en mun síðra að vinna við iðnað, sagði Kristinn. Hann sagði engin rök vera færð fyrir því að leggja hið sérstaka vörugjald á en nefnt væri að vörurnar væru óhollar einkum vegna mikils sykurs í þeim. Hann nefndi aðrar framleiðslugreinar sem nota umtalsverðan sykur í vörur sínar. Ég nefni sem dæmi bakarí og bakaríisvörur. Mörg þessara bakaría eru í dag hinar glæsilegustu verksmiðjur og framleiða lostætar kökur og sælgæti. Takið eftir því, sælgæti. Enda auglýsa fyrirtækin það hispurslaust að þau bjóði til sölu sælgæti. Allt er þetta án vörugjalda. Mjólkurvörur ýmiss konar. Gera menn sér grein fyrir hvað mikið er af sykri í kókómjólk eða jógúrtdós? Ótrúlega mikill, allt án vörugjalda. Kannski eru sumar slíkar vörur niðurgreiddar, hver veit. Kristinn sagði að vörugjaldið muni hækka vöruverðið um 11--12% ef það verður lagt á og að þá verði íslensk framleiðsla ekki lengur samkeppnishæf við innfluttar vörur og það geti ekki þýtt annað en samdrátt í rekstri framleiðslufyrirtækja.
    Lýður Friðjónsson, framkvæmdastjóri Vífilfells hf., rakti í ræðu sinni fyrri samdráttartímabil í þessum framleiðslugreinum. Hann sagði þau hafa ýmist verið af utanaðkomandi orsökum, þ.e. af almennum samdrætti í þjóðfélaginu, eða vegna sérstakra gjalda á framleiðsluvörurnar. Hann nefndi dæmi frá 1981 þegar sérstakt vörugjald var lagt á þessar vörur. Þá hafði orðið mikill samdráttur og fjöldi fólks misst vinnu

sína af þeim sökum. Það eru sjö til átta hundruð manns sem eiga lífsafkomu sína undir þessum iðngreinum. Hann sagði ríkisvaldið nú þegar taka til sín á milli 30 og 40% af söluverði varanna og væri ekki á bætandi. Hann sagði að hækkun vörugjaldsins hefði einnig víðtækari áhrif, þar á meðal á almennt verðlag og vísitölur. T.d. mundi 2 millj. kr. húsnæðislán hækka um 30.000 kr. vegna þessa gjalds eins. Hann hvatti að lokum fundarmenn til að samþykkja kröftug mótmæli við fyrirhuguðu vörugjaldi.
    Í fundarlok var samþykkt áskorun til alþingismanna og kvenna frá starfsfólki þeirra 14 fyrirtækja sem hlut eiga að máli um að fella frv. um vörugjaldið. Þar segir m.a.: Samkvæmt A-hluta þessa frv. [og nú er vitnað til upphaflegs frv.] skal greiða 25% vörugjald af framleiðsluvörum ofangreindra fyrirtækja í stað 14% áður. Þetta frv. er sett fram án rökstuðnings. Þó virðist liggja ljóst fyrir að helsta von fjmrh. til að fá þennan hluta frv. samþykktan sé að það verði gert vegna hollustu- og manneldissjónarmiða. Fundurinn vísar þeim sjónarmiðum á bug og lýsir yfir furðu sinni á slíkri skinhelgi. Ofangreindar iðngreinar nota nú aðeins 25--30% af innfluttum sykri. Eru þá ótaldir fjölmargir vöruflokkar sem fluttir eru til landsins með miklu sykurinnihaldi án þess að vörugjald sé á þá lagt. Þá er minnt á að mismunun milli fyrirtækja felist í frv. og störfum sjö til átta manna sé stefnt í hættu. Ljóst er að verði frv. þetta að lögum er atvinnu þessa fólks stefnt í verulega hættu.``
    Herra forseti. Það þarf varla að hafa fleiri orð um þetta. Þessi varnaðarorð eiga fullan rétt á sér í þingsölum.
    Auðvitað er hér um verulega óréttlátan skatt að ræða sem kemur misjafnlega niður á hinum ýmsu atvinnugreinum eins og komið hefur verið inn á og marglýst. Á sama tíma og samdráttur er á flestum sviðum atvinnulífsins ætlar ríkisstjórnin að auka álögur á fyrirtæki í landinu. Allir eiga að herða sultarólarnar, svo notað sé víðfrægt orð, nema ríkisstjórnin sjálf. Laun verða fryst, verðstöðvun, skattar hækkaðir, allar álögur hækkaðar, allir eiga að draga saman nema ríkisvaldið sjálft.
    Hæstv. forseti. Ég ætla að fá að vitna til álitsgerðar sem Félag ísl.
stórkaupmanna sendi frá sér um þetta mál og undirrituð er af Árna Reynissyni. Hún er skrifuð í Reykjavík 13. des. 1988 og hjóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Félag ísl. stórkaupmanna hefur samkvæmt beiðni yðar [þ.e. formanns hv. fjh.- og viðskn. Nd., Páls Péturssonar] í bréfi dags. 7. des. tekið saman álitsgerð vegna frv. til laga um breytingu á lögum nr. 97/1987, um vörugjald, 162. mál, og eru fulltrúar félagsins reiðubúnir að koma á fund nefndarinnar til nánari viðræðna um eftirfarandi sjónarmið félagsins:
    Fyrir réttu ári síðan, haustið 1987, fór fram mikil og ítarleg umræða um skattkerfið íslenska, ekki síst skattheimtu ríkisins af vörum og þjónustu. Í því sambandi var rætt um nauðsyn þess að aðlaga nú

aðstæður íslenskra atvinnuvega þeim sem tíðkast í viðskipta- og samkeppnislöndum okkar með tilliti til aðildar Íslands að EFTA og samninga við Evrópubandalagið núverandi og væntanlegra. Aðlögun að hinum nýja Evrópumarkaði er eitt mesta stórmál sem nú er við að glíma í íslenskri efnahagspólitík og árangur á því sviði verður, að mati félagsins, að setja langt ofar tímabundnum erfiðleikum í greiðslustöðu ríkissjóðs Íslands.
    Til þess að ná framangreindum markmiðum náðist í fyrrahaust samstaða eða a.m.k. skilningur á því að eftirfarandi höfuðbreytingar væru óhjákvæmilegur liður í aðlögun og breyttum aðstæðum í Evrópu og víðar. Virðisaukaskattur verði tekinn upp í stað söluskatts. Innflutningstollar og vörugjöld hverfi sem helsti tekjustofn ríkisins en virðisaukaskattur taki við sem aðaltekjustofn þess af vörusölu og þjónustu og verði ásamt tekjusköttum annar burðarásinn í fjáröflun ríkisins. Í þessu sambandi voru samþykktar þrennar lagabreytingar:
     1. Samþykkt var að taka upp virðisaukaskatt þann 1. júlí 1989 og leggja niður söluskatt á sama tíma.
     2. Söluskattsstofn var breikkaður og er nú tekinn af allri almennri vöru og þjónustu.
     3. Samþykkt voru ný lög um tollskrá sem tóku gildi þann 1. jan. 1988 og voru þar felld niður aðflutningsgjöld á aðföng atvinnuvega og tollar á almennar vörur ýmist stórlækkaðir eða felldir burt.
     4. Vörugjald var að mestu afnumið og var um það rætt að leifar þess féllu endanlega burt við upptöku virðisaukaskatts, enda fellur skatturinn illa að framkvæmd virðisaukaskatts.
     5. Þá var lántökugjald lagt á til bráðabirgða en á að falla niður um þessi áramót samkvæmt gildandi lögum.
    Frekari skref í framhaldi af afnámi þessara skatta töldust eðlilega þau að smám saman verði afnumdir allir skattar sem mismuna atvinnugreinum þjóðarinnar innbyrðis og veikja samkeppnisstöðu þeirra út á við. Hér er m.a. átt við skatt á atvinnuhúsnæði, mishá aðstöðugjöld og launaskatt á nokkrar atvinnugreinar, þ.e. gjöld sem eru dæmd til að hverfa ef íslensk stjórnvöld sjá nauðsyn á að aðlaga sig hugmyndum Evrópubandalagsins um samskipti ríkis og atvinnulífs.
    Höfuðtilgangurinn með þeim skattkerfisbreytingum sem hófust á síðasta ári er samkvæmt framansögðu að styrkja og jafna samkeppnishæfni atvinnugreina við nýjar og breyttar aðstæður í milliríkjaviðskiptum. Það frv. til laga um vörugjald sem hér liggur fyrir og felur í sér nýja og stóraukna skattheimtu af vörum gengur hins vegar í þveröfuga átt. Óljóst er af frv. hvað ríkissjóður gerir ráð fyrir miklum tekjum af þessum skattstofni. Þó er ljóst að frv., ef að lögum verður, mun leiða til umtalsverðrar hækkunar á þýðingarmiklum vöruflokkum sem mjög getur orkað tvímælis á viðsjárverðum tímum eins og nú. Vísitala framfærslukostnaðar mun hækka svo og vísitala byggingarkostnaðar, þar með einnig lánskjaravísitala. Bein afleiðing er verðbólga sem mun m.a. torvelda mjög skynsamlega kjarasamninga á næsta ári. Vegna

almenns samdráttar í þjóðfélaginu og minnkandi kaupgetu almennings og atvinnuveganna má búast við að stórfelld hækkun á vöruverði, eins og hér er gert ráð fyrir, muni ekki leiða til tilætlaðrar tekjuaukningar heldur geti eftirspurn eftir hinum skattlögðu vörum minnkað eins og rýrar tekjur af vörugjaldi á þessu ári benda til.
    Samkeppnisstaða íslenskrar verslunar gagnvart erlendri skerðist enn við auknar álögur á svokallaðar ferðamannavörur. Þetta mun væntanlega lýsa sér í auknum innkaupaferðum til Glasgow og annarra ódýrra verslunarstaða í grannlöndum okkar þar sem álögur ríkisins eru hóflegar og virðisaukaskattur endurgreiddur við brottför. Á þessu ári hafa menn kynnst einföldun og skilvirkni í skattkerfum og ríkulegri hagræðingu sem af því leiðir. Með þremur skattstigum sem voru ráðgerð í vörugjaldsfrv. er snúið af þeirri leið og haldið inn í frumskóginn aftur. Telji einhver að hollustusjónarmið ráði ferðinni þegar fyrirhugaður er skattur á sælgæti, öl og gosdrykki, þá er það skoðun Félags ísl. stórkaupmanna að betur þurfi að vanda til slíkrar löggjafar en hér er gert. Vörugjaldið leggst aðeins á hluta sykurneyslunnar og hollustustefna í skattlagningu og verðlagningu þarf að sjálfsögðu að taka til fleiri vara en sykurs. Nægir að benda á að hollustuvörur eins og grænmeti eru hér seldar á margföldu því verði sem algengt er á erlendum mörkuðum vegna verndarstefnu sem haldið er uppi með viðskiptahömlum og réttnefndum
ójafnaðargjöldum.
    Skattabyltingin sem ríkisstjórn þriggja flokka hratt í framkvæmd á síðasta þingi var mikið framfaraspor. Félag ísl. stórkaupmanna skorar á Alþingi að hvika hvergi af áður markaðri braut, fella fyrirliggjandi frv. um vörugjald en ljúka þess í stað afnámi vörugjalds og skatta er mismuna atvinnugreinum fyrir upptöku virðisaukaskatts.``
    Hæstv. forseti. Á síðasta þingi er hæstv. þáv. fjmrh. Jón Baldvin Hannibalsson talaði fyrir þessum breytingum notaði hann gjarnan orðið ,,kjarkur`` við hvert tækifæri og taldi sig væntanlega mann að meiri. Mér datt í hug staka sem við þingmenn fengum í blaði sem fyllilega á rétt á sér hér inni á þingi og ber heitið Geðhjálp. Þar á bls. 17 er vísa sem vel getur átt við og er eftirfarandi:
     Við skulum ekki víla hót,
     það varla léttir trega.
     Það er þó alltaf búningsbót
     að bera sig karlmannlega.