Vörugjald
Fimmtudaginn 22. desember 1988

     Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Eyjólfur Konráð Jónsson):
    Herra forseti. Þess er fyrst að geta að í önnum dagsins urðu smámistök varðandi minnihlutaálit sem var dreift áðan. Það var ekki algjörlega rétt og er verið að endurprenta það og það kemur á borðin væntanlega innan stundar. Það breytir engu efnislega en ég vildi vekja á þessu athygli.
    Eins og allir hér vita er þetta mál liður í ofsköttunar- og ofstjórnarstefnu núv. hæstv. ríkisstjórnar. Þetta er margrætt. Fyrir utan alla skattaáþjánina sem í öllum þessum frv. felst er þetta meingallað frv. eins og raunar frsm. meiri hl., hv. þm. Eiður Guðnason, var að geta um. Hann nefndi þá sem voru á fundum hjá okkur í morgun til að ræða skattamálin í heild. Það voru Sigurður B. Stefánsson, Lárus Ögmundsson, ríkisskattstjórinn, Víglundur Þorsteinsson, formaður Félags ísl. iðnrekenda, og Ólafur Davíðsson framkvæmdastjóri.
    Auðvitað snerust málin mikið um þetta frv. Ekki svo að skilja að neitt hafi komið fram nýtt. Það var bent á þá annmarka sem er á framkvæmd þessara laga og sérstaklega að því er varðar gjald á sykur og sykraðar vörur og allar þær undanþágur sem því eru samfara. Einnig er vörugjaldið mjög erfitt í framkvæmd, t.d. fyrir framleiðendur innréttinga og húsgagnaframleiðendur sem eiga við nægilegan vanda að etja nú þegar.
    Allir vita að hér er verið að stórhækka byggingarkostnað. Það á víst að vera liður í að leysa húsnæðisvanda fátæka fólksins eða þeirra sem eru ungir að árum og þurfa að byggja yfir sig. Að því er gamla fólkið varðar er verið að leggja á gífurlega eignarskatta, hærri en nokkurs staðar þekkjast, það fullyrði ég algerlega, þannig að það fólk verður að flytja úr húsum sínum ef fram heldur sem horfir, a.m.k. ef þessi skattlagning ætti að vera varanleg í meira en eitt ár. Þá held ég að færi að syrta í álinn bæði hjá ungum og öldnum. Ég hygg að það fari ekkert milli mála.
    Til að gera langt mál stutt, af því að ég vil greiða fyrir að það samkomulag standi sem gert hefur verið, held ég að það sé nægilegt að vitna til svolítilla orðaskipta sem urðu á fundinum. Sigurður B. Stefánsson sagði þar að það sem væri nú verið að lögfesta, einkum gagnvart fyrirtækjunum en á auðvitað líka við um einstaklinga, væri hæsta skatthlutfall um langa tíð. Ekki vildi hann nefna árafjöldann, en ég endurtek: hæsta skatthlutfall um langa tíð.
    Ég spurði þá aðra viðstadda, ég hef talið þá upp, hvort einhver þeirra væri annarrar skoðunar eða vildi hrekja þetta sjónarmið og endurtók þá spurningu og enginn gaf sig fram. Þeir samþykktu allir að nú væri verið að lögfesta hæsta skatthlutfall á Íslandi um langa tíð.
    Það er þess vegna ekkert ofsgt að hér sé um ofsköttun að ræða, bæði að því er varðar beina skatta og óbeina. Það fer ekki milli mála að þetta er hæsta skatthlutfall í sögu þjóðarinnar kannski þó að ég viti ekki nákvæmlega hvernig var á kreppuárunum. Og

hvenær eru þessir skattar hækkaðir? Á hvaða tíma eru þeir hækkaðir? Á þeim tíma þegar sjálfur forsrh. segir að þjóðargjaldþrot liggi við, á þeim tíma sem allir vita að er mikill samdráttur í atvinnulífinu, á þeim tíma sem þeir vita að kjararýrnun hefur þegar orðið gífurleg og á þeim tíma sem allir segja: Það er að byrja atvinnuleysi. Enginn fer dult með það. Þá á að vera með hæsta skatthlutfall í sögunni á atvinnuvegina, gjaldþrota atvinnuvegi sem þeir því miður eru flestir. Þar á meðal eru gjaldþrot gífurleg fram undan í versluninni, ekki síst dreifbýlisversluninni, af því allir halda nú að það sé hægt að græða á verslun. Sumir byrja raunar verslunarrekstur, en vakna svo upp við vondan draum þegar fyrirtækið fer á hausinn eftir nokkra mánuði.
    Á þessum tíma er hæstv. ríkisstjórn búin að koma þessu fram. Hún náði meiri hluta. Það sættum við okkur auðvitað við í minni hlutanum. Annars mundi ekkert af þessum frumvörpum verða afgreitt nú ef ríkisstjórnin hefði ekki tryggt sér meiri hluta á þingi og læt ég nú alveg bíða að ræða um með hvaða hætti tókst að ná þeim meiri hluta. Það á sagan eftir að skýra. Það má kannski benda á að hæstv. utanrrh. sagði skömmu eftir myndun þessarar stjórnar að þetta hefði verið hægt að gera á skömmum tíma vegna þess að það væru vanir menn. Vanir menn voru að verki. Það hafa vanir menn verið að verki undanfarna daga í þinginu. Við getum séð hvernig þeir hafa unnið. Þeir tryggðu sér, vönu mennirnir, þeir kunnu aðferðirnar, meiri hluta og þeir ætla að halda honum. Þeir ætla að halda þessari stjórn áfram hvað sem tautar og raular. Þeir sem nú ráða í flokki hv. þm. Eiðs Guðnasonar, af því að hann brosir, og hv. þm. Stefáns Guðmundssonar, af því að hann brosir líka, ætla að halda þessu áfram. ( EG: Við brosum í dag.) Þið skuluð vera undir það búnir að þessi stjórn haldi áfram. ( EG: Er þetta hótun?) Já, það er nefnilega hótun til frjálslyndra manna sem þeir eru báðir, hv. þm. Það er hótun í þeirra garð. Þeir eiga eftir að sitja uppi með þessi ósköp næstu mánuðina og þeir eiga eftir að sitja uppi með gífurlegar óvinsældir allra stétta í þessu þjóðfélagi, en einkum þó láglaunafólksins, fólksins sem í dag á ekki peninga til að kaupa inn til jólanna og það á að skerða kjör þess enn. Það var talað upphaflega um 8% kjaraskerðingu, síðan var hún hækkuð í 10%, farið að tala um 12, 15 og það er komin með þeim frumvörpum sem eru þarna núna a.m.k. 15% kjaraskerðing. Ég hef
sagt úr þessum ræðustól: Hvað hefur maðurinn, sem jafnvel hefur 100 þús. kr. á mánuði, sem þykja bara sæmileg laun núna, eftir þegar hann er búinn að borga af húsinu sínu, hvort sem það er leiga eða af húsnæðislánum, þegar hann er búinn að borga ljós og hita, rafmagn, útvarp, sjónvarp, bíldruslu? Hvað hefur hann eftir fyrir mat og klæðum? Og hvað hefur hann eftir þegar búið er að rýra kjör hans a.m.k. um 15% þegar komin eru í gildi þessi lög sem við erum að samþykkja núna? Það vita það allir hér inni að þessi maður hefur ekkert eftir í kreppuástandi. Kannski er hann atvinnulaus.

    Það þarf ekkert að hafa fleiri orð um þetta. Þessir vönu menn vita hvað þeir eru að gera. Ef þeir vissu það ekki væri hægt að fyrirgefa þeim. En þeir vita að þeir eru að leiða fátækt og örbirgð yfir þúsundir heimila, gjaldþrot eiginlega, ekki bara atvinnuveganna. Það er sagt að það sé bara verið að skattleggja ríka fólkið. Það er ekki verið að því. Það er allt fólkið í landinu sem borgar skattana, hvort sem það er í gegnum milliliði eða ekki. Allir skattar, hverju nafni sem nefnast, eru tilfærsla á eignarrétti, á fjármunum frá fólkinu í landinu til ríkisins, í ríkishítina. Það má segja að sumir skattar séu góðir og aðrir slæmir. T.d. sé góður skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði af því að í fyrsta umgangi er hann borgaður af eigendum húsnæðisins. Það fer allt saman yfir í verðlagið, leiðir af sjálfu sér.
    Við getum deilt óendanlega um hvað séu góðir skattar og hvað slæmir. En við getum ekki deilt um að þegar búið er að skattleggja allan landslýð þannig að þjóðartekjurnar rýrni, samdráttur verði í atvinnulífinu, fólkið hefur takmarkaða atvinnu eða enga, þá fær ríkið ekki heldur sína peninga. Og þegar búið er að mergsjúga fólkið eitt árið enn með því að leggja alltaf ár frá ári á gífurlega skatta, 5 milljarða í fyrrahaust, 7 núna, fyrir utan allt sem ríkið nær eftir öllum krókaleiðunum, þegar búið er að skattleggja fólkið þannig verður enginn til að borga skattana.
    Ég ætla að endurtaka úr þessum stól að það er þó reyndar enn þá þannig að 2 / 3 af umsvifum þjóðfélagsins eru á vegum atvinnuveganna, ekki nema 1 / 3 á vegum ríkisins. Ríkið tók í fyrra 5 milljarða, ætlar að taka 7 núna af fólkinu og atvinnuvegunum til að fylla í gatið sitt sem alltaf stækkar þó. Hvernig eiga atvinnuvegirnir að ná í þessa peninga? Ég spurði hv. þm. Skúla Alexandersson að þessu fyrir hálfum mánuði, þrem vikum, af því að hann er atvinnurekandi. Hvernig eiga atvinnuvegirnir að ná í þá? Hann veit jafn vel og ég að þetta er della allt saman upp úr og niður úr.
    En stjórnin hefur meiri hluta, a.m.k. að sinni, og þeir ætla sér, hæstv. menntmrh., fjmrh., utanrrh. og forsrh., að halda völdunum og þá virðist ekkert varða um það þó að það sé á kostnað fátækasta fólksins í landinu.