Vörugjald
Miðvikudaginn 21. desember 1988

     Forseti (Kjartan Jóhannsson):
    Hv. 17. þm. Reykv. Geir H. Haarde gerði að umræðuefni hvort þinglega væri staðið að meðferð þess frv. um vörugjald sem hér er til umræðu þar eð því hefði verið breytt mjög mikið í fjh.- og viðskn. Í þessu sambandi vitnaði hann í ritið Stjórnskipun Íslands eftir Ólaf Jóhannesson varðandi það að ef um gerbreytingartilvik væri að ræða þyrfti þrjár umræður í deildinni um frv. Óskaði 17. þm. Reykv. úrskurðar forseta um málið.
    Fyrst skal bent á að skv. 24. gr. þingskapa segir:
    ,,Ef seinni deild breytir frumvarpi í stóru eða smáu frá því sem það var afgreitt í fyrri deild skal senda það til hinnar deildarinnar og fer það þá til einnar umræðu í þeirri deild.``
    Ég vek athygli á orðunum ,,í stóru eða smáu`` sem þó þýðir einungis einnar umræðu umfjöllun.
    Í annan stað hafa fyrirspurnir forseta leitt í ljós að mörg fordæmi eru fyrir mjög verulegum breytingum á frumvörpum, jafnvel í seinni deild, án þess að þær hafi verið taldar gerbreytingartilvik. Að þessu sögðu skal vitnað til bókar Ólafs Jóhannessonar, Stjórnskipun Íslands, um þetta efni. Þar segir:
    ,,Gerbreytingar á frumvarpi á síðari stigum meðferðar þess verður að telja óheimilar. Ef slík gerbreyting er leyfð verður hinum áskilda umræðufjölda ekki náð. Þessa hefur ekki ætíð verið gætt sem skyldi. Slíkum gerbreytingartillögum sýnist forseti eiga að vísa frá og ætíð verður að gæta þess að breytingartillögur, hversu lítilfjörlegar sem eru, séu samþykktar í báðum deildum eða sameinuðu þingi.``
    Forseti vekur athygli á því að lögð er áhersla á að breytingartillögur séu samþykktar í báðum deildum. Því mun verða fullnægt í þessu tilviki. Í annan stað er talað um ,,síðari stig meðferðar``. Um það mál, sem hér er til umfjöllunar, er það að segja að nú liggja fyrir deildinni breytingartillögur á fyrsta mögulega breytingarstigi frumvarpsins, þ.e. við 2. umr., og því getur ekki átt við að hér sé um ,,síðari stig meðferðar`` að ræða. Með tilvísun í þetta er úrskurður forseta sá að fullnægt sé skilyrðum um þinglega meðferð þessa frumvarps.