Tekjuskattur og eignarskattur
Miðvikudaginn 21. desember 1988

     Frsm. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. (Geir H. Haarde):
    Herra forseti. Það er í sjálfu sér ástæðulaust að hafa mörg orð um þetta mál til viðbótar öllu því sem sagt hefur verið um þetta frv. til l. um tekjuskatt og eignarskatt. Ég rakti það í ítarlegu máli hér fyrr í kvöld hvaða meginástæður lægju að baki andstöðu okkar sjálfstæðismanna við þetta frv. Þetta mál er þríþætt. Það fjallar um að stórauka álögur, tekjuskattsálögur á allan almenning, það fjallar um að stórauka skattgreiðslur fyrirtækja og það fjallar um að stórhækka eignarskatta hjá einstaklingum. Allt þetta gerir það að verkum að þetta frv. er hið versta plagg að mínum dómi.
    Ég tel mig hafa sýnt fram á að fjmrh. leyfði sér að beita mjög grófum blekkingum við kynningu þessa máls. Því hefur ekki verið andmælt. Fjmrh. sá ekki ástæðu til þess, þó svo að ég hvetti hann til þess, að svara þeim ásökunum um vinnubrögð sem ég hef haft uppi í þessu máli. Ég lít því svo á að fjmrh. viti upp á sig þau vinnubrögð sem hann er sakaður um í því nál. sem 1. minni hl. fjh.- og viðskn. hefur sett fram um mál þetta. Þar segir m.a. þegar verið er að fjalla um tekjuskatta einstaklinga og áhrif frv. á skatta þeirra á næsta ári miðað við gildandi lög, með leyfi forseta:
    ,,Hér er um að ræða slíka fölsun að undirritaðir nefndarmenn þekkja ekki dæmi slíks. Forsendum núverandi kerfis er breytt í grundvallaratriðum áður en það er borið saman við afleiðingar frumvarpsins og án þess að það sé útskýrt. Gengið hefur verið úr skugga um að hér er ekki um mistök að ræða í framsetningu heldur vísvitandi fölsun. Slíkt siðleysi í vinnubrögðum og málflutningi er bæði til vitnis um spillt hugarfar í stjórnmálum og ömurlegan málstað í því máli sem um ræðir.``
    Ég endurtek þessi ummæli nú við 3. umr. ef vera kynni að þau hefðu farið fram hjá einhverjum hér fyrr í kvöld. Ég tel að það sé ábyrgðarhluti að leggja nafn sitt við vinnubrögð af þeim toga sem hér er búið að afhjúpa. Ég geri ekki ráð fyrir að fjmrh. sjái ástæðu til þess að fetta fingur út í þetta nál. við 3. umr. frekar en 2. umr. En ég vil að það liggi alveg skýrt fyrir hver okkar afstaða er, á hvaða grunni hún er byggð og hvers konar blekkingum hefur verið beitt þegar þetta mál hefur verið kynnt fyrir almenningi og hér í þinginu.
    Virðulegi forseti. Það er fram komið að fyrir þessu máli er meiri hluti hér í þessari hv. deild þrátt fyrir alla þá galla sem á því eru. Það virðist vera meiri hluti fyrir öllu frv. og upp úr kafinu eru komnir ákveðnir huldumenn eða huldumeyjar. Hv. þm. Stefán Valgeirsson kannast við það. ( SV: Vertu ekki að þessu þrasi.) Ljóst er því að frv. mun fá hér brautargengi, illu heilli.
    Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um þetta. Ég tel að hér sé verið að stíga óheillaskref í öllum þeim þáttum sem um er að tefla í þessu frv. Ég tel að það grafi undan tiltrú almennings á skattkerfinu, að það fái ekki einu sinni að standa óhaggað í heilt ár áður en menn eru komnir með puttana í það til

þess að ýta út úr staðgreiðslukerfinu þeim eiginleikum sem eru skattborgurunum í vil. Ég harma þetta mjög en ég skal ekki hafa um það fleiri orð, a.m.k. ekki nema að tilefni gefist til og læt þá lokið máli mínu, herra forseti.