Skattskylda innlánsstofnana
Fimmtudaginn 22. desember 1988

     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Eiður Guðnason):
    Herra forseti. Hér er um að ræða frv. til laga um breytingu á lögum um skattskyldu innlánsstofnana með síðari breytingum.
    Þetta frv. hefur verið á döfinni og í umræðunni allt frá 1982 og tekið til banka og innlánsstofnana að veðdeildum undanskildum. Oftlega hafa verið uppi áform um að skattleggja með sama hætti ýmsa fjárfestingarlánasjóði sem starfa í landinu, en þeir eru margir og þeir eru ólíkir.
    Þegar þetta frv. var lagt fram á þessu hausti voru að vísu í því nokkur undanþáguákvæði, svo sem um byggingarsjóðina og nokkra fleiri sjóði, en það kom hins vegar fljótlega í ljós í umfjöllun nefndarinnar að hér voru vafatilvikin mörg og ólík. Það kom raunar líka í ljós að það var engan veginn ljóst hverjar tekjur þetta frv. mundi gefa. Það var talað um 300 millj., en við athugun málsins kom í ljós að nánast var ógjörningur að áætla tekjur af þessu frv. á næsta ári með nokkurri nákvæmni. Það kom líka í ljós í umfjöllun nefndarinnar að þessir fjárfestingarlánasjóðir eru svo margir og svo ólíkir og hafa tekjur með svo ólíkum hætti og lána eða styrkja með ýmsu móti að frv., eins og það var var hreinlega þannig vaxið að það var ekki unnt að samþykkja það. Það hefði leitt til margháttaðra erfiðleika, ágreinings og hugsanlega málaferla. Því er það að meiri hl. leggur nú til að frv. verði samþykkt með breytingum sem er að finna á þskj. 363, þ.e. að þessi skattlagning takmarkist við viðskiptabanka, sparisjóði og veðdeildir við innlánsstofnanir.
    Um það hefur ekki verið neinn ágreiningur í nefndinni að þetta væri hin ákjósanlega leið. Menn getur greint á um ágæti skattsins og skattlagningarinnar, en þetta er sú leið sem er hreinlegust og hún er skilgreind og skýr og hana ber að fara hvað sem menn segja um skattlagninguna.
    Hér er sérstaklega tekið fram í brtt. við 2. gr. að til skattskyldra tekna og eigna samkvæmt 1. gr. laganna teljast ekki tekjur og eignir stofnlánasjóða sem stofnaðir eru með sérstökum lögum eða með reglugerð á grundvelli heimilda í lögum.
    Ég held ekki, herra forseti, að það sé ástæða til að gera frekari grein fyrir þessu. Málið var hreinlega ekki nægilega skýrt og því leggur meiri hlutinn til og það er að höfðu samráði við hæstv. fjmrh. að frv. verði samþykkt með brtt. á þskj. 363.
    Undir það nál. rita, auk þess er þetta mælir, Jóhann Einvarðsson, Valgerður Sverrisdóttir og Margrét Frímannsdóttir. Júlíus Sólnes ritar undir með fyrirvara. Danfríður Skarphéðinsdóttir sat fundi nefndarinnar og er samþykk þessu áliti.