Framhaldsskólar
Miðvikudaginn 21. desember 1988

     Frsm. minni hl. menntmn. (Þórhildur Þorleifsdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 352 um frv. til laga um breyt. á lögum um framhaldsskóla. Þó halda megi því fram með nokkrum rökum að skortur á löggjöf um framhaldsskóla hafi auðveldað jákvæða og öra þróun mála í framhaldsskólum telur Kvennalistinn að tímabært hefði verið að setja um það rammalöggjöf. Við umræður um frv. til laga um framhaldsskóla á Alþingi sl. vor gagnrýndu þingkonur Kvennalistans ýmsa þætti þess og fluttu brtt. við margar greinar þess. Að mati Kvennalistans var helstu agnúa frv. að finna varðandi stjórnunarþáttinn og aðbúnað nemenda og lutu brtt. því einkum að þessu tvennu. Allar brtt. Kvennalistans voru felldar. Því koma skoðanir Kvennalistans á ýmsum mikilvægum þáttum í starfi framhaldsskólans ekki fram í þeim lögum sem samþykkt voru á Alþingi 9. maí 1988.
    Skólamenn hafa einnig gagnrýnt marga þætti laganna. Að mati þeirra, einkum stjórnenda skólanna, var þó stigið mikilvægt skref við lagasetninguna með því að kveðið er á um kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga vegna stofnkostnaðar framhaldsskólanna og yfirtöku ríkissjóðs á rekstri þeirra. Með þeirri frestun á hluta laganna sem hér er lögð til er viðhaldið þeirri mismunun sem nú er eftir því um hvers konar skóla er að ræða. Sveitarfélög sem taka þátt í rekstri framhaldsskóla hafa gert sínar áætlanir með tilliti til þess að fjármálakafli laganna taki gildi nú um áramótin. Kvennalistinn telur brýnt að þessi mismunur verði afnuminn. Þrátt fyrir þá vinnu sem nú fer fram við smíð reglugerða og að boðuð hefur verið viss endurskoðun á ýmsum þáttum laganna sem Kvennalistinn hefur gagnrýnt getur minni hl. ekki stutt þá frestun á framkvæmd laganna sem frv. gerir ráð fyrir og mun því ekki taka þátt í afgreiðslu málsins.