Skipti Íslendinga við varnarliðið
Fimmtudaginn 22. desember 1988

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Hv. 1. þm. Reykn. Matthías Á. Mathiesen, sem lét mynda sig fyrir framan flugstöðina fyrir síðustu kosningar til að hæla sér sérstaklega af hinni traustu framkvæmdastjórn sem þar átti sér stað, var að þakka vestrænum sjónarmiðum þann ávinning sem hefur verið að nást í gjörbreyttri stöðu í afvopnunarmálum. Ef hann kynnir sér ummæli forustumanna Bandaríkjanna á síðustu vikum vegna hinnar nýju ákvörðunar Sovétríkjanna um stórfellda einhliða afvopnun kom sú ákvörðun þeim öllum mjög á óvart. Það var þess vegna ekki með neinum hætti afleiðing af stefnu sem ætlað var að hafa þessa afleiðingu heldur var það þvert á móti stórt nýtt einhliða afvopnunarskref sem mun hafa stórfelld áhrif á samskipti Íslands við varnarliðið ef við viljum ekki sitja einir eftir þegar Evrópa verður að afvopnast öll og ef við viljum taka höndum saman á Alþingi til að koma í veg fyrir að vígbúnaðurinn í höfunum haldi áfram. Það er stefna sem núverandi utanrrh. hefur áréttað að það verði að koma í veg fyrir slíkt og ég vona að fyrrverandi flugstöðvarbyggingarráðherra og fulltrúi kaldastríðsviðhorfanna í Sjálfstfl. fari nú að átta sig á hinum nýja veruleika.