Skattskylda innlánsstofnana
Fimmtudaginn 22. desember 1988

     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Ég hefði kosið að hæstv. sjútvrh. hefði fremur tekið þátt í umræðum í þessari deild um atvinnumálin og gert grein fyrir stefnu sinni um þau en taka þá loksins til máls og taka þátt í efnislegri umfjöllun um frv. hér í deildinni þegar hann er að verja skattheimtuna. Ég verð að segja eins og er að þó þessi hæstv. ráðherra sé vel að sér í skattamálum og hafi sannarlega úr miklu að moða þar stendur honum nær að tala um sjávarútveginn, en um þau efni hef ég beint til hans fjöld fyrirspurna og hefur hann kosið að láta þögnina svara þegar komið er að þeim málaflokki sem hann hefur fjallað um í ríkisstjórninni og raunar borið ábyrgð á um alllangt skeið. En úr því að hæstv. sjútvrh. hefur loksins tekið til máls vil ég reyna að svara því sem hann segir.
    Samkvæmt upplýsingum sem við höfum frá samtökum iðnaðarins og staðfestar voru af hagdeild fjmrn. lætur nærri að raungildi tekjuskattshækkunar á þessu ári sé --- ja, ég er ekki með tölurnar en það er nú ekki minna en 30% raungildishækkun á tekjuskatti og mun ég víkja nánar að því síðar og er þá ekki tekið tillit til eignarskatts og skatts á verslunar- og skrifstofuhúsnæði þegar við erum að tala um það. Auðvitað gefur auga leið að þegar við erum að tala um réttláta skattheimtu er grundvallaratriðið og forsendan fyrir því að við getum notað orðið ,,réttlátur`` að átta sig á því hvers eðlis tekjuskatturinn er, hvort hann er rán eða eðlilegt framlag til ríkisins, til ríkissjóðs og heildarinnar. Mín skoðun er sú að skattarnir á atvinnureksturinn núna séu fremur rán og eignaupptaka en hægt sé að tala um að það sé eðlilegt framlag til sameiginlegra þarfa.
    Í öðru lagi vil ég nú segja að ég hef jafnan verið andvígur því og ekki skilið þegar hugmyndir hafa komið fram um að skattleggja fjárfestingarlánasjóði sem eru í eðli sínu stofnanir en ekki viðskiptafyrirtæki og skal ég góðfúslega taka dæmi um það máli mínu til skýringar. Þegar við rifjum upp eðli Stofnlánadeildar landbúnaðarins hefur eigið fé hennar og rekstrarfé verið byggt upp með þeim hætti að lagður hefur verið skattur á bændur sem þeir hafa greitt til deildarinnar til þess að hægt sé að dreifa fjármagnsbyrðunum á bændastéttina í heild en það er gert til að auðvelda uppbyggingu og endurnýjun í þessari stétt. Um leið og ákvörðun er tekin um að skattleggja Stofnlánadeild landbúnaðarins er óhjákvæmilegt að endurskoða þessar reglur einfaldlega vegna þess að þá er ríkið farið að skilgreina Stofnlánadeild landbúnaðarins sem venjulegt viðskiptafyrirtæki og þá leiðir af sjálfu sér að bændur kæra sig ekki um að leggja eins og áður framlag til deildarinnar til að láta skattleggja það þar, en það þýðir auðvitað að vextir Stofnlánadeildar hljóta að hækka mjög verulega og mjög auknar kröfur hljóta að verða gerðar um veð og annað í viðskiptum deildarinnar.
    Hið sama á við um Iðnlánasjóð. Bragi Hannesson bankastjóri upplýsti okkur um að víðast hvar erlendis væru slíkir sjóðir reknir með halla og hefðu nokkurn

stuðning frá atvinnugreinum eða hinu opinbera og hann þekkti ekki til að iðnlánasjóðir væru skattlagðir neins staðar í kringum okkur. Það leikur að vísu vafi á því hvort svo kunni að vera komið nú að farið sé að skattleggja sjóði af þessu tagi í Danmörku og það er athyglisvert að þar hefur líka skotið upp þeirri hugmynd að skattleggja lífeyrissjóði. Sú hugmynd kom þar upp en var kveðin í kútinn. En raunar datt það upp úr hæstv. sjútvrh. áðan að lífeyrissjóðir væru fjármálastofnanir og þá er spurningin: Hvað þýðir orðið fjármálastofnun? Hvað þýðir það? Er fjmrn. fjármálastofnun og á þess vegna að skattleggja fjmrn.? Eru innheimtudeildir sveitarfélaga fjármálastofnanir og á þess vegna að skattleggja innheimtudeildir sveitarfélaga? Auðvitað er þetta ekki annað en leikur að orðum.
    Eðli málsins samkvæmt væri eðlilegt t.d. að skattleggja Verslunarlánasjóð vegna þess að hann er í einkaeign og hann lýtur hinum viðskiptalegu lögmálum og fellur inn í skilgreiningu á því sem við getum kallað fyrirtæki. En hugmyndir meiri hlutans í nótt voru þær að láta Verslunarlánasjóð og Stofnlánadeild samvinnufélaga vera undanþegin þessum skatti á sama tíma og hreinar stofnanir eins og Iðnlánasjóður, Fiskveiðasjóður, Stofnlánadeild landbúnaðarins og Iðnþróunarsjóður áttu að skattleggjast, en enginn af þessum sjóðum getur fallið undir skilgreiningu viðskiptafyrirtækis vegna þess að þessir sjóðir eiga í engri samkeppni, eru annað tveggja: sjálfseignarstofnanir eða í opinberri eigu og lúta allt öðrum tilgangi, hafa allt annað eðli og hafa allar verið byggðar upp ýmist með opinberu fé eða beinu framlagi stéttanna sem ekki hefur verið eignfært. Við erum því að tala hér um alls óskyldar stofnanir.
    Ég hjó líka eftir því að hæstv. sjútvrh. talaði um að eðlilegt væri að sams konar skattareglur giltu um skattlagningu á einkafyrirtækjum og skattlagningu á samvinnufyrirtækjum. Í því frv. sem liggur fyrir um tekju- og eignarskatt segir í athugasemdum við 7. gr.: ,,Það hefur tíðkast nokkuð að hlutafélög veiti eigendum sínum eða stjórnendum veruleg peningalán, oftar en hitt á vildarkjörum, vaxtalaust og óverðtryggt. Þegar áhrif verðbreytinga á eignir og skuldir félags eru metin myndar þessi neikvæða ávöxtun á peningaeign
fyrirtækja stofn til gjaldfærslu. Telja verður óeðlilegt að félög geti lækkað skattskyldar tekjur sínar með lánafyrirgreiðslu af þessu tagi. Því er lagt til í þessari grein að lán hlutafélaga til hluthafa, stjórnarmanna og framkvæmdastjóra félaga teljist ekki sem eignir við útreikning á verðbreytingarfærslu samkvæmt þessari grein laganna.``
    Ég spurði ríkisskattstjóra af þessu tilefni hvort það væri rétt skilið hjá mér að hlutafélögin hefðu haft skattalegt hagræði af því að geta talið slík lán sem eignir við útreikning á verðbreytingarfærslu og hann sagði já við því. Ég spurði ríkisskattstjóra að því hvort samvinnufélögin mundu halda þessu hagræði. Við vitum að það hefur lengi tíðkast, svo áratugum skiptir, að hluti af launakjörum æðstu manna

samvinnuhreyfingarinnar á mismunandi tímum og á mismunandi stöðum eftir atvikum hefur verið fólginn í mjög hagstæðri lánafyrirgreiðslu. Ég spurði þess vegna ríkisskattstjóra að því hvort samsvarandi heimildir væru gagnvart samvinnufélögum og hlutafélögum eða hvort það væri meining fjmrh. með frv. að halda hinu skattalega hagræði hjá samvinnufyrirtækjunum en taka fyrir það hjá hlutafélögunum. Hann sagði að hugmyndin á bak við frv. væri sú að það ætti að loka fyrir þetta hjá hlutafélögunum, halda skattalegu hagræði hjá samvinnufélögunum. Þá spurði ég ríkisskattstjóra hvort hann teldi að það samrýmdist þeim almennu sjónarmiðum sem samkvæmt stjórnarskrá er skylt að leggja til grundvallar skattlagningu að gera þannig upp á milli samvinnufyrirtækja og hlutafélaga. Svar ríkisskattstjóra var að hann teldi ekkert því til fyrirstöðu og að það samrýmdist stjórnarskrá íslenska lýðveldisins að gera með þessum hætti upp á milli rekstrarforma fyrirtækja þannig að samvinnufyrirtækin mega að hans dómi hygla sínum mönnum og hafa af því skattalegt hagræði þó svo að einkafyrirtækin megi það ekki. Ef það er meining hæstv. sjútvrh. að hið sama eigi að gilda um einkareksturinn og um samvinnureksturinn er sjálfsagt að láta á það reyna nú við atkvæðagreiðslu á eftir, breyta lagagreininni á þann veg að þessar heimildir taki einnig til samvinnufélaga. Mun ég nú þegar að lokinni umræðu um þetta mál hafa samband við ríkisskattstjóra og biðja hann að koma hingað niður í Alþingi brtt. við frv. sem felur í sér að sá jöfnuður milli þessara rekstrarforma, sem sjútvrh. vill koma á og vill hafa, haldist og megi vera.