Tekjuskattur og eignarskattur
Miðvikudaginn 21. desember 1988

     Forseti (Kjartan Jóhannsson):
    Forseti vill taka það fram að við 19. gr. er, auk brtt. meiri hl. fjh.- og viðskn., einnig brtt. á þskj. 341 frá hv. þm. Hreggviði Jónssyni og Albert Guðmundssyni. Þó að í tillögu meiri hl. fjh.- og viðskn. sé kveðið á um endanlegt orðalag greinarinnar lítur forseti svo á að tillaga hv. þm. Hreggviðs Jónssonar og Alberts Guðmundssonar sé viðaukatillaga og geti staðist sem efnislega sjálfstæð viðbót við greinina og mun því bera hana upp á eftir tillögu meiri hl. nefndarinnar. ( RH: Forseti. Slík tillaga er, held ég, samkvæmt venjulegum skilningi þingsins brtt.) Tillagan er borin fram sem brtt., en það sem forseti er að segja er að þó að orðalag sé þannig hjá meiri hl. fjh.- og viðskn. að greinin skuli orðast með tilteknum hætti telur forseti rétt að engu að síður teljist greinin ekki endanlega ákveðin þótt sú tillaga hafi verið samþykkt heldur verði á eftir borin upp til atkvæða tillaga frá hv. þm. Hreggviði Jónssyni og Albert Guðmundssyni vegna þess að forseti telur að meginreglan sé sú að vilji þingsins geti fengið að koma í ljós, m.a. um þessa tillögu. Tillaga Hreggviðs Jónssonar og Alberts Guðmundssonar er hrein viðaukatillaga og getur staðist efnislega sem viðbót við greinina eins og hv. þm. geta gengið úr skugga um og skiptir engu um það orðalag sem lagt er til af meiri hl. fjh.- og viðskn. ( RH: Forseti. Er eitthvað í þingsköpum sem heitir viðaukatillaga? Eru ekki bara nefndar brtt.? Ef það er breyting á frumvarpsgrein, þá er það brtt. Þetta er þó kannski ekki stórt atriði.) Ég skal taka nafngiftina til baka ef það skiptir máli. Meginatriðið í huga forseta er að vilji þingsins geti fengið að koma fram um þessa tillögu. ( RA: Ef báðar tillögurnar eru samþykktar er skatturinn lagður tvisvar á.) Eins og kemur fram í brtt. er hér um ,,þrátt fyrir"-ákvæði að ræða sem vísar til fyrri mgr. Þess vegna telur forseti að brtt. geti staðist sem sjálfstæð viðbót og telur rétt að brtt. geti komið til atkvæða þó að tillaga meiri hl. hafi verið samþykkt.