Skattskylda innlánsstofnana
Fimmtudaginn 22. desember 1988

     Júlíus Sólnes:
    Virðulegi forseti. Þegar við 1. umr. mæltist mér svo að við værum tilbúnir að líta á þá breytingu sem hér er lögð til með jákvæðu hugarfari og grunduðum það með því að í sjálfu sér leggjum við mikla áherslu á að skattlagning sé almenn og það sé engin mismunun fólgin í skattlagningu, hvorki á fyrirtæki né einstaklinga. Um þetta ræddum við mikið m.a. á fundi hv. fjh.- og viðskn. í morgun þar sem einmitt þetta atriði var mjög tíundað, þ.e. að skattalög verða að vera þannig að þau virki almennt þannig að það séu engar undantekningar í skattalögunum sem menn notfæri sér á þann hátt að hafa af því hag. Ég vil mjög eindregið taka undir þetta.
    Þess vegna töldum við að það væri mjög eðlilegt að skattlagning á banka, sparisjóði og aðrar innlánsstofnanir væri með svipuðum hætti þannig að það væri ekki hægt með því að notfæra sér ákvæði í skattalögum að flytja rekstur og starfsemi yfir í annað form vegna þess að það nyti hagstæðari skattlagningar eða jafnvel undanþágu frá skattlagningu. Þess vegna töldum við okkur út af fyrir sig geta stutt hugmyndir þar að lútandi að gera þetta almennara og að skattlagning yrði með sama hætti hvaða form sem væri á viðkomandi peningastofnun.
    Hins vegar kom það fljótt í ljós við meðferð málsins í hv. fjh.- og viðskn. að þetta frv., eins og svo mörg önnur tekjuöflunarfrv. ríkisstjórnarinnar, hafði verið ákaflega lítið ígrundað og flausturslega samið. Ég held að það verði kannski sú minning sem við komum til með að eiga eftir þessa erfiðu daga okkar í hv. þingdeild í desembermánuði 1988 þar sem við höfum þurft að fjalla um hvert tekjuöflunarfrv. á fætur öðru þar sem hefur verið kastað til höndunum.
    Þetta er eitt slíkra. Það hefði verið nauðsynlegt að vinna frv. miklu, miklu betur og í raun og veru hefði átt að afturkalla þetta frv. og leggja það kannski fyrir að ári, eftir að búið væri að grandskoða alla þætti þess og fara betur ofan í málið. M.a. kom skemmtilega og sérkennilega fram í meðferð hv. fjh.- og viðskn. á þessu máli að ríkið væri að verulegu leyti að skattleggja sjálft sig eins og upphaflega var lagt til. Sérstaklega var það broslegt að taka fyrir sjóði þar sem það eina sem sjóðirnir hafa af fjármagni er beint ríkisframlag af fjárlögum og síðan eiga þeir að borga skatt af því til ríkisins aftur. Þetta er aldeilis fráleitt.
    En það varð úr að á þessu frv. voru gerðar verulegar breytingar þannig að nú er um það að ræða að aðeins er bætt við veðdeildum bankanna. Að þeirri breytingu tel ég að sé hægt að standa, en ætli menn að gera meira þarf að leggja í það miklu meiri og nákvæmari vinnu.