Vörugjald
Miðvikudaginn 21. desember 1988

     Geir H. Haarde:
    Herra forseti. Ég tel rétt að kveðja mér hljóðs út af þeirri fyrirspurn sem ég beindi til forseta hér í deildinni fyrir stundu. Eflaust má halda því fram að ég hefði átt að bera fram fyrirspurnina undir þingskapaforminu en ég vil nú eingöngu nota tækifærið og þakka forseta fyrir að hafa grennslast fyrir um þetta mál.
    Ég taldi annað óviðunandi í máli þessu en að grafist yrði fyrir um hvort hugsanlega væri verið að fara á svig við þingskapalögin eða ekki. Þar kunna að vera ákveðnar hættur varðandi fordæmi síðar meir. Forseti upplýsir hins vegar að fordæmi þessa efnis séu þegar fengin og það mörg. Ég ætla ekki að gera neinn ágreining við hans úrskurð í þessu tilviki en ég vil undirstrika það sem hann las upp úr Stjórnskipan Íslands, og ég sömuleiðis, um að eflaust hafi þessum ákvæðum þingskapalaga ekki verið fylgt nægilega vel eftir og eflaust má það vera þingdeildarmönnum öllum til eftirbreytni framvegis.
    Ég vil sem sagt eingöngu þakka forseta fyrir að verða við þessari bón minni og kanna þetta mál og úrskurði hans mun ég að sjálfsögðu hlíta.