Skattskylda innlánsstofnana
Fimmtudaginn 22. desember 1988

     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Eiður Guðnason):
    Herra forseti. Vegna þeirra ummæla hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar, að hér væri um sérstakan skatt á húsnæðislánakerfið að ræða, þá held ég að það sé rétt að það komi fram alveg áreitnilaust að milli veðdeildar Landsbanka Íslands og Húsnæðisstofnunar er í gildi samningur um þá þjónustu sem veðdeildin lætur Húsnæðisstofnuninni í té. Ef veðdeild Landsbanka Íslands hefur hagnað af því að vinna fyrir Húsnæðisstofnun ríkisins er sá hagnaður skattlagður. Ef veðdeild Landsbanka Íslands væri undanþegin væri það í hæsta máta óeðlilegt vegna þess að þó svo að veðdeild Landsbanka Íslands sé nú um stundir ekki með umfangsmikla lánastarfsemi sér hún þó um innheimtu þrjú eða fjögur hundruð viðlagasjóðslána og sitthvað fleira þannig að það væri í rauninni ekki eðlilegt að undanþiggja hana þessari skattlagningu. Ég hygg að við getum verið sammála um það, hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson, að hér er í rauninni um mjög smáar upphæðir að ræða ef einhverjar.