Tekjuskattur og eignarskattur
Miðvikudaginn 21. desember 1988

     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Páll Pétursson):
    Herra forseti. Á þskj. 321 liggur fyrir álit meiri hl. fjh.- og viðskn. Nefndin hefur fjallað um frv. Kvaddi hún á sinn fund Björn Arnórsson og Ögmund Jónasson frá BSRB, Þórarin Þórarinsson frá VSÍ, Harald Skúlason og Lilju Mósesdóttur frá ASÍ, Birgi Björn Sigurjónsson og Pál Halldórsson frá BHMR, Garðar Valdimarsson ríkisskattstjóra, Snorra Olsen, Bolla Bollason og Maríönnu Jónasdóttur frá fjmrn., Gunnar Helga Hálfdanarson og Óttar Örn Petersen frá Samtökum sparifjáreigenda, Kristínu Höllu Jónsdóttur frá Húseigendafélagi Reykjavíkur, Víglund Þorsteinsson, Lýð Friðjónsson og Bjarna Þór Jónsson frá Félagi ísl. iðnrekenda og Hólmgeir Jónsson, hagfræðing Sjómannasambandsins.
    Meiri hl. leggur til að frv. verði samþykkt með breytingum sem fluttar eru á þskj. 322. Helstu breytingarnar eru þessar:
    Ákvæði 31. gr. skattalaga varðandi frádráttarbærni gjafa til menningarmála o.fl. haldast óbreytt. Í öðru lagi að heimilt sé fyrirtæki að yfirtaka annað, enda sé það í skyldum rekstri ellegar fyrirtækið haldi áfram rekstrinum. Í þriðja lagi hækkar skatthlutfall á árinu 1989 samkvæmt bráðabirgðaákvæði um 2,3% frá gildandi lögum. Persónuafsláttur hækkar í 214.104 kr. og það er í samræmi við gildandi lög. Barnabætur hækka til samræmis við gildandi lög og barnabótaauki jafnframt. Eignarskattur af eign einstaklings sem er umfram 7 millj. verður 2,7%. Eignarskatturinn reiknast þá þannig að af fyrstu 2,5 millj. af eignarskattsstofni greiðist enginn skattur, af eignarskattsstofni yfir 2,5 millj. greiðist 1,2%, af eignarskattsstofni yfir 7 millj. greiðist að auki 1,5%.
    Að þessu áliti meiri hlutans standa Ragnar Arnalds, Árni Gunnarsson, Guðmundur G. Þórarinsson og Páll Pétursson.