Skipti Íslendinga við varnarliðið
Fimmtudaginn 22. desember 1988

     Fyrirspyrjandi (Geir H. Haarde):
    Virðulegi forseti. Ég þakka utanrrh. fyrir afar greið og skýr svör við þessari spurningu. Ég tel að þarna sé komið það sem vantað hafi í stjórnarsáttmálann sjálfan og ég vona að alþýðubandalagsráðherrarnir þrír --- sem eru nú allt í einu mættir hér allir saman þó að það sé ekki venju samkvæmt --- ég vænti þess að þetta sé sá skilningur sem þeir sem aðilar að stjórnarsamstarfinu leggja líka í þetta ákvæði og um það sé þá enginn ágreiningur. Þetta sé nákvæmlega það sem um hefur verið samið í stjórnarmyndunarviðræðunum þó að það hafi ekki mátt setja það á blað við stjórnarmyndunina sjálfa. Hér er um að ræða ýmsa þætti sem snerta dagleg samskipti við varnarliðið en ekkert, ég undirstrika ekkert, sem snertir grundvallarstefnuna í afstöðu Íslendinga til varnarliðsins sjálfs og aðildar Íslands að Atlantshafsbandalaginu. Þessu vil ég fagna og tel mikilvægt að þessar upplýsingar séu komnar fram.