Vörugjald
Miðvikudaginn 21. desember 1988

     Geir H. Haarde:
    Herra forseti. Hér hafa orðið þó nokkur tíðindi á þessum þingfundi í kvöld. Það hefur komið í ljós að ríkisstjórnin er öflugri hér í deildinni en áður var talið og að einn af þingmönnum Borgfl. hefur veitt brautargengi einhverjum mestu skattahækkunarfrv. sem um getur í landinu í seinni tíð. Það frv. sem nú er komið til 3. umr. um vörugjald vekur sérstaka athygli í þessu sambandi þar sem fyrir liggja eindregin mótmæli allra þeirra verkalýðsfélaga sem þessu máli tengjast, allra þeirra hagsmunasamtaka sem málinu tengjast og yfirleitt allra aðila sem hafa tjáð sig við hv. fjh.- og viðskn.
    Það hlýtur því að vekja sérstaka undrun að einn hv. þm. Borgfl. skuli styðja mál sem hagsmunasamtök launþega og atvinnurekenda í íslenskum framleiðslugreinum hafa mótmælt svo harðlega. Ég tel að allir þeir aðilar sem hafa tjáð sig við hv. fjh.- og viðskn. hafi vit á þeim málum sem hér er verið að fjalla um, það þurfi ekkert að fara í grafgötur með það eða gefa í skyn að nefndin hafi kallað til aðila sem ekki vissu hvað þeir voru að tala um.
    Ég hlýt að lýsa mikilli undrun á þessari niðurstöðu, en þó fyrst og fremst miklum vonbrigðum með að svo skuli hafa farið bæði í þessu máli og að því er varðar tekjuskatt og eignarskatt.
    Það liggur alveg fyrir að frv. um vörugjald er mjög íþyngjandi fyrir íslenska iðnstarfsemi og mun gera samkeppnisstöðu íslenskrar framleiðslu verri en áður var gagnvart innfluttum vörum. Þá koma menn að vísu og segja: Já, en vörugjaldið leggst á bæði innflutning og innlendar vörur. Og það er að vísu alveg rétt að báðir vöruflokkarnir munu hækka hlutfallslega jafnmikið. Ef um er að ræða innflutning og innlenda vöru þá hækkar hvort tveggja um sömu prósentu í kjölfar vörugjaldsins. En þar sem um er að ræða lægra vöruverð hinum erlenda framleiðanda í hag eykst auðvitað það krónubil sem er á verði hinnar innfluttu vöru miðað við þá innlendu. Þess vegna er alveg ljóst að hér er verið að gera breytingar á sköttum og gjöldum sem bitna illilega á íslenskum atvinnuvegum og það í ástandi þegar samdráttar gætir af öðrum orsökum, það í ástandi þegar fyrir liggur að uppsagnir eru miklar, minni vinna en verið hefur og blikur á lofti um atvinnu fjölda fólks.
    Á einhverju stigi umræðna um þetta mál var því haldið fram að vörugjaldið ætti að verða eins konar fjárfestingarskattur, það ætti að leggjast á byggingarstarfsemi og ýmsa þenslu í okkar hagkerfi. Nú held ég hins vegar að öllum sé ljóst að þessi margumtalaða þensla er liðin tíð og gjald sem þetta vörugjald mun gera illt verra, mun gera öldudalinn í efnahagslífinu krappari að því er varðar þá hagsmunaaðila sem hér eiga hlut að máli.
    Það er ekki aðeins svo, herra forseti, að það sé verið að koma við hagsmuni iðnfyrirtækja og iðnverkafólks með þessu frv. Það hafa líka verið sérstaklega valdir út aðrir aðilar og þá á ég við húsbyggjendur í landinu sem með vörugjaldi á byggingarefni munu þurfa að greiða mun hærri

kostnað vegna húsbygginga sinna. Þetta eru kveðjurnar sem ríkisstjórnin, með félags- og húsnæðismálaráðherra í broddi fylkingar, sendir húsbyggjendum um þessar mundir. Þetta eru kveðjur í samræmi við það sem var á döfinni í deildinni fyrr í dag þegar stjórnarliðið felldi tillögu um að hækka framlag til þeirra sem eiga í sérstökum greiðsluerfiðleikum og þurfa á fyrirgreiðslu að halda hjá Húsnæðisstofnun ríkisins af þeim sökum.
    Ég verð að segja að fyrir þann fjölda fólks sem hefur bundið trúss sitt við vinstri flokkana í landinu og félagshyggjustefnu þeirra hljóta þetta að vera kaldar kveðjur. Ég hygg að húsbyggjendum, iðnverkafólki, iðnrekendum og yfirleitt atvinnulífinu á Íslandi í heild muni þykja þetta kaldar kveðjur. Þessar jólakveðjur Alþb. koma hins vegar ekki þeim á óvart sem eitthvað þekkja til stefnu þess flokks. En ég hygg að Alþfl. og hugsanlega Framsfl. hafi verið búnir að tala sig svo mikið inn á gafl hjá fólki að jólakort í þessu formi muni koma nokkuð á óvart hjá almenningi í landinu þegar fólk gerir sér grein fyrir því hvað hér er á ferðinni.
    Herra forseti. Það er ekki ýkja mikið tilefni til að efna til langra viðbótarumræðna um þetta tiltekna mál við 3. umr. Það liggur fyrir að huldumaðurinn --- eða huldukonan --- er komin í ljós. Ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar hefur nú allt í einu 22 atkvæði í hv. Nd. og þar með nægilegt fylgi til að koma í gegn einhverri mestu skattpíningu sem um getur á einu bretti í þingsögunni, a.m.k. á síðari árum. Það var, eins og hæstv. forseti deildarinnar sagði í dag, býsna forvitnilegt að fá úr þessu skorið. Hann notaði að vísu það orð um annað fyrirbæri sem upp kom í umræðum í deildinni í dag, en það orð á jafn vel við um að það er ekki síður forvitnilegt að fá úr því skorið hverjir eru hinir raunverulegu stuðningsmenn þessarar ríkisstjórnar og hverjir ekki. Nú er komið í ljós að það er meiri hluti hér í deildinni og væntanlega einnig í Ed. fyrir þeirri skattpíningu sem stjórnin boðar og stjórnin fylgir óháð því á hverjum hún lendir.
    Því var haldið fram í þingbyrjun og í fjárlagafrv. að skattarnir sem stjórnin boðaði ættu að lenda sérstaklega á hátekjufólki og þeim sem hefðu fleytt rjómann ofan af góðærinu eins og það var kallað. Síðan hefur komið allt
annað í ljós. Það eru neytendur í landinu, það er iðnverkafólkið í landinu, það eru lágtekjumenn, einstæðir foreldrar, hjón með mörg börn og aðrir slíkir svokallaðir forréttindahópar sem að mati ríkisstjórnarinnar hafa fleytt rjómann ofan af góðærinu og eiga nú að gjalda fyrir það svo um munar. Og fólkinu sem hefur komið sér upp íbúðum, hugsanlega myndarlegum íbúðum, í langri sambúð og langri starfsævi, býr nú eitt í sínum íbúðum oft og tíðum, hefur kannski með ráðdeild og sparsemi á löngum tíma komið sér upp einhverjum sjóði, hvort sem það er í formi íbúðar eða með öðrum hætti, á nú að refsa harðlega fyrir ráðdeildarsemina og sparsemina, fyrir það eitt að hafa ekki eytt peningunum eins og aðrir um leið og þeirra var aflað. Þetta er stefnan sem orðin

er ofan á hér í þinginu, herra forseti. Það er ágætt að fá á hreint hverjir fylgja slíkri stefnu. Úr því að það er komið í ljós er nokkuð ljóst að stjórnin sem var minnihlutastjórn í Nd. er orðin að meirihlutastjórn og hún á auðvitað ákveðinn rétt á því að koma málum sínum fram fyrst þannig er í pottinn búið.
    Ég sé þess vegna ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri. Við höfum varað mjög eindregið við þessu máli, við sjálfstæðismenn og aðrir stjórnarandstæðingar, og það mun koma í ljós að hér er á ferðinni aðgerð sem mun hafa háskalegar afleiðingar í för með sér, aðgerð sem mun hugsanlega stefna atvinnu fjölda manna í hættu, aðgerð sem engir góðviljaðir stjórnmálamenn geta verið þekktir fyrir að leggja nafn sitt við.