Skipti Íslendinga við varnarliðið
Fimmtudaginn 22. desember 1988

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Fulltrúi kaldastríðsviðhorfanna á Alþingi, hv. þm. Geir H. Haarde, heldur áfram uppteknum hætti þó að veröldin í kringum hann sé sífellt að breytast. Það hefur væntanlega farið fram hjá hv. þm. að fyrir nokkrum dögum var stigið stórt skref í afvopnunarátt í Evrópu. Þá tilkynnti forseti Sovétríkjanna tillögur Sovétríkjanna um stórfellda einhliða afvopnun í Evrópu. ( GHH: Eru ekki fyrirspurnir til umræðu, forseti?) Það er greinilegt að fulltrúi kaldastríðsviðhorfanna þolir ekki að heyra frásagnir af því sem er að gerast í hinni raunverulegu veröld og vill halda áfram að vera lokaður inni í sínum gamla kaldastríðsheimi hvað sem gerist í kringum hann. Það hefur verið grundvallarkenning þessara kaldastríðssinna um áratugaraðir að afvopnun megi aldrei gerast með þeim hætti sem hún er nú að gerast, með einhliða stórum skrefum. Hún mun halda áfram á þann hátt og þess vegna er það óhjákvæmilegt að Íslendingar þurfa að endurskoða samskipti sín við varnarliðið bæði nú og í framtíðinni vegna þess að þessi þjóð mun ekki daga ein uppi í heimi kalda stríðsins þegar Evrópa og heimurinn allur verður fyrir löngu kominn þaðan. Það er sá veruleiki sem hv. þm. ætti að hugleiða að fremstu forustumenn vestrænna ríkja eru líka á þeirri skoðun að kalda stríðinu sé lokið. Það er tími til kominn fyrir hv. þm. að átta sig á því, nema hann ætli að halda áfram, vonandi í sinni löngu þingsögu, að standa hér upp við og við og reyna að hugga sjálfan sig og litlu klíkuna í Sjálfstfl. við það að þrátt fyrir að heimurinn sé að breytast heldur kalda stríðið áfram að vera til í innsta hring Sjálfstfl.