Vörugjald
Miðvikudaginn 21. desember 1988

     Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Ingi Björn Albertsson):
    Hæstv. forseti. Ég ætla að gera fjórðu tilraun til að spyrja hæstv. ráðherra einnar spurningar. Hún er byggð á blaðagrein og blaðaviðtali sem átt var við hæstv. ráðherra undir þeirri makalausu fyrirsögn ,,Hækkun vörugjalds snertir ekki daglegar nauðsynjar launafólks``. Þar segir ráðherra m.a.: ,,Við stefndum að því einnig að lækka verð á nauðsynlegum matvælum og nota frekar tekjuöflunina til þess.`` Það er verið að tala þarna um matarskattinn. ,,Hins vegar féllumst við á það, þegar þessi stjórn var mynduð, að matarskatturinn héldi gildi sínu í eitt ár og peningarnir væru frekar notaðir til að greiða niður verð á nauðsynlegum matvælum.``
    Ég ætla ekki að lesa meira þó að ég hafi gert það við fyrri spurningu. Spurning mín til ráðherrans var sú: Má treysta þessum orðum? Verður matarskatturinn felldur niður eftir eitt ár? Reyndar segir ráðherrann berum orðum að hann eigi aðeins að halda gildi sínu í eitt ár. Ég bið ráðherrann vinsamlegast að koma hér í ræðustól og staðfesta það fyrir þjóðinni að eftir eitt ár verði matarskattur úr gildi fallinn.
    Hæstv. forseti. Auðvitað voru allmargar aðrar spurningar sem ég lagði hér fyrir og ég harma að hæstv. ráðherra sá enga ástæðu til að koma í ræðustól og svara einni einustu spurningu hvorki frá mér né öðrum ræðumönnum hér í dag. Ég verð bara að túlka það sem táknrænt dæmi um þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið í sambandi við þetta ákveðna frv.
    Ég spurði m.a. um fob-tollun, hvort ráðherra hefði íhugað hana eða hvort hann væri jafnvel að íhuga hana og af hverju hún væri ekki í raun tekin upp. Hvers vegna ættum við að greiða tolla af hlutum eins og pökkun, frakt, tryggingu, kostnaði o.s.frv.?
    Ég spurði ráðherra einnig um ósamræmi og benti honum á í tvígang ákveðið ósamræmi í vörugjaldsfrv. Ég hygg að hv. þm. Kristín Halldórsdóttir hafi bent á ákveðin númer sem hreinlega eru ekki til í tollskránni. Dæmin um vinnubrögðin og hversu hroðvirknisleg þau virðast vera eru æpandi. Ég spurði um fjölgun greiðenda. Þeir voru sagðir fara upp í rúmlega 300 við fyrsta frv. sem hér var lagt fram. Nú hefur stofninn verið breikkaður um fleiri hundruð númer þannig að væntanlega hefur greiðendum fjölgað allverulega.
    Ég ætla ekki að tína upp fleiri spurningar, en ég get svo sem notað mér þann möguleika sem ég hef á seinni ræðu ef ekki koma svör við þeim örfáu spurningum sem ég hef hér borið fram.
    Hins vegar vil ég aðeins taka undir það að einhverju leyti sem hv. þm. Geir H. Haarde kom inn á áðan þó að ég taki ekki undir allt sem hann sagði. Ég verð, því miður, að harma þá afstöðu sem ákveðinn þingmaður Borgfl. hefur tekið í dag. Ég segi því miður vegna þess að á þeim tímum sem nú eru í hönd farnir hafa skattar verið stórauknir, hafa laun verið fryst, hefur jafnvel lækkun launa verið boðuð, samningsréttur afnuminn, það þarf að setja upp sérstakan sjóð til að aðstoða nauðstödd heimili og það

er samdráttur í atvinnulífinu. Það er boðað aukið atvinnuleysi, það verður stórskertur kaupmáttur og það verður hækkað vöruverð.
    Ég segi enn á ný: Því miður finnst mér slæmt að nokkur þingmaður Borgfl. skuli styðja slíkt frv.