Vörugjald
Miðvikudaginn 21. desember 1988

     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Það kom fram við atkvæðagreiðslu í lok 2. umr. um þetta mál að hæstv. ríkisstjórn hefur borist liðsauki sem tryggði framgang málsins hér í hv. deild með þeim rökum að nú væri kominn tími til að snúast gegn, eins og það var kallað, ,,nýfrjálshyggju`` og ég geri ráð fyrir að ganga í lið með félagshyggjunni. En í hverju er nú félagshyggjan í þessari skattheimtu fólgin? Hún er m.a. fólgin í því að lækka álögur á innfluttan varning. Nú ætla ég ekki út af fyrir sig að gagnrýna ríkisstjórnina fyrir það ef hún telur sig hafa efni á því við þær aðstæður sem ríkissjóður býr núna og ef hún telur það almennt vera rétta hagstjórn við þessar aðstæður, þegar viðskiptahalli er mikill, að lækka tolla á tilteknum innfluttum vörum. En á móti er félagshyggjan svo fólgin í því að hækka gríðarlega skattheimtu sem bitnar á íslenskum iðnaði, verksmiðjuiðnaði og byggingariðnaði, og sem bitnar með mestum þunga á unga fólkinu í landinu. Þetta er félagshyggjan á bak við þetta frv.
    En ég kom hér fyrst og fremst upp til að ítreka þá spurningu sem hv. 5. þm. Vesturl. bar hér fram. Hæstv. fjmrh. hefur verið allra ráðherra duglegastur við að gefa út stórar yfirlýsingar í fjölmiðlum. Það hefur hins vegar komið á daginn að engar þeirra yfirlýsinga hafa staðist. Ýmist hafa þær hrunið vegna þess að hæstv. ráðherra hefur ekki komið áformum sínum fram eða að þær hafa verið vísvitandi blekkingar. Allar þessar yfirlýsingar hafa verið rangar.
    Hv. 5. þm. Vesturl. vitnaði í eina blaðayfirlýsingu hæstv. fjmrh. um að matarskatturinn ætti aðeins að standa í eitt ár, en hæstv. ráðherra fæst með engu móti til að staðfesta þá yfirlýsingu á hinu háa Alþingi og er það í samræmi við allt annað. Allar aðrar yfirlýsingar hans utan Alþingis hafa ýmist ekki staðist, hrunið vegna þess að hann hefur ekki komið áformum sínum fram, eða verið vísvitandi blekkingar og ósannindi. Þess vegna er mjög nauðsynlegt að knýja á um að hæstv. ráðherra svari þessari fyrirspurn frá hv. 5. þm. Vesturl.
    Þegar þessi mál voru til umræðu á Alþingi fyrir ári og hæstv. núv. utanrrh. var fjmrh. komst hann svo að orði í ræðu 10. des., með leyfi forseta, um söluskattsfrv., um tolla- og vörugjaldsfrv. sem þá voru til meðferðar: ,,Þar sem þessi þrjú frv. eru að mörgu leyti efnislega ósundurslítanleg og nátengd hef ég í hyggju að ræða þau hér öll að svo miklu leyti sem umræðuefnið er eitt og vænti þess að þingmenn geti fjallað um þau öll í senn hér á eftir að svo miklu leyti sem það er efnislega óaðskiljanlegt.``
    Og síðar í sömu umræðu segir núv. hæstv. utanrrh., með leyfi forseta:
    ,,Þær breytingar á söluskatti sem felast í þessum frv. eru sem fyrr segir nátengdar umfangsmiklum breytingum á lögum um tollskrá og vörugjald. Jafnhliða samræmingu söluskatts og víkkun skattstofns verða tollar lækkaðir og sex mismunandi vöru- og aðflutningsgjöld lögð niður. Í stað þeirra verður tekið upp eitt vörugjald, 14%, sem leggst á nokkra skýrt

afmarkaða vöruflokka.``
    Síðan segir hæstv. utanrrh.: ,,Um innbyrðis tengsl þessara aðgerða, breytinga á tollkerfi, vörugjaldskerfi og söluskattskerfi, er fjallað í þeim frv. þremur sem hér eru á dagskrá. Þessi endurskoðun og einföldun á tolla- og vörugjaldskerfinu tengist enn fremur þeim breytingum sem verða á söluskattskerfinu um næstu áramót.``
    Með öðrum orðum, svo skýrt tók hæstv. núv. utanrrh. fram að þessar lagabreytingar, sem þá var verið að gera, væru ósundurslítanlegar og óaðskiljanlegar að það er auðvitað ekki hægt að ljúka þessari umræðu án þess að skýr svör fáist um þetta efni. Ég geri ekki ráð fyrir því að hæstv. viðskrh., sem leitt hefur kollsteypu Alþfl. í þessum efnum, geti svarað einu einasta orði um þetta fremur en annað sem til hans hefur verið beint. En það er skýlaus krafa þingsins að hæstv. fjmrh. svari þessari spurningu.
    Hér voru gerðar umfangsmiklar skattkerfisbreytingar. Álagning söluskatts á matvæli var órjúfanlega tengd því að tollar og vörugjöld væru lækkuð og einfölduð. Það er ekki unnt öðruvísi en það komi í bakið á fólki í landinu að hækka núna vörugjöldin. Það eru hrein svik við það sem áður var gert. Alþfl. fer auðvitað létt með það, en hæstv. fjmrh. verður að svara þessari spurningu vegna þess að hann hefur utan þings gefið til kynna að þetta eigi að vera bráðabirgðaástand. Ég ítreka spurningu hv. 5. þm. Vesturl. Getur hæstv. ráðherra svarað því skýrt og skorinort hér eða er sú yfirlýsing sem hv. 5. þm. Vesturl. vitnaði í enn eitt dæmið um að það er ekkert að marka það sem hæstv. ráðherra segir?