Tekjuskattur og eignarskattur
Miðvikudaginn 21. desember 1988

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Herra forseti. Þegar hækkun tekjuskatts var ákveðin eða til umræðu í ríkisstjórninni var það vilji margra að hækka hundraðshlutann meira og hækka persónuafsláttinn þar með meira. Það lá fyrir tillaga um hækkun um 2,5 hundraðshlutastig og nota hálft hundraðshlutastig að öllu leyti til þess að hækka persónuafslátt og barnabætur. Í meðferð á síðasta degi hjá þingflokkunum náðist ekki samstaða um það og frv. var lagt fram með aðeins tveggja hundraðshluta hækkun og það er hárrétt að þá lækkaði persónuafslátturinn til að ná sömu tekjum. Hins vegar varð samkomulag um það, til að leiðrétta þetta, að hækka hundraðshlutann um 0,3 hundraðshlutastig til viðbótar og þannig er það leiðrétt sem hv. þm. hafa fundið að. Það skal vel viðurkennt að í meðferðinni á þessum klukkutímum þegar breytingin átti sér stað var ekki fyllilega ljóst til hvers hún mundi leiða.