Vörugjald
Miðvikudaginn 21. desember 1988

     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Herra forseti. Hér við 1. umr., sem byrjar á miðnætti, skal ég ekki vera langorður, það gefst gott tækifæri til að ræða þetta mál eftir að um það verður fjallað á fundi í fjh.- og viðskn. sem boðaður hefur verið kl. 10 í fyrramálið, og vil aðeins geta þess að hér um miðjan dag varð samkomulag um að greiða fyrir framgangi þessa máls og nokkurra annarra og að sjálfsögðu stend ég við það sem um var samið og þau mál eru öll í gangi. Síðan hefur verið ýjað að því að ætti að keyra áfram annað mál sem ekkert hefur verið unnið að núna lengi í fjh.- og viðskn. vegna margháttaðra annmarka og skrípamáls í einu og öllu. Við sjáum til hvað um það verður á morgun, en það er sem sagt samkomulag um að greiða fyrir því að þetta mál nái fram að ganga.
    Hæstv. fjmrh. gat þess að við þær erfiðu ástæður sem í þjóðfélaginu væru nú bæri brýna nauðsyn til að íþyngja borgurunum með nýjum skattahækkunum og þetta mál væri liður í því. Það er í ákveðnu samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar sem hefur boðað að hér ætti að koma á atvinnuleysi og draga úr umsvifum þjóðfélagsins vegna þeirra ástæðna að hér væri allt of mikil þensla og hvað þeir nú kalla það allt saman, þessir spekingar, sem sjá ofsjónum yfir framförum í landinu.
    Ég hef vakið á því athygli hér í tvígang a.m.k. að þegar erfiðleikar eru í þjóðfélaginu bjargar ríkið sér með þeim hætti eða ætlar að bjarga sér með þeim hætti að leggja á gífurlega skatta. Það var gert í fyrrahaust, einir 5 milljarðar sem hér var dengt yfir þjóðina með þeim rökum að það þyrfti að brúa bilið, það þyrfti að fylla upp í ca. 13 milljarða gat og þess vegna væri rétt að hafa borð fyrir báru, eins og hæstv. núv. utanrrh. hefur komist að orði og ráðlagt hæstv. núv. fjmrh., að hafa nú borð fyrir báru. Og hann virðist ætla að gera það allrækilega því að í heild er upphæðin talin vera, og trúi ég nú reikningunum mátulega, 6,7 milljarðar þegar allt er tínt til sem beint og óbeint á að leggja á þjóðina.
    Ríkið notar þá aðferð sem sagt að stoppa í gatið sitt og íþyngja bæði atvinnuvegum og alþýðu með gífurlegum skattahækkunum. Gatið stækkar að vísu með því að gjaldaliðirnir hækka á undan tekjuliðunum og því meir verður þetta auðvitað sem þessar aðferðir eru notaðar í fleiri ár. Nú verður hallinn á næsta ári væntanlega 10--12 milljarðar gæti ég trúað og þar næsta, ef áfram yrði haldið á sömu braut, yrði hann einhverjar svimandi upphæðir vegna þess að það verða engir til að greiða skattana, en gjaldahliðin hækkar jafnt og þétt eins og við vitum.
    En ríkið hefur um það bil, þó ekki meira enn þá, þriðjung af umsvifunum í þjóðfélaginu. Það ætlar núna, eins og hæstv. ráðherra segir, vegna hinna erfiðu ástæðna að sjá fyrir sér með því að leggja á tæpa 7 milljarða kr. Eins og ég segi hefur ríkið um það bil þriðjung umsvifanna, launagreiðslna og annarra greiðslna í þjóðfélaginu. Atvinnuvegirnir hafa þó enn þá upp undir 2 / 3 af umsvifunum og þeir ættu þá, ef þeir ætluðu sér að stoppa í sitt gat, sem sagt að leggja

á ca. 14--15 milljarða. Og á hvern ættu nú atvinnuvegirnir að leggja þetta þegar þeir sjálfir eiga að greiða meginhluta upphæðarinnar til ríkisins?
    Þessi endaleysa gengur auðvitað ekkert upp. Ég veit að það er eins og að tala við grjótið að ræða þetta við hæstv. fjmrh. --- og þó ekki. Ég held að hann viti hvað hann er að gera. Hann er sósíalisti eins og hann hefur marglýst yfir og verður það væntanlega alltaf og auðvitað er það leið sósíalismans að færa eins mikið af fjármagni í þjóðfélaginu frá borgurunum og atvinnuvegunum til ríkisvaldsins og undir beina og óbeina stjórn ríkisins, eins og nú er verið að gera, eins og mögulegt er. Þetta er hugsjón sem hefur að vísu gengið sér til húðar víðast hvar, bæði austan tjalds og vestan, og fáir vilja nú viðurkenna að þeir haldi við barnatrúna sína heldur reyna þeir að afneita henni í orði en framkvæma hana í verki þegar þeir hafa aðstöðu til. Það er kannski engin ástæða til þess að undrast þetta nokkurn skapaðan hlut.
    Þetta er almennt um skattapólitík ríkisstjórnarinnar. Um þetta sérstaka mál mun ég að sjálfsögðu fjalla með öðrum nefndarmönnum á fundi sem boðaður er kl. 10 í fyrramálið og væntanlega kemur þetta mál til 2. umr. einhvern tíma á morgun ef það tekst að halda það samkomulag sem gert hefur verið um ákveðin mál. En við mig er ekkert samkomulag um eitt mál sem núna var aftur vakið upp kl. að verða 7 í dag, þ.e. skattlagning á alla mögulega sjóði bæði atvinnuvega, sveitarfélaga o.s.frv. Um það hefur ekkert verið fjallað í langa tíð í hv. fjh.- og viðskn. Málið er algerlega óunnið og óhæft til afgreiðslu á þessu þingi eða þessa dagana alla vega, að næturlagi og annað slíkt. Mér er kunnugt um að um það hefur ekkert samkomulag verið gert við Kvennalista eða Borgfl. heldur. Það er ekkert samkomulag mér vitanlega um það mál og þess vegna fjalla ég ekki um það nú. En ef reynt verður að taka það fyrir í fjh.- og viðskn. kl. 10 á morgun verður löng og mikil umræða um það og hún gæti staðið dögum saman.