Tekjuskattur og eignarskattur
Miðvikudaginn 21. desember 1988

     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Með samþykkt hækkunar eignarskatta er gengið í berhögg við allt velsæmi og langt út fyrir eðlileg mörk í skattaáþján almennra borgara. Þetta bitnar harðast á einstaklingum sem búa í eigin íbúðarhúsnæði. Þeir hafa lagt í það metnað sinn að spara, fara vel með þau laun sem þeir hafa unnið til og greitt fulla skatta, bæði af launum vinnu sinnar og byggingarefni því sem í þessi hús hefur farið. Hér er verið að hegna þeim sem hafa sýnt ráðdeild, hafa borgað skuldir sínar með skilum og eiga nú skuldlitlar eða skuldlausar eignir. Þessi skattur hefur af sumum verið kallaður ekknaskattur vegna þess að hann leggst afar þungt á einstaklinga. Af eign sem hjón greiða 108 þús. kr. af greiðir einstaklingur 231 þús. kr. og var á síðasta ári 72 þús. kr. eða hækkar um rúm 320%. Mismunurinn á því sem einstaklingur greiðir og því sem hjón greiða er 123 þús. kr. í ár. Ofan á þetta verður ein fyrirvinna að greiða miklu hærri skatta af launum. Þetta er ósvífni. Þá er einnig ráðist á íbúa hér í Reykjavík og á Reykjanesi á lúalegan hátt. Sama stærð af eign er nánast skattlaus víða úti á landi. Launatekjur hér á Reykjanesi og í Reykjavík eru þó þær sömu. Þetta er eignaupptaka og árás á borgarastétt í landinu. Ég segi nei.