Skipti Íslendinga við varnarliðið
Fimmtudaginn 22. desember 1988

     Fyrirspyrjandi (Geir H. Haarde):
    Virðulegur forseti. Það er ævinlega þannig þegar Alþb. tekur sæti í ríkisstjórn á Íslandi að það vakna nokkrar spurningar um hver muni verða afstaða slíkrar ríkisstjórnar til varna landsins og aðildar Íslands að Atlantshafsbandalaginu. Þannig vill til um þá ríkisstjórn sem nú situr við völd að í stefnuyfirlýsingu hennar er ekki vikið orði að varnarsamstarfi vestrænna ríkja eða þátttöku Íslendinga í því þannig að það er eðlilegt að menn velti fyrir sér eða hafi gert í upphafi, áður en utanrrh. tók af skarið um þau mál, hver væri stefna stjórnarinnar í þessum efnum.
    Ég leyfði mér, virðulegur forseti, að bera fram fsp., sem var lögð fram í þinginu hinn 28. okt. sl., þar sem óskað var skýringa á ákvæði í stjórnarsáttmálanum sem er með því orðalagi að ekki er ljóst hvað við er átt. Ég vil, með leyfi forseta, fá að lesa upp úr stefnuyfirlýsingu stjórnarinnar þar sem segir m.a.: ,,Ríkisstjórnin mun ekki gera nýja samninga um meiri háttar hernaðarframkvæmdir og skipti Íslendinga við varnarliðið verða endurskipulögð.``
    Fyrirspurn mín er svohljóðandi, virðulegur forseti:
    ,,Hvernig ber að skilja það ákvæði í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að ,,skipti Íslendinga við varnarliðið verði endurskipulögð"?``
    Hvaða skipti er verið að tala um? Er verið tala um viðskipti, almenn samskipti? Þetta er ekki ljóst. Ég tel ástæðu til þess margra hluta vegna að fá það nákvæmlega skýrt hvað fyrir höfundum þessa skjals hefur vakað.