Vörugjald
Miðvikudaginn 21. desember 1988

     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegi forseti. Þegar við 1. umr. um vörugjaldið í Nd. Alþingis kom fram í máli hv. þingkonu Kvennalistans, Kristínar Halldórsdóttur, að við kvennalistakonur getum ekki stutt þetta frv. í heild sinni og það kom reyndar strax fram þegar frv. var kynnt fyrir þingflokknum. Á síðasta þingi þegar unnið var að víðtækum breytingum á tollalöggjöfinni fluttum við brtt. sem lutu að því að skattleggja ýmsar vörutegundir sem upp eru taldar undir a-lið 1. gr. frv., en þá giltu einkunnarorðin einföldun, réttlæti og skilvirkni sem við heyrðum svo oft höfð yfir hér í þessum ræðustóli í fyrra. Við töldum og teljum reyndar enn að það sé ein leið til þess að stýra neyslu fólks að setja mishátt gjald á vörur eftir því um hvers konar vörur er að ræða. Þegar um er að ræða skattlagningu á matvörur teljum við að það beri fyrst og fremst að taka mið af manneldissjónarmiðum. Það hefur reyndar komið fram og er fyrst og fremst markmið og tilgangur hæstv. ríkisstjórnar að leita að tekjulind sem að vissu leyti er skiljanlegt við þær aðstæður sem við nú stöndum frammi fyrir. Þetta þýðir að undir a-liðnum í 1. gr. frv. er ýmislegt sem ekki ætti að vera þar séu manneldissjónarmiðin og neyslustýring höfð að leiðarljósi. Eins eru margar vörutegundir sem ættu heima undir þessum lið sem alls ekki eru þar. Til þess að vinna að slíkum breytingum sem væru fólgnar í neyslustýringu þyrfti miklu lengri tíma en nú hefur gefist til þess að skoða málið og leita álits næringarfræðinga og annarra sérfróðra manna. Ef taka á upp neyslustýringu með verðlagningu þarf markmiðið að vera allt annað en hrein tekjuöflun fyrir ríkissjóð.
    Rétt eins og í fyrra þegar fjallað var um breytingu á lögum um tolla og vörugjald lendum við nú aftur í tímaþröng og getum ekki skoðað málið nógu vel, en það tekur ærinn tíma ef gera á þær breytingar sem ég hef minnst á hér.
    Við kvennalistakonur erum ekki á móti skattlagningu svo framarlega sem það þrengir ekki um of að almenningi, en með tilliti til ótryggs atvinnuástands og þess að ríkisvaldið hefur tekið sér það vald að setja þak á ákveðna launataxta höfum við viljað fara varlega í að íþyngja launafólki um of með sköttum. Við þessar aðstæður teljum við óvarlegt að samþykkja álögur sem koma beint við afkomu heimilanna sem vörugjaldið óneitanlega gerir, en það skilar sér auðvitað strax út í verðlagið.
    Varðandi sykurskattinn vil ég benda á að eins og málið kom frá hv. Nd. eru ýmis atriði í sykurskattsflokknum sem alls ekki ættu að vera þar. Þar eru t.d. vörutegundir sem alls ekki innihalda sykur, t.d. ósætt ávaxtaþykkni, kakó og ölkelduvatn svo að dæmi séu nefnd. Hins vegar er sleppt vörum eins og t.d. ávaxtagrautum og sultu sem innihalda ríkulegt magn af sykri. Þannig vantar alla samræmingu í þessar tillögur.
    Með tilliti til þess sem ég hef áður sagt um vilja okkar til að hafa áhrif á neyslu með því að leggja mismunandi hátt vörugjald á neysluvörur allt eftir eðli

þeirra gætum við hugsað okkur að styðja ákveðna liði í þessu vörugjaldsfrv. en aðra ekki. Við teljum t.d. afar óskynsamlegt og beinlínis varhugavert að skattleggja aukalega varahluti í bíla. Árið 1986 voru bílar stórlækkaðir í verði með afleiðingum sem eru okkur allt of dýrar bæði hvað varðar manntjón og eignatjón og þar að auki koma til dýr umferðarmannvirki. Ofan á þetta allt saman bætist við mengun og viðskiptahalli. Nú skal skattleggja varahluti svo að það borgi sig enn síður að gera við bílana þannig að áfram heldur innflutningurinn. En það er kannski rík ástæða til að efast um að þeir fjármunir skili sér inn sem tekjur til ríkissjóðs sem gert er ráð fyrir þar eð ástandið er þannig í þjóðfélaginu að ekki virðast vera neinar líkur á að fólk geti ástundað mjög mikla neyslu.
    Það kom fram á brtt. frá meiri hl. fjh.- og viðskn. í Nd. að það stendur til að endurskoða frv. um vörugjaldið árið 1991. Reyndar lagði minni hl. til að frv. yrði endurskoðað þegar árið 1990. Ég hefði talið það betra því að eftir allan sönginn í fyrra sem við heyrðum um þessa þrjá tóna, einföldun, skilvirkni og réttlæti, virðist vera horfið algerlega frá því núna og við vitum ekki hvað gæti gerst um næstu áramót ef það vantar þá líka peninga í ríkissjóð. Ég tel mjög óæskilegt að farið sé að gera lauslegar ónákvæmar breytingar á þessum vörugjaldslögum eingöngu í þeim tilgangi að ná í tekjur í ríkissjóð og ég vil hvetja hæstv. fjmrh., sem reyndar skaust út úr dyrunum núna rétt í þessu, að við þessa endurskoðun verði manneldissjónarmið í alvöru höfð í huga en ekki eins og þau eru sett fram í frv. eins og það kom frá Nd.