Þjóðargjaldþrot
Fimmtudaginn 22. desember 1988

     Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal):
    Hæstv. forseti. Ég átti ekki von á því að hæstv. forsrh. mundi gefa neina skýringu á ummælum sínum á fundi Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna. Þaðan af síður átti ég von á því að hæstv. forsrh. mundi skýra þingheimi frá því hvort hann hafi notað að einhverju leyti þær upplýsingar sem hann fékk á fundinum og lýsti með svo dramatískum hætti. Á þessum fundi spurði hæstv. forsrh.: Hvað ætlið þið að gera? Hann segist hafa verið inni í fílabeinsturni þar sem gamla gasstöðin stóð við Rauðarárstíg og segist ekki hafa fylgst náið með málum og orðið steinhissa á því hvernig ástand atvinnuveganna var eftir að hann var kominn í forsætisráðherrastólinn og gat farið að fylgjast með. Hann hefur orð á því að pappír sé að hlaðast upp á skrifborðinu hjá sér sem hann hafi verið að rýna í og að hann hafi gert sér grein fyrir erfiðleikunum. Og síðan lítur hann í kringum sig á fundinum og segir: Það var ekki vonum fyrr sem þið kölluðuð saman þennan fund, það var sannarlega tími til kominn, og nú spyr ég ykkur hvað þið ætlið að gera.
    Nú er rúmur mánuður síðan hæstv. forsrh. spurði þá sem voru í kringum hann um það hvað þeir vildu gera. Þess vegna hygg ég að það sé fullkomin ástæða til að við hér í hinu háa Alþingi spyrjum hæstv. forsrh. hvað hann ætli að gera. Mátti ég skilja ummæli hans svo, þegar hann segir afdráttarlaust að ekki stefni að þjóðargjaldþroti, að hann telji að ástandið í íslenskum útflutningsgreinum sé betra en það var fyrir fimm vikum? Er það mat hæstv. forsrh. að þann tíma sem hann hefur veitt forustu ríkisstjórn landsins hafi eitthvað það verið gert fyrir atvinnuvegina sem munar um, eitthvað jákvætt, eitthvað til að bæta undirstöðu þeirra, eitthvað til að bæta starfsskilyrði atvinnurekstrarins? Og er það mat hæstv. forsrh. að það sé meira atvinnuöryggi nú í sjávarplássum víðs vegar um landið en var þegar hann settist í stólinn? Ég hygg að svarið við þessum spurningum muni leiða í ljós hvort hæstv. forsrh. sé enn í fílabeinsturninum. Þá sé spurningin einungis sú hvort fílabeinsturninn standi nú við Lækjartorg þar sem hann stóð áður við gömlu gasstöðina.