Tekjuskattur og eignarskattur
Miðvikudaginn 21. desember 1988

     Frsm. 2. minni hl. fjh.- og viðskn. (Kristín Halldórsdóttir):
    Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, á þskj. 340 frá 2. minni hl. fjh.- og viðskn. Það hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Fyrir ári gengu í gildi róttækar breytingar á skattalögunum sem m.a. voru undirbúnar af milliþinganefnd skipaðri fulltrúum allra þingflokka og aðila vinnumarkaðarins. Frv. sem hér er til afgreiðslu felur í sér margvíslegar breytingar á þeim lögum sem þurfa miklu nánari athugunar við en ráðrúm leyfir.
    Í frv. er m.a. lagt til að hætta að miða framreikning persónuafsláttar og barnabóta við lánskjaravísitölu eins og lögin kveða á um, en taka þess í stað upp skattvísitölu sem breytist árlega. Með því er horfið frá því markmiði að tengja skattbyrði einstaklinganna við verðlagsþróun, en samkvæmt núgildandi lögum minnkar skattbyrðin hlutfallslega ef samdráttur er í launum. Auk þess er í frv. lögð til hækkun á tekjuskattshlutfalli einstaklinga sem þýðir hærri álögur en ella yrði á fólk með meðaltekjur og lægri.`` --- Nú vildi ég leyfa mér, herra forseti, að koma með örstutt innskot því að þetta er e.t.v. svolítið klúðurslega orðað og verður að skrifast á þann asa og tímaskort sem ríkir í þingstörfum. Hér er vitaskuld í þessari setningu átt við að þessi hækkun sem lögð er til á tekjuskattshlutfalli einstaklinga þýðir hærri álögur á fólk með meðaltekjur og lægri tekjur en ella hefði orðið, þ.e. að óbreyttum lögum. --- ,,Þessar breytingar getur 2. minni hl. ekki sætt sig við og flytur brtt. á þskj. 337 sem fela það í sér að núgildandi lög verði óbreytt hvað varðar framreikning persónuafsláttar og barnabóta og að skatthlutfall verði ekki hækkað.`` --- Hér vildi ég nú leyfa mér að koma með annað innskot því að það eru fleiri skatttengdir liðir en persónuafsláttur og barnabætur, svo sem eins og sjómannaafslátturinn og húsnæðisbæturnar. Held ég þá áfram lestri úr nefndarálitinu.
    ,,Annar minni hl. minnir á að við skattalagabreytingarnar fyrir ári lagði Kvennalistinn til að háar tekjur yrðu skattlagðar sérstaklega, bæði í tekjuskatti og útsvari. Ekki eru gerðar tillögur um það nú, en Kvennalistinn er þó enn sömu skoðunar og mun vinna áfram að því máli.
    Annar minni hl. er einnig þeirrar skoðunar að skattleggja beri eignir umfram hófleg mörk, svo sem ætlunin er skv. 19. gr. frv., en telur að sú tillaga sé ekki grundvölluð á nægilega miklum athugunum. Viðmiðunarmörkin voru þó hækkuð í meðförum nefndarinnar og telur 2. minni hl. það til bóta.
    Að tillögunum á þskj. 337 samþykktum mun 2. minni hl. sitja hjá við afgreiðslu málsins í heild, en greiða atkvæði gegn því ella. Ástæða þess er sú að 2. minni hl. er samþykkur í meginatriðum ýmsum þeim breytingum sem lagðar eru til á reglum varðandi skattlagningu fyrirtækja, en telur að þær hafi ekki fengið nægilega umfjöllun frekar en margt annað sem keyrt er gegnum þingið þessa dagana.`` Þetta nál. er

undirritað 21. des. 1988 af Kristínu Halldórsdóttur.
    Breytingartillögurnar á þskj. 337 sem ég flyt ásamt hv. þingkonum Þórhildi Þorleifsdóttur, Málmfríði Sigurðardóttur og Kristínu Einarsdóttur eru einfaldar og auðskiljanlegar þeim sem hafa kynnt sér frv. Í 1. brtt. er lagt til að 10. gr. frv., sem kveður á um hækkun skatthlutfalls, verði felld niður, þ.e. að skattprósentan verði eftir sem áður 28,5%, og þarf varla að skýra það frekar.
    Í 2. brtt. á þskj. 337 er lagt til að a-liður 11. gr. falli brott. Samkvæmt þessum lið er ætlun stjórnvalda að breyta viðmiðun persónuafsláttar við lánskjaravísitölu og ákveða hann frá ári til árs. En eins og segir í nál. á þskj. 340 er með því hafnað því hagræði fyrir skattgreiðendur að skattbyrði þeirra minnki hlutfallslega þegar samdráttur er í launum.
    Í 3. og 4. brtt. er um sams konar tillögur að ræða, þ.e. til samræmis við þá skoðun okkar að framreiknun persónuafsláttar, barnabóta, húsnæðisbóta og sjómannaafsláttar skuli miða við lánskjaravísitölu eins og núgildandi lög kveða á um.
    5. brtt. þarf ekki að skýra frekar, hún er aðeins til samræmis við hinar fyrri.
    Ég vil svo ítreka þá skoðun okkar kvennalistakvenna að háar tekjur beri að skattleggja aukalega. Þá erum við ekki að tala um neinar meðaltekjur, eins og hv. þm. Alþb. vildu skattleggja sem hátekjur við afgreiðslu skattalaganna fyrir ári. Við lögðum þá til 33% tekjuskatt á tekjuskattsstofn yfir 2,5 millj. kr. á ári og að þær skatttekjur skiluðu sér í hækkun persónuafsláttar. Sú upphæð, sem mig minnir að næmi þá um 300 millj. kr., svo og annað eins sem hefði fengist við aukalega hækkun á útsvarinu hefði að vísu ekki skilað nema 5000 kr. hækkun á persónuafslætti á ári en það munar sannarlega um það.
    Þá vil ég taka undir margt sem kemur fram nefndaráliti 1. minni hl. sem er að mínu mati mjög upplýsandi um þetta mál. Þar er mjög rækilega flett ofan af tilraunum, vil ég segja, frumvarpshöfunda til að slá ryki í augu manna við kynningu á þessum frumvarpstillögum. Á ég þar fyrst og fremst við það sem viðkemur breyttri viðmiðun við útreikning á persónuafslætti og öðrum tekjuskattstengdum liðum.