Tekjuskattur og eignarskattur
Miðvikudaginn 21. desember 1988

     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Það er nú komið í ljós að ríkisstjórnin styðst við meiri hluta hér á Alþingi þannig að það væri mjög rangt af stjórnarandstöðunni undir slíkum kringumstæðum að tefja fyrir því að sú stefna ríkisstjórnarinnar nái fram að ganga, sem hún hefur þinglega burði til að fylgja eftir, að þyngja svo álögur á þjóðinni að engin dæmi eru til um það. Afsökun hæstv. fjmrh. fyrir þessari skattpíningu er sú að hann hefur einhvers staðar lesið að skattar muni erlendis sums staðar vera hærri og hefur nú sett sér það mark að komast í heimsmetabók Guinness þannig að hægt verði að benda á að enginn fjmrh. hvergi nokkurs staðar í heiminum hafi náð þeim merka áfanga að þyngja skattbyrðina jafnört meðal sinna þegna á sama tíma og lífskjör hafa verið versnandi og afkoma fyrirtækja ömurleg.
    Ég hygg að hæstv. fjmrh. muni takast þetta. Eins og ég sagði um daginn í ræðu í sameinuðu þingi þyngist skattbyrðin miðað við þjóðartekjur mjög ört þegar þjóðartekjurnar dragast annars vegar saman og hins vegar er stækkaður hluti þess sem ríkið tekur til sín, ekki aðeins í verðmætum, ekki aðeins að raungildi heldur einnig auðvitað margfalt sem hlutfall af þjóðartekjum. Ég hygg því að hæstv. fjmrh. geti ekki komið upp fyrir næstu jól og sagt að sums staðar erlendis sé skattbyrðin hærri. Ég hygg að þá geti hann hrósað sér að því að hvergi í vestrænum lýðræðisríkjum þekkist meiri og þyngri skattbyrði en hér.
    Ég verð að harma að hagdeild fjmrn. skuli hafa gerst sek um að leggja skattadæmi og ýmsar aðrar upplýsingar þannig fyrir þingdeildir að við getum ekki treyst þeim upplýsingum. Það er borðleggjandi að það sem hæstv. fjmrh. hefur sagt um samanburð á skattbyrði á milli ára stenst ekki eins og nánar verður gerð grein fyrir á morgun þegar málið hefur verið athugað í nefnd og fengist hafa fullnægjandi skýringar frá ríkisskattstjóra.
    Þegar staðgreiðslukerfi skatta var tekið upp vorum við ýmsir mjög hræddir við þá ráðstöfun vegna þess að hún auðveldar mjög óprúttnum stjórnmálamönnum að seilast djúpt í vasa launþega fyrirvaralaust með því að launþegarnir eiga enga vörn þegar skattheimtumaðurinn kemur til verkamannsins um leið og hann fær arðinn af sinni vinnu. Auðvitað var hægt að færa þau rök fyrir staðgreiðslunni að í uppsveiflu í þjóðfélaginu, þegar tekjur hækkuðu mjög ört, gæti verið skynsamlegt af ríkisvaldinu að hækka skatthlutfallið, kannski taka visst hlutfall af tekjum manna í skyldusparnað og reyna þannig að færa hinn aukna afrakstur milli ára og draga úr þeirri spennu sem hinar skyndilegu tekjur ella hefðu í þjóðfélaginu eins og við höfum oft orðið vör við að gerist í okkar litla landi og má segja að sé einn höfuðerfiðleikinn í okkar efnahagslífi, þ.e. að brúa bilið á milli góðærisins og harðærisins.
    Það var vitaskuld merkur áfangi þegar samstaða náðist um það milli stjórnarandstöðuflokkanna að nauðsynlegt væri að setja á fót sérstakan

sveiflujöfnunarsjóð sem við kölluðum. Hugsunin var sú að fyrirtæki gætu í góðæri lagt peninga inn á bundinn reikning í bönkum sem ekki kæmi til skattlagningar fyrr en peningarnir væru notaðir. Þetta mundi annars vegar þýða að í erfiðari árum stæðu fyrirtækin sig betur, gætu borið af sér fallið og hins vegar hefði þetta sjálfkrafa þýtt að fyrirtækin hefðu verið betur undir það búin að ráðast í margvíslega fjárfestingu sem þau nú vegna ranglátra skattalaga freistast til að gera þó svo að hagkvæmara væri miðað við eðlileg skattalög að draga framkvæmdina eða endurnýjun tækjakosts um eitt, tvö eða jafnvel þrjú ár. Við vitum það, Íslendingar, að við erum orðnir svo vanir erfiðum skattheimtumönnum að af þeim sökum grípa menn hvert tækifæri sem þeir geta til að koma sér undan skattinum og geta oft og tíðum reiknað vissan hagnað út úr því þó að það verki sem tap fyrir þjóðarbúið í heild.
    Nú getur vel verið að hæstv. fjmrh. geti fundið eitthvert réttlæti út úr því. Hann segir að sínir skattar séu betri en skattar íhaldsins. Það má vera að hæstv. fjmrh. geti fundið eitthvert réttlæti út úr því að hækka tekjuskattinn, að hækka óbeina skatta á neysluvörum heimilanna á sama tíma og lífskjörin hafa verið að versna, á sama tíma og fólkið er að missa atvinnuna, á sama tíma og atvinna dregst saman í fyrirtækjunum í landinu. Það má vera að honum finnist þetta réttlæti. Ég segi að sá hugsunarháttur sem býr á bak við þetta er víðsfjarri þeim hugsunarhætti sem við sjálfstæðismenn höfum tileinkað okkur og við skiljum raunar ekki hvað á bak við þetta liggur.
    Ég vil í öðru lagi segja að engin von er til þess að við getum byggt upp heilbrigðan atvinnurekstur sem getur staðið undir betri lífskjörum nema fyrirtækin geti starfað á svipuðum grundvelli og í okkar nágrannalöndum sem við keppum við. Við keppum bæði við erlend fyrirtæki á hinum erlendu mörkuðum og við erum líka í stöðugri samkeppni við hin erlendu fyrirtæki hér heima.
    Áðan var verið að tala um vörugjaldið. Vegna þess að við ætlum að stytta umræðurnar sá ég ekki ástæðu til að lesa upp skjal sem við höfum fengið frá húsgagnasmiðum sem lýsir þeim áhyggjum sem þeir hafa út af þessari nýju skattlagnignu á þá og þar sem þeir segja beinlínis að við því sé að búast að fjöldi manns í þeirri stétt muni missa sína atvinnu. Við heyrðum í
kvöldfréttum hversu margir menn hafa þegar misst atvinnuna í byggingariðnaðinum. Það var einmitt haft orð á því að mörg fyrirtæki hefðu ekki verkefni fram undan þannig að við því er að búast að enn fleiri verði atvinnulausir þegar kemur fram á vorið. Samt sem áður sér ríkisstjórnin ástæðu til að leggja vörugjald á byggingarvörur og hækka með þeim hætti byggingarkostnaðinn.
    Við vorum líka að tala um skipasmíðaiðnaðinn. Þrátt fyrir að óumdeilt sé að hundruð manna hafi þar misst atvinnu sína sér ríkisstjórnin ástæðu til að skattleggja sérstaklega þennan iðnað. Nú væri fróðlegt að spyrja hæstv. fjmrh.: Meinar hann að þetta fólk

sem þannig er að missa sína atvinnu, annaðhvort yfirvinnuna og heldur kannski dagvinnunni einni saman eða kemst á atvinnuleysisbætur, að þetta fólk sé betur statt núna en það var áður? Er það hans hugsun? Ég held að það verði að koma alveg hreint fram hvort fjmrh. finnst þjóðin vera aflögufær, hvort honum finnst þetta réttlæti.
    Hann talaði áðan um fyrirtækin og sagði að nauðsynlegt væri að koma í veg fyrir að einstaklingarnir gætu lifað á kostnað fyrirtækjanna og þannig svikið undan skatti. Hæstv. fjmrh. vék ekki einu einasta orði að þeim rökum sem hann þykist hafa fyrir því að ástæða sé t.d. til að draga úr fyrningum og hefði þó vissulega verið ástæða til að hann reyndi að gera það. Þetta er gömul stefna Alþb. fjandsamleg atvinnuvegunum og hefur gengið sér blessunarlega til húðar í öllum nágrannalöndum okkar.
    Ég sé ekki ástæðu til þess, herra forseti, við 1. umr. málsins, enda komið fram á nótt, að gera einstök efnisatriði sérstaklega að umræðuefni. Ég vil leggja áherslu aðeins á þetta:
    Í fyrsta lagi: Tekjuskatturinn er þyngdur á sama tíma og þjóðin verður fyrir verulegri kaupmáttarskerðingu, á sama tíma og álögur á nauðþurftarvörur eru þyngdar.
    Í öðru lagi: Á sama tíma og hæstv. sjútvrh. sagði í dag að fjöldi fyrirtækja í landinu byggi við hallarekstur og gæti ekki risið undir neinum áföllum sér hæstv. fjmrh. ástæðu til að þyngja þá pinkla sem lagðir eru á atvinnureksturinn. Auðvitað getur atvinnureksturinn ekki staðið undir hinni nýju skattlagningu. Auðvitað þýðir þetta ekki annað en að þjóðin verður að borga skattana einhvern veginn fyrir fyrirtækin. Auðvitað eiga þau ekki það fjármagn og þær eignir að þær geti staðið undir skattheimtunni. Kannski er spaugilegasta dæmið af allri skattheimtunni að nú hefur hæstv. ríkisstjórn ákveðið að leggja sérstakan skatt á veðdeild Landsbankans sem í raun og veru er skattur á Húsnæðisstofnun ríkisins.
    Í þriðja lagi, herra forseti: Samtímis því sem gengið er á sjálfsaflafé fólksins, annars vegar með því að brjóta niður rekstrargrundvöll fyrirtækjanna, hins vegar með því að þyngja skattana á þær færri krónur sem fólkið fær, er hugmyndin að þyngja enn eignarskattana. Hæstv. fjmrh. var líka að reyna að gera lítið úr því, en er einhver maður hér inni sem lætur sér detta í hug að hann hafi sagt það með sannfæringarkrafti að frv. sem hér er til umræðu sé einungis til lagfæringar, samræmis og leiðréttingar en feli ekki í sér stórfelldar tekjutilfærslur til hins opinbera?
    Ég skal síðan ekki hafa fleiri orð. Frv. gengur á móti öllum hugsjónum og grundvallarstefnu Sjálfstfl., það vinnur á móti sjálfsbjargarhvöt og afneitar þeim atvinnuforsendum sem eru í landinu og síðast en ekki síst þrengir svo að fjölskyldunum að ég get ekki séð hvernig verkalýðshreyfingin getur látið kyrrt liggja. Það hefur komið fyrir áður hér á landi að okkar útflutningsatvinnuvegir hafa átt í verulegum erfiðleikum og því hefur jafnan verið mætt með því

að ríkið hefur tekið eitthvað af byrðinni á sínar herðar. En nú er því ekki til að dreifa. Hæstv. fjmrh. talar mikið um að hann ætli að skila hallalausum ríkissjóði um næstu áramót, í árslok 1989. Við vitum að þau orð hans eru meiningarlaus og marklaus. Við vitum að eins og búið er að þjóðinni nú, eins og horfurnar eru nú í atvinnulífinu er með öllu útilokað að skila greiðsluafgangi hjá ríkissjóði miðað við alla þá eyðslu sem hæstv. fjmrh. hefur verið í forustu fyrir að efna til. Það er í rauninni nákvæmlega sama hversu djúpt hann reynir að seilast, upp á hversu mörgum sköttum hann reynir að finna. Samt sem áður mun reyndin verða að ríkissjóður verður rekinn með halla og ég hygg að svo muni jafnvel geta farið að þjóðin muni hrinda þessari ríkisstjórn af höndum sér áður en næsta ár rennur sitt skeið.