Tollalög
Miðvikudaginn 21. desember 1988

     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Páll Pétursson):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. sem er flutt af meiri hl. fjh.- og viðskn., þ.e. Páli Péturssyni, Guðmundi G. Þórarinssyni, Árna Gunnarssyni, Ragnari Arnalds, Geir H. Haarde og Inga Birni Albertssyni.
    Frv. fjallar um ferli tolls í nokkrum númerum. Í greinargerð segir, með leyfi forseta:
    ,,Þegar síðustu breytingar voru gerðar á tollalögum var ráð fyrir því gert að landbúnaðarráðherra yrði veitt heimild til að leggja sérstakt jöfnunargjald á innflutt grænmeti til að viðhalda svipaðri samkeppnisaðstöðu innlendra grænmetisframleiðenda gagnvart innfluttu grænmeti og var fyrir tollalagabreytinguna.
    Gert var ráð fyrir að tollar á innflutt grænmeti lækkuðu um næstu áramót, 1988--1989, um 10%, úr 30% í 20%. Fyrrnefnd álagning jöfnunargjalds hefur hins vegar enn ekki komið til framkvæmda.
    Markaðsstaða innlendrar grænmetisframleiðslu versnaði verulega með álagningu söluskatts á innlent grænmeti, en jöfnunargjaldið átti m.a. að koma vegna söluskattsáhrifanna.
    Frv. þetta er flutt til að fresta um sinn þeim tollalækkunum sem áttu að koma til framkvæmda um næstu áramót. Komi tollalækkunin til framkvæmda getur það haft alvarleg áhrif á innlenda grænmetisframleiðslu en í þessari grein eru nú miklir erfiðleikar. Frestun tollalækkunarinnar er einnig til þess fallin að unnt reynist að huga nánar að stöðu greinarinnar.``
    Þetta segir í greinargerðinni sem fylgir frv., herra forseti. Þetta frv. er flutt af sex af sjö nefndarmönnum í fjh.- og viðskn. Hv. þm. Kristín Halldórsdóttir stendur ekki að málinu og er því andvíg. Það er samkomulag við hana og milli okkar nefndarmanna að málið þarfnist ekki meðferðar í fjh.- og viðskn. Þess vegna mun ég ekki leggja til að málinu verði vísað til nefndar.
    Ég vil geta þess að endingu að hv. þm. Stefán Valgeirsson, sem gjarnan situr fundi fjh.- og viðskn., er fylgjandi þessu máli.