Tekjuskattur og eignarskattur
Miðvikudaginn 21. desember 1988

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Það frv. sem ég mæli hér fyrir felur í sér þríþættar breytingar. Í fyrsta lagi er gerð breyting á tekjuskatti einstaklinga. Í öðru lagi eru gerðar margvíslegar breytingar á skattlagningu fyrirtækja sem hafa í för með sér að samræma ýmis ákvæði í skattlagningu fyrirtækja og færa hana í það horf að eðlilegt sé að þau fyrirtæki sem skili verulegum hagnaði færi hluta af honum í hinn sameiginlega sjóð landsmanna og dregið sé úr möguleikum til þess að eigendur eða stjórnendur fyrirtækja geti fært hluta af einkaneyslu sinni á reikninga fyrirtækjanna. Í þriðja lagi felast í þessu frv. breytingar á eignarsköttum.
    Ég hef lýst því yfir áður að við ákvörðun um tekjuskatta einstaklinga á næsta ári hafi verið leitast við að fylgja þeirri meginreglu um tekjuskatta einstaklinga með 60 þús. kr. eða minna og hina ýmsu tegunda hjóna og fjölskyldufólks með 120--150 þús. að skattarnir sem þessir hópar greiða á árinu 1989 verði minni en þeir greiddu á árinu 1988.
    Í umræðum bæði á Alþingi og eins í þjóðfélaginu hefur verið gert nokkuð úr því að bera saman efnisþætti þessa frv. við það sem hefði átt að vera samkvæmt gildandi lögum á næsta ári. Það er þess vegna nauðsynlegt að menn átti sig á hvort verið er að bera saman annars vegar þá skatta sem menn hafa greitt í reynd á yfirstandandi ári og þá sem menn koma til með að greiða á næsta ári eða hvort menn eru að bera saman þá skatta sem hefði átt að greiða samkvæmt gildandi lögum á næsta ári og þá sem greiddir verða samkvæmt þessu frv. ef það verður að lögum.
    Til að koma til móts við þá sem leggja höfuðáherslu á síðarnefnda samanburðinn var ákveðið við meðferð þessa máls í hv. Nd. að hækka skattprósentuna um 0,3% til viðbótar við þau 2% sem fyrir lágu í frv., en þó þannig að ríkissjóður fær ekki krónu af þessari hækkun heldur er henni allri varið til að hækka persónuafslátt og barnabætur. Hún felur þess vegna eingöngu í sér tekjujöfnunaraðgerð milli ólíkra hópa í þjóðfélaginu en er ekki sem slík tekjuöflunaraðgerð fyrir ríkissjóð. Þær tekjur sem felast í 2% hækkuninni eru þær einu viðbótartekjur sem ríkissjóður fær í sinn hlut af frv.
    Það er enn fremur ákveðið í frv. í þeim búningi sem það birtist í í þessari hv. deild að sú 2,3% hækkun sem í frv. felst er eingöngu bundin við næsta ár, árið 1989, en felur ekki í sér ákvörðun um viðvarandi hækkun prósenthlutfallsins.
    Í framsögu minni fyrir frv. í hv. Nd. vék ég nokkuð ítarlega að þeim athugunum sem fram hafa farið í fjmrn. á möguleikum þess að taka upp sérstakt hátekjuþrep í tekjuskatti. Ástæða þess að ég gerði það að umtalsefni var að bæði innan þings og eins víða í þjóðfélaginu er mjög sterk krafa eða áhugi á því að skattkerfinu sé breytt með þeim hætti. Ég lýsti því þá yfir að hvað sem liði afstöðu manna til að hafa eitt eða fleiri skattþrep í tekjuskattinum hafi ég sannfærst um það eftir ítarlegar viðræður við starfsfólk

skattkerfisins og stjórnendur þess að útilokað sé að taka upp slíka breytingu nema með a.m.k. 4--6 mánaða fyrirvara ef tryggja á að hún komist örugglega til skila. Staðreyndin er sú að það framkvæmdakerfi sem við höfum í skattamálum er að mörgu leyti vanmegnugra en ég hafði gert mér grein fyrir og ég hugsa flestir hv. alþm. hafa gert sér grein fyrir. Það fólk sem hefur á yfirstandandi ári orðið að bera framkvæmd hins nýja staðgreiðslukerfis á sínum herðum hefur í raun og veru frá einum mánuði til annars staðið frammi fyrir mjög erfiðum verkefnum og ekki haft tryggingu fyrir því að sá vilji Alþingis sem birtist í ákvörðun um staðgreiðslukerfi skatta yrði í reynd framkvæmdur.
    Ég lýsti því yfir við 1. umr. málsins í hv. Nd. að þessi athugun mundi halda áfram og að allir hv. þingflokkar gætu fylgst með efnisþáttum hennar svo að aðstaða skapaðist á fyrri hluta næsta árs til þess að menn gætu vegið og metið kosti þess og galla að hafa sérstakt hátekjuþrep í tekjuskatti. Þá gætu þeir sem hafa verið sannfærðir um að slíkt væri ekki ákjósanlegt skoðað málið að nýju og e.t.v. komist að sömu niðurstöðu og áður og eins gætu þeir sem lagt hafa ríka áherslu á slíkt sérstakt hátekjuþrep metið sína afstöðu.
    Hins vegar er alveg ljóst að innan núgildandi kerfis er hægt að beita breytilegum stærðum þess, þ.e. skattprósentunni, persónuafslættinum og barnabótunum, með margvíslegum hætti til að ná fram mjög hliðstæðum tekjujöfnunaraðgerðum og sérstakt hátekjuþrep í tekjuskattinum hefði í för með sér. Það er ein af ástæðum þess að mér finnst óeðlilegt að áfram sé við lýði sú ákvörðun, sem felst í gildandi lögum, að þessar stærðir, persónuafslátturinn og barnabæturnar, séu fastbundnar með vísitölu. Þar með eru menn að segja að þeir vilji ekkert annað ,,réttlæti``, svo ég noti það orð, með tilliti til barnabóta og persónuafsláttar en nákvæmlega það sem felst í þeim tölugildum sem ákveðin voru fyrir ári og vísitölubindingu þeirra. Það er fyllilega hugsanlegt að meiri hluti Alþingis hefði aðra skoðun á þessu hlutfalli, vildi t.d. hækka barnabæturnar enn frekar og kannski lækka persónuafsláttinn svo dæmi séu nefnd eða verja verulegu hlutfalli til þess að breyta aldursmörkunum hvað börnin snertir og breyta hlutfallinu í samræmi við
það. Það er ein meginástæðan fyrir því að mér finnst, burtséð frá ágreiningi um þyngd skatta eða ekki, að það að vísitölubinda þessar stærðir frá ári til árs feli í sér í raun og veru ákvörðun Alþingis um að afsala sér á þessum tíma möguleika á að breyta réttlætishlutfallinu gagnvart hinum ýmsu þjóðfélagshópum.
    Ég ætla ekki að gera þetta nánar að umræðuefni hér. Það má skoðast betur eftir að hv. fjh.- og viðskn. hefur haft tækifæri til að fjalla um frv., en vildi þó við upphaf málsins vekja athygli á þessum sjónarmiðum.
    Það er alveg ljóst að hér er um hækkun skatta að ræða. Það hefur engin dul verið dregin á þá staðreynd

málsins. Það sem við höfum hins vegar sagt er að ef borið er saman hlutfallið í ár og svo það sem verður á næsta ári sé gagnvart þeim tekjuhópum lágtekjufólks sem ég nefndi áðan ekki um íþyngingu skatta að ræða.
    Annar meginþáttur þessa frv. felur í sér breytingar á skattlagningu fyrirtækja. Þær breytingar fela það í sér, ef þær eru teknar sem ein heild, að það er fyrst og fremst verið að gera tvennt. Í fyrsta lagi að ákveða að fyrirtæki sem skila verulegum hagnaði greiði hluta af þeim hagnaði í gegnum tekjuskatt fyrirtækja í sameiginlegan sjóð landsmanna. Vil ég í því sambandi bara vekja athygli á einni staðreynd, að á grundvelli tekna ársins 1987, sem var einstakt góðæri hjá atvinnulífinu í landinu, greiddi aðeins um þriðjungur fyrirtækja tekjuskatt vegna þess hvers eðlis skattalögin voru. Ég segi að atvinnulíf sem býr við þannig skattlagningu elur á tortryggni í sinn eigin garð hjá fólkinu í landinu og það sé miklu hollara fyrir atvinnulífið og fyrirtækin að fólkið finni að þegar um mikinn hagnað er að ræða sé hluti af honum greiddur í hinn sameiginlega sjóð.
    Hinn þátturinn sem snertir breytingar á skattlagningu fyrirtækja er að loka ýmsum þeim möguleikum sem stjórnendur og eigendur fyrirtækjanna hafa haft til að styrkja sína persónulegu stöðu, t.d. í gegnum hvernig bifreiðanotkun er færð, hvernig lántökur til eigin þarfa úr fyrirtækjunum eru meðhöndlaðar og eftir ýmsum öðrum leiðum.
    Þriðji og síðasti meginþáttur frv. felur í sér breytingar á eignarsköttum. Þar er fyrst og fremst um tvenns konar breytingu að ræða. Annars vegar hækkun á almenna hlutfallinu í 1,2% og hins vegar sérstakt háeignaþrep sem er 1,5% til viðbótar við hið almenna þrep.
    Auðvitað má ávallt um slíka ákvörðun deila. Ég er þó þeirrar skoðunar að í okkar þjóðfélagi sé fyllilega réttlætanlegt að vera með stighækkandi eignarskatt eins og menn eru að vissu leyti með stighækkandi tekjuskatt innan núgildandi kerfis. Þetta háeignaþrep er svo hátt, enn frekar eftir þá breytingu sem gerð var í hv. Nd., að miða við 7 millj. kr. skuldlausa eign hjá einstaklingi og 14 millj. kr. skuldlausa eign hjá hjónum, að það er aðeins um eða innan við 5000 manna hópur sem þessi skattlagning tekur til. Hvað íbúðarhús snertir svo tekinn sé samanburður þurfa menn að leita í dýrustu íbúðarhverfi höfuðborgarsvæðisins til að finna einbýlishús sem flokkast undir þetta sérstaka háeignaþrep.
    Þegar við eigum við mikla erfiðleika að etja og sú meginstefna er mörkuð að sækja fé eftir þessum leiðum fannst okkur eðlilegt að gera það m.a. með því að búa til slíkt sérstakt háeignaþrep í eignarskattinum.
    Virðulegi forseti. Það er nokkuð liðið á nóttu svo að ég mun ekki fjalla í ítarlegra máli í framsögu um efnisþætti frv. Ég hef þó ekki viljað hafa hana um of stuttaralega en vona að hv. deildarmenn virði það að ég hef leitast við það hér í minni framsöguræðu að gera grein fyrir öllum höfuðatriðunum sem felast í frv.
    Auðvitað er það ætíð um frv. af þessu tagi að hægt

er að ræða lengi með einstökum dæmum og útfærslu hvernig það birtist hinum og þessum hópum. Það er efni sem e.t.v. er betra að fjalla um eftir að málið hefur verið skoðað í nefnd. Ég veit að hv. fjh.- og viðskn. þessarar deildar mun ekki hafa mikinn tíma til að fjalla um frv. og virði vilja nefndarmanna til að greiða fyrir framgangi þess. Ég vil þess vegna, virðulegur forseti, mælast til þess að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til hv. fjh.- og viðskn.